[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Helgi Bjarnason helgi@mbl.is „Þessi fundur er upphafið að samráðsferli, nokkurskonar ferðalagi sem bærinn fer í með íbúum.

Baksvið

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

„Þessi fundur er upphafið að samráðsferli, nokkurskonar ferðalagi sem bærinn fer í með íbúum. Mikilvægt er að fá fram skoðanir bæjarbúa, þetta er dýrmætt svæði sem flestir hafa skoðanir á,“ segir Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri á Akranesi. Bærinn efndi til íbúafundar um nýtingu Sementsreitsins sem verður endurskipulagður í kjölfar þess að bærinn hefur eignast meginhluta mannvirkja verksmiðjunnar.

Kanon arkitektar voru fengnir til að setja fram ýmsar hugmyndir til að koma af stað umræðum meðal bæjarbúa. Þar á meðal voru hugmyndir um að nýta mannvirkin sem þarna eru. Ein þeirra var að innrétta sementstankana sem íbúðir og koma upp útsýnisveitingastað ofan á þeim.

Verðmæti í mannvirkjum

„Þetta var hugsað sem kveikja að nýjum hugmyndum og umræðum en ekki útfærðar tillögur,“ segir Halldóra Bragadóttir, arkitekt hjá Kanon arkitektum.

Hún segir að Sementsreiturinn sé mikilvægt svæði sem liggi á milli gamla bæjarins, hafnarinnar og Langasands. „Möguleikarnir felast meðal annars í því, hann er hlekkur sem tengir svæðin saman.“

Halldóra segir hægt að fara margar leiðir við skipulag og uppbyggingu. Hún nefndi í kynningu sinni að ein nálgunin væri að nýta þau miklu mannvirki sem eru á Sementsreitnum og sýndi dæmi frá öðrum löndum hvernig verksmiðjuhús og tankar hafi verið endurnýtt. „Við erum að hvetja fólk til þess að velta fyrir sér hvaða verðmæti felast í þessum mannvirkjum, ekki endilega steypunni heldur verðmætum í víðum skilningi svo sem umhverfi, byggðamynstri og atvinnusögu. Fara verður í gegn um þá hugsun áður en ákveðið er að rífa,“ segir Halldóra.