Tækifæri Mæðgurnar Jóhanna og Marta bjuggu saman um skeið í frönsku borginni Nice og uppgötvuðu þar áhugaverðar vörur sem finna má til sölu í Bazaar Reykjavík.
Tækifæri Mæðgurnar Jóhanna og Marta bjuggu saman um skeið í frönsku borginni Nice og uppgötvuðu þar áhugaverðar vörur sem finna má til sölu í Bazaar Reykjavík. — Morgunblaðið/Golli
Í Bæjarlind 6 er að finna forvitnilega nýja verslun með úrval af fallegum munum fyrir heimilið. Jóhanna Tómasdóttir á og rekur verslunina Bazaar Reykjavík í félagi við dóttur sína Mörtu Pálsdóttur og systur Guðlaugu Tómasdóttur.

Í Bæjarlind 6 er að finna forvitnilega nýja verslun með úrval af fallegum munum fyrir heimilið. Jóhanna Tómasdóttir á og rekur verslunina Bazaar Reykjavík í félagi við dóttur sína Mörtu Pálsdóttur og systur Guðlaugu Tómasdóttur.

Jóhanna, sem starfaði áður sem bókari, segir að rekja megi upphaf verslunarrekstursins til borgarinnar Nice í Frakklandi. „Þar bjuggum við mæðgurnar í rúmt ár. Marta hafði nýlokið vöruhönnunarnámi frá skóla í Mílanó og langaði okkur að athuga hvort mögulegt væri að hefja nýtt líf fjarri íslensku kreppunni. Fljótlega gerðum við okkur grein fyrir að í Nice var atvinnuleysi rétt eins og á Íslandi og við áttuðum okkur á að besta leiðin sem okkur væri fær væri að skapa eigin atvinnutækifæri með því að opna verslun.“

Í Nice höfðu mæðgurnar gætt þess að skoða vandlega spennandi verslanir borgarinnar og uppgötvað marga áhugaverða framleiðendur. Vöruúrvalið í Bazaar Reykjavík ber þess merki enda eru vandaðar evrópskar vörur þar í fyrirrúmi. „Hér seljum við húsmuni af öllu tagi, vefnað, spegla, búsáhöld, og fjölbreytta gjafavöru. Við seljum bara gæðavörur og leggjum okkur fram við að bjóða breitt verðbil.“

Verslunin var opnuð vorið 2013 og neitar Jóhanna því ekki að það hafi útheimt mikla vinnu og streð að byggja reksturinn upp. Markaðurinn sé krefjandi og samkeppnin hörð. „Má vel greina það að neytendur skiptast í tvo hópa, þar sem annar hópurinn þarf að fara mjög varlega með hverja krónu á meðan hinn hópurinn er ágætlega staddur og getur látið meira eftir sér. Það sést á samfélaginu að húsnæðiskostnaður hefur hækkað og matvaran tekur til sín stóran skerf af launum fólks svo ekki er mikið eftir.“

Jóhanna segir vörurnar sem Bazaar selur vera munað sem flestir eigi að geta látið eftir sér, og muni sem setja sterkan svip á hvaða herbergi sem er. „Vinsælasta varan hjá okkur um þessar mundir er viskustykki, handklæði og dúkar frá franska framleiðandanum Garnier-Thiebaut. Fyrirtækið er 180 ára gamalt, leiðandi í öllum vefnaði og þekkt fyrir rómantísk og skemmtileg mynstur.“

ai@mbl.is