Málþing Anna Gunnhildur Ólafsdóttir og Ágústa Karla Ísleifsdóttir koma báðar að málþinginu.
Málþing Anna Gunnhildur Ólafsdóttir og Ágústa Karla Ísleifsdóttir koma báðar að málþinginu. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Geðhjálp heldur í dag málþing undir yfirskriftinni Hvers virði er frelsið? Fjallað verður um sjálfræðissviptingu, nauðung og valdbeitingu í geðheilbrigðisþjónustu.

Geðhjálp heldur í dag málþing undir yfirskriftinni Hvers virði er frelsið? Fjallað verður um sjálfræðissviptingu, nauðung og valdbeitingu í geðheilbrigðisþjónustu. Anna Gunnhildur Ólafsdóttir er framkvæmdastjóri Geðhjálpar og telur hún brýnt að mannvirðing sé höfð að leiðarljósi í málefnum geðsjúkra. Undir það tekur Ágústa Karla Ísleifsdóttir sem sjálf hefur verið nauðungarvistuð fjórum sinnum.

Malín Brand

malin@mbl.is

Málþingið er það fyrsta sem haldið er á þessu ári hjá Geðhjálp en markmið félagsins er að berjast fyrir réttindum og bættri þjónustu fyrir fólk með geðraskanir ásamt því að miðla fræðslu og vinna gegn fordómum í samfélaginu. Á málþinginu sem haldið verður á Grand Hótel Reykjavík frá klukkan 13 til 16:15 verður einkum fjallað um það viðkvæma mál sem frelsissvipting í formi nauðungarvistunar og sjálfræðissviptingar er, sem og þegar valdi er beitt í geðheilbrigðisþjónustunni.

„Frelsið er grundvallarmannréttindi. Með málþinginu viljum við vekja athygli almennings á því að frelsisskerðingar geðsjúkra tíðkast alla daga hér á landi,“ segir Anna Gunnhildur, framkvæmdastjóri Geðhjálpar.

Svipting frá 48 stundum til lengri tíma

Frelsisskerðing getur varað í 48 klukkustundir og er einstaklingur þá vistaður á spítala í framhaldi af mati læknis. Nauðungarvistun á spítala sem samþykkt er af innanríkisráðuneytinu getur varað töluvert lengur eða allt að 21 dag. Sjálfræðissvipting er það þriðja í þessari upptalningu og getur hún verið í sex mánuði eða lengur og jafnvel ótímabundin, að sögn Önnu Gunnhildar. Ótímabundin sjálfræðissvipting er ekki algeng þegar geðsjúkir eiga í hlut en komi til hennar eru það dómstólar sem kveða úr um hana.

„Við ætlum að vekja athygli á þessu og á málþinginu kemur fram sjónarhorn fólksins sjálfs og sjónarhorn ættingja, fagfólks og lögreglu sem stundum kemur að þessum málum. Bæði viljum við vekja athygli á þessu og svo er þetta innlegg í endurskoðun lögræðislaganna í innanríkisráðuneytinu. Ég veit að farið hefur fram óformleg vinna í ráðuneytinu að undanförnu og brátt hefst formlegri vinna og við viljum að þetta sé innlegg í þá vinnu,“ segir Anna Gunnhildur.

Í lögræðislögum nr. 71/1997 kemur fram að ættingjar geta farið fram á nauðungarvistun eða sjálfræðissviptingu og hefur það valdið ósætti innan margra fjölskyldna, eðli málsins samkvæmt. „Lengi vel var í flestum sveitarfélögum algengast að ættingjar óskuðu eftir sjálfræðissviptingu eða nauðungarvistun og þá varð oft trúnaðarbrestur á milli þess sem var nauðungarvistaður eða sjálfræðissviptur og viðkomandi ættingja sem var kannski var jafnframt nánasti aðstandandi og hefði átt að vera stuðningsaðili. Þetta hefur valdið því að fólk hefur fjarlægst og jafnvel ekki talast við svo áratugum skiptir. Þetta hefur klofið fjölskyldur,“ segir Anna Gunnhildur.

Með mannvirðingu að leiðarljósi

Í dag er það orðið algengara að sveitarfélögin fari fram á sjálfræðissviptingu eða nauðungarvistun.

Anna Gunnhildur segir að markmið Geðhjálpar séu skýr:

„Við viljum að mannvirðing sé alltaf höfð að leiðarljósi og það sé hlustað á viðkomandi og áhersla lögð á að það séu samtalsmeðferðir í staðinn fyrir lyf og þannig að frelsisskerðing sé ekki nema bara í algjörum undantekningartilvikum og það sé allt annað reynt áður,“ segir hún.

Nauðungarvistuð í fjórgang

Einn af fyrirlesurum málþingssins í dag er Ágústa Karla Ísleifsdóttir. Bera fór á geðröskunum hjá henni um tvítugt en í dag er hún fjörutíu og fjögurra ára og hefur á rúmum tuttugu árum verið nauðungarvistuð fjórum sinnum og gefið frá sér uppeldi barna sinna fjögurra.

„Ég var lögð inn í fyrsta skipti árið 1992. Ég lenti í ástarsorg, varð þunglynd og var óhuggandi,“ segir Ágústa sem var þar inni í nokkrar vikur. „Þá byrjaði í raun þetta ferli, að vera inn og út af geðdeild í gegnum árin.“

Í mörg ár barðist hún gegn því að fara á örorkubætur og reyndi að stunda vinnu þrátt fyrir veikindin. Árið 2003 fór hún á örorkubætur.

Sem fyrr segir er Ágústa móðir fjögurra barna. Hún sveiflast á milli þunglyndis og maníu og öll börnin hefur hún látið frá sér í ójafnvægi. „Svo þegar ég var komin úr maníunni, þegar ég var búin að láta fyrsta barnið frá mér, þá sá ég hvað ég hafði gert en ég var bara svo buguð að ég treysti mér ekki til að fara að biðja um barnið aftur,“ segir hún. Í dag hittir hún börnin aðra hvora helgi, ver með þeim mánuði á sumrin og er sambandið gott.

Róandi lyf

Þegar Ágústa fór fyrst inn á geðdeild komst hún í kynni við róandi lyf og leið ekki á löngu þar til hún fór að misnota þau. „Með árunum fór ég að misnota áfengi og eiturlyf. Árið 2006 byrjaði ég í fyrsta sinn að reykja hass og ári seinna var ég orðin sturluð,“ segir Ágústa. Hún var með geðrof í nokkur ár. Í tvígang var hún inni á deild en vildi fara þaðan. „Þá var mér sagt að ég gæti það ekki og ég var nauðungarvistuð í 21 dag. Svo tvisvar sinnum var ég bara heima hjá mér þegar íbúðin fylltist af fólki og ég var tekin nauðug,“ segir Ágústa. Sú lífsreynsla er henni þungbær því hún segir að hún hafi verið tekin eins og ótíndur glæpamaður.

„Ég sat bara heima og allt í einu birtist borgarlæknir, foreldrar mínir, bróðir minn og fjórir lögreglumenn inni á stofugólfi hjá mér og mér sagt að ég ætti að fara upp á spítala.“ Ágústa barðist um og vildi ekki fara.

„Þá var ég bara beitt hörku og handjárnuð, farið með mig út í bíl og leidd eftir löngum göngunum á spítalanum, þar sem fullt af fólki sá mann, upp á aðra hæð og inn á geðdeildina.“

Það sem Ágústa mun meðal annars fjalla um á málþinginu í dag er sú verðuga spurning hvort geðsjúkir sitji við sama borð og aðrir sjúklingar. Í þau skipti sem hún var nauðungarvistuð var henni ekkert tjáð fyrirfram og henni ekki sagt hvað talið væri að hrjáði hana.

Stefán Eiríksson, lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, mun einnig flytja erindi um aðkomu lögreglunnar að slíkum málum.