Ingibjörg Vilhelmína Guðmundsdóttir fæddist 12. júní 1916. Hún lést 13. janúar 2014. Útför hennar fór fram 18. janúar 2014.

Það er með mikilli virðingu og þakklæti sem ég kveð hana ömmu mína og nöfnu, Ingibjörgu Guðmundsdóttur. Þakklæti fyrir að hafa átt hana fyrir ömmu öll mín fimmtíu æviár og fyrir þær góðu tilfinningar sem minningarnar kalla fram, hlýjuna og umhyggjuna sem hún veitti mér. Ég hef á mínum fullorðinsárum svo oft hugsað til baka til þess góða tíma þegar ég var barn og fékk að upplifa sveitina hjá Ingu ömmu og afa mínum, Þórarni Þorfinnssyni, á Spóastöðum í Biskupstungum. Býlið hefur alla tíð verið rekið af miklum myndarskap. Vinnudagarnir voru langir og verkefnin fjölbreytt enda kýr, kindur, hænur, hestar og hundur, landið stórt, tækin mörg, veiðiá, borað eftir heitu vatni og grænmetisrækt. Afi var oddviti í sveitinni og þeim var báðum umhugað um velferð sveitunga sinna. Þjóðvegurinn lá í gegnum hlaðið og það var mikill gestagangur, vinnufólk og fjöldi barna sem fékk að dvelja þar. Verkaskiptingin var hefðbundin; amma sá um heimilið; þrif og þvotta, matseld og bakstur, og hún prjónaði og saumaði. Hún var með fallegan blómagarð og átti seinna gróðurhús þar sem hún ræktaði rósir og vínberjavið. Afskorin blóm stóðu gjarnan í vasa sem annaðhvort voru úr garðinum eða úr gróðurhúsinu. Hún fór í berjamó þegar það var hægt og það voru borðuð bláber með rjóma og svo sultað og saftað. Gæði jarðarinnar voru vel nýtt. Ég var höfð með í fjölbreyttum verkunum og virðingin fyrir afa og ömmu var mikil og mig langaði að leggja mig fram til að standa undir þeirra væntingum, enda hljóp ég oftast mínar sendiferðir. Þarna fékk ég að upplifa margt og mörg voru tækifærin til að læra.

Hún amma var næm og kom til móts við mínar þarfir án þess að það þyrfti að orða það. Ég minnist þess að mér fannst nú stundum meira spennandi að vera í útiverkunum en í inniverkunum. Í eitthvert skiptið var sólskin og allir í heyskapnum nema ég sem var að hjálpa ömmu inni. Amma skynjaði hvar áhuginn lá og sagði að þegar við værum búnar að brjóta saman þvottinn væri gott að ég færi og hjálpaði til úti. Hún vildi að ég fengi að fást við það sem vakti áhuga minn og aldrei skammaði hún mig. Amma var mjög umhyggjusöm og þægileg kona, hjálpsöm, ofurblíð og natin við börn, ætlaði öllum gott og tók öllum vel. Sem barn hugsaði ég að ef eitthvað kæmi fyrir pabba og mömmu þá vildi ég fá að búa hjá ömmu og afa. Afi lést árið 1984 og var hann þá 73 ára. Amma var því ekkja í 30 ár og síðustu 15 árin dvaldi hún á dvalarheimilinu Ási í Hveragerði þar sem vel var hugsað um hana. Þar tók hún þátt í félagsstarfinu og prjónaði öllum lausum stundum; síðustu árin eldhúshandklæði, þvottapoka og borðklúta. Hún lést á Ási á 98. aldursári á friðsælan hátt með tvær elstu dætur sínar hjá sér. Ég vil fyrir hönd okkar systkinanna, Ólafs Tryggva og Ýrar, þakka Ingu ömmu fyrir allt hið góða sem hún færði okkur.

Ingibjörg

Gísladóttir.

Nú hefur hún Inga frænka mín á Spóastöðum kvatt okkur í síðasta sinn, aldurinn var farinn að segja til sín og árin tæplega níutíu og átta ollu því að margar hafa gleðistundirnar verið og einnig sorgarstundirnar. Það hefur að vísu verið þannig með þau systkinin frá Innri-Hjarðardal að þau hafa öll náð háum aldri nema Helga systir þeirra, sem dó ung. Guðmundur Ingi skáld á Kirkjubóli segir í ljóði um heimilið í Hjarðardal, við útför Sigríðar Hagalínsdóttur mömmu Ingu:

Þar uxu tíu bjartleit börn í röð

með brek og fjas sem móðurhjartað skildi.

Og þú tókst öllum hlutum hæg og glöð,

þitt hjartans ráð var alltaf bros og mildi.

Og hvað sem brást, með vissu það ég veit,

á vinsemd þína bar ei nokkurn efa.

Ég held að engin önnur sem ég leit

jafn innilega kynni að fyrirgefa.

Líklega hefur þetta verið veganestið sem Inga frænka fékk þegar hún hélt úr átthögunum fyrir vestan, þar sem Þorfinnur gnæfir við himin og innlögnin er jafn örugg og að nýr dagur rísi að morgni, í ferðalag sem nú er lokið, ferðina að Spóastöðum. Ég átti því láni að fagna að vera bæði um sumar og vetur þar og þar lærði ég margt sem hefur komið mér vel á lífsleiðinni. Vinnusemi var í hávegum höfð og alltaf næg verkefni á stóru búi. Það var tilbreyting að koma að Spóastöðum sem lá um þjóðbraut þvera í orðsins fyllstu merkingu. Þar var gestkvæmt og margan manninn sá ég þar í fyrsta sinn, suma aldrei aftur, en sveitungana því oftar, því Þórir var oddviti sveitarinnar. Þetta var samt öðruvísi en ég átti að venjast frá þéttbýlinu í Auðsholti, þar sem barnafjöldinn var meiri og túnið allt leikvöllurinn. Þegar ég spurði Ingu frænku um sögur að vestan sem mamma hafði sagt mér bæði sannar og meira sannar fannst mér Inga frænka heldur draga úr, hún vildi að staðreyndirnar réðu ferðinni. En marga hluti sagði hún mér þegar við sátum tvö ein.

Samgangurinn milli Spóastaða og Auðsholts var talsverður enda frændsemi og vinskapur milli bæjanna, bæði pabbi og Þóri af gömlu Auðsholtsættinni og pabbi hafði verið vetrarmaður á Spóastöðum hjá frænda sínum og ekki minnkaði frændsemin þegar mamma kom að Spóastöðum til Ingu systur sinnar og átti eftir að giftast út að Auðsholti

Og nú þegar daginn er örlítið farinn að lengja og myrkrið er á undanhaldi fyrir ljósinu kvaddi hún Inga okkur – hvíldinni fegin. Nú er henni Ingu frænku minni búin hvíla austur á brún gamla kirkjugarðsins í Skálholti við hliðina á honum Þóra, þaðan sem aðeins er steinsnar út að Spóastöðum. Og með þessum orðum kveð ég hana frænku mína og ekki kæmi það mér á óvart þó að efst í blómabrekkunni stæði hár og grannvaxinn maður ögn lotinn í herðum með örlítið bros á vör og hann rétti Ingu frænku höndina og þau leiddust inn í upprás hækkandi sólar.

Gils Einarsson

Það er mikið lán að kynnast góðu fólki, njóta nærveru þess og hlýju og öðlast í tímans rás einlæga vináttu þess og góðvild. Þannig er mér innanbrjósts þegar ég rita hér nokkur orð í minningu Ingibjargar Guðmundsdóttur, fyrrverandi húsmóður á Spóastöðum í Biskupstungum.

Ungur man ég þá tíð að beðið var með óþreyju eftir vorinu, þessum dásamlega tíma, þegar allt lifnaði við. Skólinn loksins búinn og sauðburður á næsta leiti. Það var ekki laust við að manni þætti Ólafur Ketilsson aka nokkuð hægt á rútunni sinni á leið austur fyrir fjall, en farþegarnir, óþreyjufullir strákpjakkar, vildu komast sem fyrst í sveitasæluna, þar sem vorblærinn vakti vonir um ævintýralegt sumar. Sumar eftir sumar átti ég þess kost að dvelja í sveit hjá þeim heiðurshjónum Þórarni og Ingu. Það var heldur ekki amalegt að fá að vera þátttakandi í sveitastörfunum og sjá hversu vel búskapurinn gekk fram frá ári til árs. Tengsl mín við fólkið á Spóastöðum eru sprottin af þeirri einföldu staðreynd að móðir mín, Ásthildur, réð sig í kaupavinnu hjá Þórarni og Ingu þegar hún var ung stúlka og var hjá þeim í mörg sumur. Þeirra góðu tíma minnist hún oft með þakklæti og hlýju.

Ingibjörg á Spóastöðum var vestfirsk yngismær sem flytur á flatlendið á Suðurlandi og býr bónda sínum gott heimili og elur honum sex mannvænleg börn. Það var því í nógu að snúast þegar ég strákur úr Hafnarfirði ásamt fleirum bættust í hópinn. Eins og kálfur á vori, sísvangur og malandi, spyrjandi um allt milli himins og jarðar, já og eflaust hefur verið lítið gagn að stráknum til að byrja með. Aldrei fann ég þó annað en þá hlýju og það vinarþel sem einkenndi Ingu mína alla tíð. Henni var annt um að öllum liði vel og margar voru þær stundirnar sem ég gat leitað til Ingu minnar í blíðu og stríðu. Fyrir það verð ég ævarandi þakklátur. Inga skynjaði líka fljótt að hjá þeim hjónum undi ég hag mínum vel og ófáir eru þeir sem heyrt hafa mig vitna til þeirra sæmdarhjóna og góðra búskaparhátta á Spóastöðum, fyrr og nú. Í desember árið 1984 færði Inga mér fyrsta bindi úr bókaflokknum Sunnlenskar byggðir, en þar er fjallað um Tungur, Hreppa og Skeið. Þessa bók tek ég mér oft í hönd til að rifja upp gagnmerkar upplýsingar um bændur og búalið. Enn á ég þess kost að fara austur að Spóastöðum og dvelja þar í sveitasælunni og njóta þess að sjá afrakstur þeirra sem lögðu grunn að myndarlegum búrekstri á Spóastöðum. Reyndar ekki í hlutverki kúasmalans sem forðum, læt nú nægja að dásama umhverfið úr sumarhúsi á Brúarárbökkum.

Með þakklæti og virðingu kveð ég Ingibjörgu Guðmundsdóttur.

Blessuð sé minning hennar.

Magnús Gunnarsson.

Smávinir fagrir, foldarskart,

fífill í haga, rauð og blá

brekkusóley, við mættum margt

muna hvort öðru að segja frá.

Prýðið þér lengi landið það,

sem lifandi guð hefur fundið stað

ástarsælan, því ástin hans

alls staðar fyllir þarfir manns.

Faðir og vinur alls, sem er,

annastu þennan græna reit.

Blessaðu, faðir, blómin hér,

blessaðu þau í hverri sveit.

Vesalings sóley, sérðu mig?

Sofðu nú vært og byrgðu þig.

Hægur er dúr á daggarnótt.

Dreymi þig ljósið, sofðu rótt!

Þessar fögru ljóðlínur Jónasar Hallgrímssonar vil ég gera að yfirskrift minni þegar ég kveð aldna vinkonu, Ingibjörgu Guðmundsdóttur, sem hefur verið kölluð á vit æðri máttarvalda.

Ung fluttist hún suður yfir heiðar úr Önundarfirðinum. Á hlaðinu á Spóastöðum tók á móti henni hið fagra útsýni Vörðufellið, Hestfjallið, Mosfellið og Brúaráin himinblá sem liðast í farvegi sínum kannski ekki alveg eins tignarlegt og umhverfið sem hún ólst upp í.

Hún var hjartahlý kona, mikill dugnaðarforkur, hannyrðakona mikil og yndi hafði hún af ræktun, má segja að Ingibjörg hafi haft græna fingur, hún naut þess að rækta falleg blóm.

Fallegi garðurinn á Spóastöðum og litla gróðurhúsið báru þess glöggt merki hvað öllu var haganlega fyrirkomið.

Það var mikið gæfuspor fyrir Þórarin að hitta Ingibjörgu. Þau byggðu upp og ræktuðu jörð sína myndarlega, svo er enn í dag þar sem sonurinn Þorfinnur og synir hans hafa tekið við búskap.

Dæturnar eiga allar sína sælureiti á Spóastöðum, þar kemur í ljós hvað Ingibjörg hafði leiðbeint þeim vel með að fegra umhverfið.

Hún tók virkan þátt í starfi sveitarinnar. Heimili þeirra stóð ávallt opið, gestrisnin var mikil því starf oddvitans var krefjandi og margir þurftu að leita til hans. Hún bauð upp á kaffi í borðstofunni og voru málin rædd og krufin til mergjar. Hún hafði gaman af að spila og minnumst við þess þegar Skálholtssókn hélt spilakvöld en þá skiptust bæirnir á að halda þau, hún naut sín vel að taka þátt í þeim. Það voru ófáar ferðir farnar á milli Skálholts og Spóastaða. Mikil og góð samvinna var á milli þessara tveggja bæja og aldrei slitnuðu tengslin, þau voru órjúfanleg heild. Við systur nutum þess að vera sendar í pössun á Spóastaði og var það alltaf tilhlökkunarefni að fá að gista þar, ógleymanlegar stundir.

Síðustu árin dvaldi Ingibjörg á Ási í Hveragerði. Við mæðgur hittum hana á „Blómstrandi dögum í Hveragerði“ með dóttur sinni, faðmlagið var hlýtt og geymum við það í huga okkar.

Við fjölskyldan frá Skálholti biðjum góðan Guð að láta nýárssólina lýsa í hug og hjörtu ykkar á sorgarstundu.

Börnum Ingibjargar og fjölskyldum þeirra sendum ég innilegar samúðarkveðjur.

Kristín Björnsdóttir.

Nú er fallin frá húsmóðirin á Spóastöðum þar sem ég var svo lánsamur að fá að vera í sveit sem krakki og unglingur. Hún og Þórarinn hálfpartinn ólu mig upp á sumrin og sýndu mér mikla manngæsku og þykir mér því rétt að minnast hennar lítillega. Ég byrjaði að vera í sveit hjá þeim upp úr 1960, fyrst um sinn í skamman tíma en síðar heil sumur. Ingu aðstoðaði ég mest varðandi garðinn, vökvun og þess háttar. Garðurinn var henni til mikils sóma eins og allt annað er hún kom nærri. Oft var þó töluverður atgangur milli okkar strákanna, sem hún leysti af stakri prýði.

Oft sagði Inga mér sögur að vestan, úr Önundarfirði, þaðan sem við vorum ættuð. Bæði var um að ræða gamansögur af fólkinu, sem og sögur af mannlífinu fyrir vestan. Það voru miklar ánægjustundir að hlusta á hana þar sem ég var einnig ættaður þaðan og þekkti sæmilega til.

Hún sýndi mér mikla hlýju og væntumþykju og var mér mjög mannbætandi, sem ég get seint fullþakkað.

Aðstandendum hennar sendi ég samúðarkveðjur.

Sæmundur Þ. Magnússon.