Eftir undirritun samkomulagsins Marit Lillealtern, staðgengill sendiherra Noregs á Íslandi, Ma Jisheng, sendiherra Kína, Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, og Guðni Jóhannesson, orkumálastjóri.
Eftir undirritun samkomulagsins Marit Lillealtern, staðgengill sendiherra Noregs á Íslandi, Ma Jisheng, sendiherra Kína, Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, og Guðni Jóhannesson, orkumálastjóri. — Ljósmynd/Petra Steinunn Sveinsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þorsteinn Ásgrímsson Baldur Arnarson Forsvarsmenn Eykon, kínverska orkufyrirtækisins CNOOC og norska olíufélagsins Petoro fengu afhent leyfi til olíuleitar og -vinnslu í dag, en um er að ræða síðasta leyfið af þremur í annarri úthlutun á Drekasvæðinu.

Þorsteinn Ásgrímsson

Baldur Arnarson

Forsvarsmenn Eykon, kínverska orkufyrirtækisins CNOOC og norska olíufélagsins Petoro fengu afhent leyfi til olíuleitar og -vinnslu í dag, en um er að ræða síðasta leyfið af þremur í annarri úthlutun á Drekasvæðinu. Sendiherra Kína og fulltrúi sendiherra Noregs voru viðstaddir undirritunina, en hún markar tímamót eftir að samskipti ríkjanna hafa verið stirð síðustu ár.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, segist binda miklar vonir við rannsóknirnar. Aðkallandi sé að halda áfram að undirbúa stjórnsýslu og regluverk fyrir mögulega vinnslu.

Ragnheiður Elín sagði þennan dag vera stóran dag fyrir íslenskan iðnað og nú hæfist mikil vinna við leit og rannsóknir. Hún sagði mikilvægt að í þriðja leyfinu fengi íslenskt fyrirtæki sterka, alþjóðlega samstarfsaðila sem veittu verkefninu mikinn styrk. Átti hún þar við CNOOC, en það er eitt stærsta fyrirtæki í heimi, markaðsverðmæti þess er 80-90 milljarðar bandaríkjadala.

Heiðar Már Guðjónsson, einn eigenda Eykon, segir samstarfið við kínverska fyrirtækið tryggja metnaðarfullar rannsóknir og sterkan bakhjarl þegar kemur að borunum.

Næstu fjögur til átta ár muni fara í rannsóknir, en að því loknu verði vonandi hægt að fara í boranir.

Vill stofna ríkisolíufélag

Með því að fá stór og sterk fyrirtæki að verkefninu segir Ragnheiður að tekist hafi að ýta því úr vör án nokkurrar áhættu fyrir almenning. „Við erum búin að tryggja íslenska hagsmuni þar sem við erum ekki að leggja út í mikinn kostnað, áhættan er hjá þeim fyrirtækjum sem fara að leita og það er gríðarlega kostnaðarsamt,“ segir hún, en bendir á að stór hluti mögulegs hagnaðar af olíuvinnslu renni til íslenska ríkisins.

Næsta skref í olíuleit sé að undirbúa stjórnsýsluna betur og sækja þekkingu og reynslu til annarra landa. Nefnir hún Norðmenn í því samhengi, þeir hafi reynst Íslendingum afar hjálplegir. Þá sé í smíðum frumvarp um ríkisolíufélag að norskri fyrirmynd, sem ráðherra segir stefnt að því að leggja fram í vor.

Miklar deilur urðu hér á landi þegar Huang Nubo ætlaði að kaupa jörðina Grímsstaði á Fjöllum. Þá er erlendum ríkisborgurum ekki heimilt að eiga meirihluta í íslenskum útgerðum. Aðspurð hvort hún telji þörf á að endurskoða löggjöf um íslensk kolefnisfyrirtæki segir Ragnheiður að ólíklegt sé að íslensk fyrirtæki hafi burði í slík verkefni án erlendrar aðstoðar. „Þetta er svo gríðarlega fjárfrekt að það er ekki fyrir íslensk fyrirtæki af okkar stærðargráðu að takast á við slík verkefni. Við þurfum því að vera í erlendu samstarfi.“

Því sé skynsamlegt að nýta sér reynslu og þekkingu erlendra fjárfesta í þessum efnum.

Sendiherrann var erlendis

Athygli vakti að Dag Wernø Holter, sendiherra Noregs á Íslandi, skyldi ekki vera viðstaddur athöfnina. Per Roald Landrö, menningarfulltrúi norska sendiráðsins, sagði það eiga sér eðlilegar skýringar.

Holter hefði verið erlendis vegna ráðstefnunnar Arctic Frontiers í Tromsö. Því hefði Marit Lillealtern, sendiráðsritari, verið fulltrúi sendiráðsins. Lillealtern sé að jafnaði staðgengill sendiherrans.

Fjarvera Holters tengist því ekki á þeim stirðleika sem hafi verið í samskiptum Kína og Noregs, í kjölfar þess að kínverska andófsmanninum Liu Xiaobo voru veitt friðarverðlaun Nóbels 2010.

Hætt verði við olíuleit

Nokkrir tugir mótmælenda söfnuðust saman við Þjóðmenningarhúsið í gær og kröfðust þess að hætt yrði við olíuleit. Sendu þeir frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem sagði m.a.:

„Undirrituð samtök krefjast þess að ríkisstjórn Íslands og Alþingi hætti tafarlaust við allar áætlanir um vinnslu olíu innan efnahagslögsögu landsins. Íslensk stjórnvöld myndu með því sýna ábyrgð og senda skýr skilaboð um allan heim að Ísland ætli sér að vera í fararbroddi í loftslagsmálum.“

Undir yfirlýsinguna eru skrifuð félögin Alda – félag um sjálfbærni og lýðræði, Breytendur – Changemaker Iceland, Grugg – vefrit um umhverfisvernd, Eldvötn, Fuglavernd, Framtíðarlandið, Landvernd, Loftslag.is, NSÍ, Náttúruverndarsamtök Suðurlands, Nemendafélagið Gaia (við Háskóla Íslands) og Ungir umhverfissinnar.