Bullið er stundum yfirgengilegt. Í vikunni flutti Reuters þau tíðindi að Ísland væri „úti í kuldanum“ á alþjóðamörkuðum. Ástæðan væri stefna stjórnvalda gagnvart erlendum kröfuhöfum föllnu bankanna.
Bullið er stundum yfirgengilegt. Í vikunni flutti Reuters þau tíðindi að Ísland væri „úti í kuldanum“ á alþjóðamörkuðum. Ástæðan væri stefna stjórnvalda gagnvart erlendum kröfuhöfum föllnu bankanna. Fyrir um tveimur árum hafi staðan hins vegar verið mun betri – og samkomulag í burðarliðnum við erlenda kröfuhafa. Sem betur fer varð þó ekkert af því.

Af einhverjum ástæðum var mikið látið með þessa furðulegu umfjöllun í sumum innlendum fjölmiðlum. Einu viðmælendur Reuters voru tvíeykið Barry Russell og Matt Hinds. Þeir félagar eru ráðgjafar stærstu kröfuhafa föllnu bankanna. Ljóst má vera að þeir hafa sjálfir mikla fjárhagslega hagsmuni af því að það takist að ljúka uppgjöri bankanna með þeim hætti sem fulltrúar kröfuhafa stefna að – með nauðasamningi svo búin geti greitt út hundruð milljarða í gjaldeyri til kröfuhafa. Meiri óvissa ríkir um hvað eigi að gera við um 400 milljarða krónueign búanna. Hugmyndir þess efnis að stórum hluta þeirra verði hleypt úr landi með útgáfu ríkisskuldabréfs í erlendri mynt verða aldrei samþykktar.

Íslandsvinirnir Matt og Barry furða sig mjög á því af hverju stjórnvöld vilji ekki hefja viðræður um tillögur fulltrúa kröfuhafa, enda sé samkomulag „beggja hagur“. Svo má vel vera. Það er hins vegar ekki ríkið sem skuldar kröfuhöfum gjaldeyri – og er því aldrei að fara í neinar samningaviðræður. Á þessum tímapunkti mætti ætla að ráðgjöfum kröfuhafa væri þessi staðreynd vel þekkt.