Knicks Góður lýsandi getur jafnvel gætt hörmungina lífi.
Knicks Góður lýsandi getur jafnvel gætt hörmungina lífi. — AFP
Hún er mislit hjörðin sem fjallar um íþróttir í sjónvarpi og auðvelt að láta fara í taugarnar á sér ef þulir búa ekki yfir staðgóðri þekkingu á viðfangsefninu, eða beita einslitu og endurtekningasömu málfari.

Hún er mislit hjörðin sem fjallar um íþróttir í sjónvarpi og auðvelt að láta fara í taugarnar á sér ef þulir búa ekki yfir staðgóðri þekkingu á viðfangsefninu, eða beita einslitu og endurtekningasömu málfari. Umræða um ljósvaka síðustu daga hefur einkum snúist um tiltekin ummæli umsjónarmanns EM-stofu Ríkissjónvarpsins. Sú furðulega söguþekking sem birtist í heimskulegum orðunum er sér kapítuli, en ekki var annað hægt en vorkenna leikmönnum landsliðsins fyrir að þurfa að eyða orku í að afsaka annars óafsakanlega vitleysuna.

Undirritaður fagnaði hinsvegar í byrjun viku þegar Stöð 2 Sport sýndi á skikkanlegum kvöldtíma leik í beinni frá NBA, með gamla heimaliðinu í New York og nýju liði borgarinnar. Leikurinn leystist þó fjótlega upp í hrylling, að minnsta kosti fyrir undiritaðan sem hafði þann starfa um skeið að ljósmynda leiki Knicks. Dugði ekki til að Svali Björgvinsson dældi út víðfeðmri þekkingu sinni á leiknum og leikmönnum, með ýkjukenndu flúri sem minnti helst á orðskrúð Walt „Clyde“ Frazier, gamallar Knicks-kempu sem lýsir leikjum á einstakan hátt. Nei, lifandi lýsingin dugði ekki til – ég slökkti.

Einar Falur Ingólfsson