Gísli Jón Hermannsson fæddist 30. júní 1932 á Svalbarði í N-Ísafjarðarsýslu, hann lést á hjúkrunarheimilinu Sóltúni 12. janúar 2014.

Foreldrar Gísla voru Hermann Hermannsson, útvegsbóndi af Ströndum, fæddur 1893, látinn 1981, og Salóme Rannveig Gunnarsdóttir, húsfreyja frá Ögri, fædd 1895, látin 1977. Systkini Gísli voru: Anna, f. 1918, d. 2002, Þuríður, f. 1921, d. 2007, Gunnar, f. 1922, d. 1977, Þórður, f. 1924, d. 1985, Sigríður, f. 1926, d. 1999, Karitas, f. 1927, d. 1994, Sverrir, f. 1930, Halldór, f. 1934, Guðrún Dóra, f. 1937 og Birgir, f. 1939.

Gísli Jón kvæntist 24. desember 1957, Jónínu Margréti Einarsdótturm húsmóður, f. 20. september 1927, d. 7. október 2001. Foreldrar hennar voru Einar Kristbjörn Garibaldason, f. 1888, d. 1968 og Margrét Jónína Einarsdóttirm, f. 1895, d. 1959.

Börn þeirr eru: 1) Hjörtur, f. 1958, kvæntur Maríu Bjarnadóttur, börn þeirra eru: Gísli Jón, f. 1984, unnusta Sigrún Eva Sigurjónsdóttir, Snædís, f. 1987, unnusti Georg Arnar Halldórsson og Einar, f. 1992. 2) Margrét Jónína, f. 1959, gift Sigurði Þ.K. Þorsteinssyni, börn þeirra eru: Jónína Margrét, f. 1988, hennar dóttir er Þórdís Katla Einarsdóttir, f. 2008, Lára Rannveig, f. 1990, unnusti Páll Bragi Oddsson, og Karel, f. 1992. 3) Hermann, f. 1964, kvæntur Ástu Finnbogadóttur, börn þeirra eru: Finnbogi, f. 1989, Jóhannes, f. 1991, Thor Oddi, f. 1992, og Margrét Gígja, f. 1997.

Árið 1945 flutti fjölskyldan út á Ísafjörð, þar lauk Gísli Jón gagnfræðaprófi 1948, flutti svo til Reykjavíkur og lauk prófi frá Stýrimannaskóla Íslands 1957. Hann var stýrimaður hjá Bæjarútgerð Reykjavíkur 1958 til 1960 og hjá Gunnari bróður sínum á Eldborginni 1960 til 1963. Var skipstjóri og útgerðarmaður á Vigra RE-71 frá 1963 til 1970, að hann stofnaði útgerðarfélagið Ögurvík hf., sama ár ásamt fleiri góðum mönnum, en félagið hefur gert út togarana Vigra RE71, Ögra RE72 og Frera RE73. Gísli Jón var framkvæmdastjóri Ögurvíkur alla tíð, hann gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir útgerðarmenn. Átti um skeið sæti í stjórn Félags íslenskra botnvörpuskipaeigenda og sat síðar í mörg ár í stjórn LÍÚ og stjórn innkaupadeildar sama landssambands. Hann átti einnig sæti í stjórn Faxamarkaðar um nokkurt skeið og sinnti ýmsum nefndarstörfum á vegum LÍÚ. Þá var hann um skeið framkvæmdastjóri fiskvinnslunnar Kirkjusands sem Ögurvík átti með SÍS.

Gísli Jón og Jónína bjuggu allan sinn búskap í Reykjavík, lengst af í húsi sem þau byggðu í Haðalandi 8.

Útför gísla fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 23. janúar 2014, og hefst athöfnin kl. 13.

Minn kæri bróðir og vinur frá barnæsku, Gísli Jón, er horfinn úr þessum heimi eftir talsvert erfið veikindi síðustu tvö ár. Á milli okkar var eitt og hálft ár þannig að barnæska okkar var mjög samofin. Við gengum saman í barnaskóla í Ögurvík og gagnfræðaskóla Ísafjarðar; síðar vorum við saman í Stýrimannaskóla Reykjavíkur.

Báðir fórum við á sjó á stærri skip um 16 ára aldur. Gísli Jón var togarasjómaður en ég bátasjómaður. Áður höfðum við á æskuárum verið með föður okkar á þriggja tonna trillu, Hermóði, sem hann átti og gerði út í Ögurvíkinni. Á Hermóði aflaði hann sinni barnmörgu fjölskyldu viðværis ásamt því að halda nokkrar skepnur; tuttugu kindur og eina kú er best lét. Annars var slægja mjög erfið og rýr í Ögurvíkinni. Það varð því að fara víða um Djúpið á trillunni í slægjuleit svo hægt væri að afla heyja fyrir þennan annars smáa bústofn.

Fjölskyldan var stór, þrettán manns, og hjálpaðist öll að við beitningu og fæðuöflun. Við bræðurnir vorum allir viðriðnir sjóróðrana hjá pabba. Fyrst elstu bræðurnir, Gunnar og Þórður, og síðan við þessir yngri, Sverrir, Gísli Jón, ég og svo Birgir yngstur. Karítas systir var líka meira en liðtæk við sjóróðrana.

Í þessum stóra barnahópi var oft mikið fjör og mikið hlegið, enda voru þar í hópi góðir grínistar og eftirhermur. Vel var tekið eftir hinum ýmsu sveitamönnum og vermönnum sem reru með pabba. Og það gerðist víst fremur oft en sjaldan að þeir karakterar eignuðust skemmtilegt aukalíf í tilsvörum og töktum lífmikilla Ögursystkina.

Eftir að Gísla Jóni óx fiskur um hrygg gerðist hann bátsmaður á síðutogurum frá Reykjavík. Síðar gerðist hann eigandi að 200 tonna síldarbát, Vigra, byggðum í Noregi sem hann átti með Pétri félaga sínum sem var ættaður frá Siglufirði. Þórður bróðir átti samskonar bát sem hann nefndi Ögra. Var hann einnig á síldveiðum sem og öðrum veiðum sem til féllu. Hann hafði þá verið mikið á síðutogurum frá Reykjavík, bæði sem stýrimaður og skipstjóri. Sameignamaður hans og vélstjóri var Halldór Þorbergsson frá Súðavík.

Til þess að gera langa sögu stutta seldu þeir bræður, Gísli Jón og Þórður, skip sín, Ögra og Vigra, til Afríku. Andvirði skipanna notuðu þeir til að byggja skuttogarana Ögra og Vigra í Póllandi. Þeir gerðu þá út frá Reykjavík og stofnuðu um reksturinn hlutafélag sem þeir nefndu Ögurvík.

Gísli Jón gerðist framkvæmdastjóri Ögurvíkur. Þegar Þórður Hermannsson lést um aldur fram gerðist Gísli Jón aðaleigandi útgerðarfélagsins og sinnti framkvæmdastjórastöðu þar uns Hjörtur, sonur hans, tók við. Má með sanni segja að það hafi verið lán sem fylgdi þessum útgerðarrekstri.

Gísli Jón kvæntist stúlku frá Ísafirði, Jónínu Einarsdóttir. Hún lést fyrir 13 árum. Þau eignuðust þrjú börn, Hjört, Margrét Jónínu og Hermann. Enda þótt fráfall Gísla Jóns hafi verið börnum hans erfitt má segja að það hafi verið lausn frá þrautum. Minningin um góðan dreng mun lifa.

Halldór

Hermannsson.