Aðalfundur Nokkrir félagar í Stuðningsmannaklúbbi Leeds United á Ölveri. Ársæll Óskar Steinmóðsson, formaður, lengst vinstri.
Aðalfundur Nokkrir félagar í Stuðningsmannaklúbbi Leeds United á Ölveri. Ársæll Óskar Steinmóðsson, formaður, lengst vinstri. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

„Stemningin á leikjum Leeds klikkar aldrei,“ segir Ársæll Óskar Steinmóðsson, formaður Stuðningsmannaklúbbs Leeds United á Íslandi og einn af stofnfélögum klúbbsins, en framundan er ferð á leik Leeds og Huddersfield í B-deild ensku knattspyrnunnar á Elland Road 1. febrúar næstkomandi.

Þó Leeds United sé ekki í sviðsljósinu um þessar mundir láta stuðningsmenn liðsins engan bilbug á sér finna enda sannfærðir um að frægðarsólin eigi eftir að skína á ný. Í stuðningsmannaklúbbnum eru um 550 skráðir félagar, að sögn Ársæls, og þar af um 260 til 270 sem greiða árgjald. „Það telst mjög gott miðað við stöðu liðsins,“ segir Ársæll.

Stuðningsmannaklúbbur Leeds á Íslandi var stofnaður í nóvember 1997 og voru Jón Örvar Arason og Gísli Hlynur Jóhannsson helstu frumkvöðlarnir. Ársæll segir að félagar komi frá öllum landshornum og áberandi sé hvað margir séu frá Húsavík, Siglufirði og Neskaupstað. Í því sambandi nefnir hann að Hafliði Jósteinsson á Húsavík hafi verið stuðningsmaður Leeds á Íslandi númer eitt í yfir 50 ár. „Hann hefur alla tíð verið grjótharður og fór í fyrsta sinn með okkur til Leeds fyrir þremur árum, þegar hann hélt upp á sjötugsafmælið sitt. Þá fór 53 manna hópur á leik Leeds og Coventry.“

Sameiningartákn

Þegar sýnt er beint frá leikjum Leeds í sjónvarpi mæta félagsmenn stuðningsmannaklúbbsins í Ölver, Sportbarinn í Glæsibæ, og þar er aðalfundurinn haldinn árlega. Klúbburinn heldur úti heimasíðu, leeds.is, og reynir að standa fyrir ferð til Leeds árlega auk þess sem golfmót er haldið á hverju ári og stundum árshátíð. „Leeds er mjög skemmtileg borg að heimsækja, falleg borg og flottur miðbær,“ segir Ársæll. „Það tekur ekki nema klukkutíma með lest frá flugvellinum í Manchester og það er tilvalið að skreppa til Leeds í helgarferð og taka leik í leiðinni.“

Á sjöunda og áttunda áratug liðinnar aldar var Leeds United með eitt besta lið Englands undir stjórn Dons Revie. Þá var reglulega sýnt frá leikjum liðsins í sjónvarpi en minna hefur verið um beinar útsendingar frá leikjum Leeds undanfarin ár. Ársæll minnir samt á að nýlega hafi þrír leikir verið sýndir á stuttum tíma en því miður hafi það allt verið tapleikir. Það dragi samt ekki úr krafti félaga í stuðningsmannaklúbbnum. „Ég hef séð Leeds spila í þremur deildum og það hefur alltaf verið mikil stemning. 2009 fórum við til dæmis með 30 manna hóp á leik Leeds og Huddersfield í C-deild eða 3. deild og þá voru 32.000 manns á vellinum. Stemningin var eins og á leik í úrvalsdeild.“

Stuðningur í öllum hornum

Ársæll Steinmóðsson segir að stuðningsmenn Leeds séu sannfærðir um að risinn eigi eftir að láta að sér kveða í úrvalsdeild á ný. „Þegar liðið kemur aftur upp í úrvalsdeild fjölgar í klúbbnum hjá okkur, menn koma út úr öllum skúmaskotum, því stuðningsmennirnir leynast víða,“ segir hann. Formaðurinn bætir við að þó að stuðningsmennirnir komi úr öllum áttum og fylgi ýmsum liðum á Íslandi sameinist þeir um Leeds. „Það eru auðvitað létt skot á milli manna en við erum allir vinir og lífið heldur áfram. Þetta er bara fótbolti, eitt af áhugamálum okkar.“