[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þóra fæddist í Reykjavík 23.1. 1939 og ólst þar upp í foreldrahúsum, fyrst við Laufásveginn og síðan við Sóleyjargötuna: „Afi og amma áttu upphaflega húsið á Sóleyjargötu 3.

Þóra fæddist í Reykjavík 23.1. 1939 og ólst þar upp í foreldrahúsum, fyrst við Laufásveginn og síðan við Sóleyjargötuna: „Afi og amma áttu upphaflega húsið á Sóleyjargötu 3.

Ég man að pabbi og mamma fóru ferð til Bandaríkjanna á stríðsárunum en ég var þá hjá afa og ömmu á meðan. Mér er það minnisstætt að þegar þau komu aftur heim og gengu upp að húsinu, var ég svo feimin að ég ætlaði varla að þora að heilsa.“

Þóra var í Ísaksskóla og síðan í glænýjum Melaskólanum: „Melaskólinn þótti afar glæsileg skólabygging sem var nú reyndar ekki alveg tilbúin þegar við hófum þar nám. Í næsta nágrenni voru svo stór braggahverfi sem stungu óneitanlega í stúf við þennan fallega skóla og nýleg íbúðarhúsin á Melunum.“

Þóra lauk stúdentsprófi frá MR 1959, Fil.kand.-prófi í lista- og menningarsögu frá Stokkhólmsháskóla 1971 og MA-prófi í sagnfræði við HÍ 1999.

Þóra var starfsmaður Listasafns Íslands 1965-67, fréttamaður RÚV 1968-74, listráðunautur Norræna hússins 1974-79, listráðunautur Kjarvalsstaða 1979-86 og sérfræðingur hjá Þjóðminjasafni Íslands um árabil frá 1987. Þóra sat í framkvæmdastjórn Listahátíðar í Reykjavík 1982-84, í framkvæmdastjórn Kirkjuhússins/Skálholtsútgáfunnar frá 1991, hafði umsjón með myndlistarsýningum hjá SPRON, Álfabakka 14, 1987-99, sat í rekstrarstjórn Íslensks heimilisiðnaðar 1988-96, í kirkjulistanefnd Þjóðkirkjunnar 1989-95, í stjórn Listvinafélags Hallgrímskirkju frá 1991 og var formaður þar 1995-2000, sat í úthlutunarnefnd starfslauna til myndlistarmanna 1992, í dómnefnd um merki Þjóðminjasafns Íslands 1992, í framkvæmdastjórn Kirkjulistahátíðar í Reykjavík 1993, 1995, 1997 og 1999, var formaður yfirstjórnar Kirkjulistahátíðar í Reykjavík 1997, sat í nefnd á vegum menntamálaráðuneytisins um listiðnaðar- og hönnunarsafn 1996-97, var fulltrúi starfsmanna Þjóðminjasafns í Þjóðminjaráði frá 1997, í dómnefnd um merki Kristnihátíðar árið 2000, 1997. Hún var formaður Félags íslenskra safnamanna 1997-2000, var álitsgjafi fyrir Norræna menningarsjóðinn frá 2006 og var formaður Félags um átjándualdarfræði um skeið frá 2007.

Þóra stundaði skriftir í ýmis bindi ritraðarinnar Kirkjur Íslands, m.a. um kirkjugripi. Hún skrifaði bókina Mynd á þili, íslenskir myndlistarmenn á 16., 17. og 18. öld, útg. 2005, og hefur skrifað fjölda greina og gert útvarps- og sjónvarpsþætti um listir og listamenn á Íslandi.

Þóra var sæmd Hinni íslensku fálkaorðu 2006.

Fjölskylda

Eiginmaður Þóru er dr.phil. Sveinn Einarsson, f. 18.9. 1934, leikstjóri, leikhúsfræðingur og rithöfundur. Hann er sonur Einars Ólafs Sveinssonar, f. 12.12. 1899, d. 18.4. 1984, prófessors, og Kristjönu Þorsteinsdóttur, f. 1.7. 1903, d. 19.10. 1981, píanókennara.

Dóttir Þóru og Sveins er Ásta Kristjana Sveinsdóttir, f. 5.10. 1969, dr. í heimspeki frá MIT og dósent við San Francisco State University og á hún eina dóttur, Þóru Ástudóttur Sólomon, f. 11.11. 2013.

Bræður Þóru eru Garðar Gíslason, f. 29.10. 1942, hæstaréttardómari, búsettur í Reykjavík, og Jón Kristjánsson, f. 24.9. 1944, lögfræðingur og stórkaupmaður, búsettur í Reykjavík.

Foreldrar Þóru voru Kristján Garðarsson Gíslason, f. 5.3. 1909, d. 12.12. 1993, stórkaupmaður og Ingunn Jónsdóttir, f. 25.12. 1917, d. 1.3. 2005, húsfreyja.