[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Helgi Vífill Júlíusson helgivifill@mbl.

Baksvið

Helgi Vífill Júlíusson

helgivifill@mbl.is

Almenn ný útlán Íbúðalánasjóðs námu 9,3 milljörðum króna á liðnu ári en uppgreiðslur lána hljóðuðu upp á 17,7 milljarða króna á sama tíma, samkvæmt samantekt Morgunblaðsins sem unnin er úr mánaðarskýrslum sjóðsins. Miðað við þetta er sjóðurinn að fá mun hærri fjárhæðir til baka frá viðskiptavinum sem uppgreiðslur en hann getur komið aftur í vinnu í formi nýrra útlána. Sjóðurinn býr því við svokallaða endurfjárfestingaráhættu; að koma fjármunum aftur í vinnu á sömu kjörum og þau lán sem var verið að greiða upp.

Lán til einstaklinga

Sigurður Erlingsson, forstjóri Íbúðalánasjóðs, vekur athygli á því í samtali við Morgunblaðið að um sé að ræða útlán til einstaklinga. Samtals voru útlán sjóðsins 13,1 milljarður króna. „Þetta lýsir því ekki heildarmyndinni. Þegar horft er til nýrra útlána hjá Íbúðalánasjóði og uppgreiðslu lána viðskiptavina er fjárflæðið nokkurn veginn í jafnvægi og hefur verið það undanfarin tvö ár. Það er lítillega meira af uppgreiðslum en nýjum útlánum,“ segir hann. Alla jafna séu lán Íbúðalánasjóðs um 80% til einstaklinga og 20% til lögaðila, en um þessar mundir eru lán til einstaklinga um 90-95% af lánasafninu og lánasafn einstaklinga dregst lítillega saman

Sigurður segir að í þeim tölum sem Morgunblaðið horfi til sé heldur ekki tekið tillit til lána sem aðrir viðskiptavinir hafi tekið yfir á árinu. Þau séu um 20-30% hærri en ný útlán hjá sjóðnum. Það sem hér um ræðir er þegar sá sem festir kaup á húsnæði tekur jafnframt yfir áhvílandi lán á eigninni í stað þess að taka nýtt lán til að fjármagna kaupin. Þá sé mikilvægt að hafa í huga að þó svo sjóðurinn komi uppgreiddum lánum ekki í útlán á ný sé lausaféð notað til að greiða upp skuldir sjóðsins og þannig ná jafnvægi milli eigna og skulda. Á árinu 2013 voru dregin út húsbréf fyrir 5,5 milljarða króna og á árinu 2014 eru stórir gjalddagar sem valda því að hluti lausafjár nýtist til niðurgreiðslu skulda sjóðsins.

Hann segir að vandi Íbúðalánasjóðs sé tvíþættur: Annars vegar séu vaxtakjörin sem sjóðurinn bjóði lántakendum hærri en hjá keppinautunum um þessar mundir vegna þess að vextir hafi lækkað en rekstri sjóðsins sé stillt upp með þeim hætti að hann geti ekki boðið betri kjör. Hins vegar má sjóðurinn ekki bjóða upp á óverðtryggð húsnæðislán. Talið sé að slík lán nemi 55-75% af nýjum lánum. „Sjóðurinn tekur því ekki þátt í að lána til umfangsmikils hóps húsnæðiskaupenda,“ segir Sigurður.

Getur ekki boðið betri kjör

Íbúðalánasjóður getur ekki boðið betri lánskjör, að hans sögn, vegna þess að sjóðurinn er fjármagnaður með því að gefa út skuldabréf sem fjárfestar kaupi. Þegar ráðist er í skuldabréfaútgáfuna eru útlánavextir sjóðsins ákveðnir. Sjóðurinn gaf síðast út skuldabréf fyrir tveimur árum en á sama tíma hafa vextir farið lækkandi. Sjóðurinn er með nægt laust fé og því hefur hann ekki gefið út skuldabréf nýlega. „Stjórnvöld hafa ráðlagt okkur að sækja ekki frekara fé á markað í ljósi þess að við ráðum yfir nægu lausafé, sem er skynsamlegt. Það er erfitt að bjóða upp á dýrustu vöruna – þá minnkar salan,“ segir hann.

Stjórnvöld hafa skipað verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála sem vinnur að því að breyta því með hvaða hætti Íbúðalánasjóður starfar. „Það er ekki komin niðurstaða í þá vinnu,“ segir Sigurður. Fyrir vikið hafi dregist að taka á einstaka atriðum á meðan unnið sé að því að móta framtíðarsýn sjóðsins. „Það er óheppilegt fyrir sjóðinn,“ segir hann.

Honum þykir rétt að fyrirkomulag Íbúðalánasjóðs sé með þeim hætti að hann geti boðið lántakendum sambærileg kjör og keppinautarnir. „Sjóðurinn þarf að geta fylgt vaxtaþróun markaðarins,“ segir Sigurður.