Óli Kr. Sigurðsson, forstjóri OLÍS, fæddist i Reykjavik 23.1. 1946. Hann var sonur Sigurðar Eyjólfssonar prentara og k.h., Ragnhildar Sigurjónsdóttur húsfreyju.

Óli Kr. Sigurðsson, forstjóri OLÍS, fæddist i Reykjavik 23.1. 1946. Hann var sonur Sigurðar Eyjólfssonar prentara og k.h., Ragnhildar Sigurjónsdóttur húsfreyju.

Sigurður var verkstjóri í Víkingsprenti og Alþýðuprentsmiðjunni og starfrækti síðan Hagprent með Eyjólfi, syni sínum. Sigurður var bróðir Jóns E. Eyjólfssonar, yfirverslunarstjóra Sláturfélags Suðurlands, föður Jóhannesar í Bónus.

Sigurður er sonur Eyjólfs, flokksstjóra hjá Reykjavíkurborg Sigurðssonar, og Guðrúnar Gísladóttur. Ragnhildur var dóttir Sigurjóns, formanns í Brekkuhúsi í Vestmannaeyjum Sigurðssonar, og Kristínar, hálfsystur Páls Eggerts Ólasonar prófessors.

Óli var tvíkvæntur. Eftirlifandi eiginkona hans er Gunnþórunn Jónsdóttir og eru börn hennar tvö. Þá átti Óli tvo syni með fyrri konu sinni, Jensínu Janusdóttur.

Óli lauk sveinsprófi í prentiðn 1964, sinnti sölumennsku og eigin rekstri, var verslunarstjóri hjá SS og sölumaður hjá Hoffelli um skeið. Hann stofnaði heildverslunina Sund hf. 1983 og varð þá umsvifamikill innflytjandi á matvöru.

Árið 1986 lagði hann allt sitt undir og festi kaup á OLÍS, Olíuverslun Íslands hf., fyrirtæki sem hafði verið að draga saman seglin og safna skuldum. Kaupin komu á óvart og voru nefnd kaup aldarinnar. Síðan tók við þrautin þyngri að rétta við hag þessa gamla fyrirtækis. Óla tókst á skömmum tíma að koma böndum á skuldir og auka hlutafé OLÍS með tengslum við Texaco í Danmörku og endurskipuleggja og bæta mjög rekstur fyrirtækisins.

Óli sat í stjórn HB & Co á Akranesi, Nýherja hf. og útgerðarfélagsins Eldeyjar. Hann var varaformaður íþróttafélagsins Þróttar og starfaði í Oddfellowreglunni.

Óli í OLÍS var sannkallað athafnaskáld. Hann lést, langt fyrir aldur fram, 9.7. 1992, og naut þá almennrar virðingar sem yfirlætislaus en dugmikill og hugmyndaríkur athafnamaður.