Unnur María Hersir fæddist í Reykjavík 9. mars 1929. Hún lést 30. desember 2013. Útför Unnar fór fram 10. janúar 2014.

Okkur fjölskyldunni í Noregi bárust þær fréttir um jólin að Unnur María Hersir, yngsta systir móður minnar Bryndísar Hersir Lund, væri fallin frá. Hún sofnaði friðsömum svefni á sjúkrahúsi með fjölskylduna við hlið sér.

Unnur átti sinn sérstaka stað hjá íslensku systrunum. Aðeins 19 ára gömul stúlka hélt hún til Kaupmannahafnar ásamt móður minni sem þá var 21 árs. Þær höfðu horft á eftir þremur eldri systrum sínum flytjast brott frá Íslandi ásamt eiginmönnum sínum eftir að síðari heimsstyrjöldinni lauk. Elstu systurnar tvær, Ása og Sigríður, til Noregs en Halla til Bandaríkjanna. Hún fluttist reyndar aftur til landsins nokkrum árum síðar. Danmörk var heimaland móður þeirra. Faðir þeirra, Guðmundur J.B. Hersir, giftist danskri konu, Helgu Emilie Pedersen, þegar hann var við nám í bakaraiðn í Kaupmannahöfn. Eftir fráfall móður minnar 2009 fann ég í dagbókum hennar frásagnir frá dvölinni í Kaupmannahöfn. Ungu konurnar voru í vist frá 1948 til 1950, pössuðu börn og þjónuðu á fínum dönskum heimilum.

Árið 1950 héldu Unnur og Bryndís áfram för sinni, nú til systranna í Noregi. Að sögn Unnar neyddist hún til þess að snúa aftur til Íslands frá Noregi eftir eitt og hálft ár vegna þess að móðir hennar veiktist. Á þessum tíma náði hún fullkomnu valdi á norsku sem hún hélt allt til æviloka. Einmitt þess vegna var það mér svo dýrmætt að spjalla við hana þegar ég sótti Ísland heim nokkrum sinnum nú eftir aldamótin. Síðast kom ég vorið 2013. Þá sem fyrr ræddi ég við hana klukkutímum saman á kórréttri norsku. Hennar góða minni var ávallt ánægjuauki, sögur frá því hún var ung kona í Noregi, frásagnir af uppvaxtarárunum og hugleiðingar um sögu fjölskyldunnar. Móðir mín talaði líka um að systrunum hefði þótt Unnur vera gáfuðust þeirra og kvað þær hafa verið þeirrar skoðunar að Unnur ætti að halda áfram í skóla eftir að hún varð 14 ára en fara ekki strax að vinna. Sú varð ekki raunin, hún varð líka að fara út að vinna. Samkvæmt dagbók móður minnar leit Unnur til móður sinnar nánast alla daga.

Ég hitti öll börn Unnar á Egilsstöðum 1973, þau Guðmund, Helgu, Hjört og Ásu. Börnin og barnabörnin voru hennar stolt. Hugur minn er hjá ykkur öllum í dag. Ég færi ykkur hlýjar hugsanir og samúðarkveðjur frá fjölskyldunum í Noregi: frá börnum Sigríðar, Helga Ødegård Hersir, Reidun Bryndis Ellefsen og Wenche Ødegård; frá sonum Ásu, Jon Arve Eriksen og Bernhard Hersir; og frá mér og bróður mínum, Øistein Hersir Lund.

Berit Hersir Lund.