Skoskt Allt það besta er borið á borð á afmælisdegi skáldsins Roberts Burns.
Skoskt Allt það besta er borið á borð á afmælisdegi skáldsins Roberts Burns.
Frá deginum í dag til og með laugardagsins 25. janúar verður Burns Night fagnað á Kex Hostel en skoska skáldið Robert Burns var fætt 25. janúar árið 1759. Af því tilefni fagna Skotar og sömuleiðis Írar í Norður-Írlandi og efna til svonefnds Burns...

Frá deginum í dag til og með laugardagsins 25. janúar verður Burns Night fagnað á Kex Hostel en skoska skáldið Robert Burns var fætt 25. janúar árið 1759.

Af því tilefni fagna Skotar og sömuleiðis Írar í Norður-Írlandi og efna til svonefnds Burns Supper. Dagurinn gengur undir fleiri nöfnum og má þar nefna Robert Burns Day, Robbie Burns Day og Burns Night eins og Kex Hostel ætlar að notast við.

Þegar Burns er minnst er allt það besta tínt til og borið á borð. Haggis og viskí spila þar stærsta hlutverkið.

Hefðinni samkvæmt standa gestirnir þegar aðalrétturinn er borinn á borð og það er haggis á risastóru fati. Meðan þetta er gert er leikið á sekkjapípu.

Kaupmenn í Airskíri héldu fyrstir manna daginn hátíðlegan til heiðurs Robert Burns árið 1802 og því er hefðin orðin rúmlega 200 ára gömul.

Á Kex Hostel verður Burns Night fagnað með tónlist og mat. Haggis verður á sínum stað og það sama má segja um skoska viskíið auk góðrar tónlistar.

Skoskum tónlistarmönnum hefur verið boðið hingað til lands af þessu tilefni og má þar nefna Barnaby Brown, Sacred Paws og Conquering Animal Sound.

Íslenskir tónlistarmennirnir Benni Hemm Hemm og Snorri Helgason munu einnig koma fram.

Fólki er bent á að panta borð á kexland@kexhostel.is ætli það að setjst að snæðingi.

Í kvöld klukkan 21 kemur Benni Hemm Hemm fram og á eftir honum Conquering Animal Sound.

Annað kvöld kl. 21 verður það Snorri Helgason sem ríður á vaðið og á eftir honum stíga Sacred Paws á svið.

Á laugardaginn, Burns Night, mun tónlistarmaðurinn Barnaby Brown leiða fólk í allan sannleika um þennan merkilega dag og sekkjapípan verður eflaust ekki langt undan.