Unnur Guðmundsdóttir fæddist 1. desember 1926. Hún lést 5. janúar 2014. Útför Unnar fór fram 16. janúar 2014.

Elskuleg vinkona mín, hún Unnur á móti eins og ég kallaði hana, er farin frá okkur. Um leið og ég hitti hana fyrst sá ég að þarna var komin góð og hlýleg kona og það leið ekki langur tími þar til við vorum orðnar góðar vinkonur, við smullum bara saman. Og hvað við gátum setið lengi frameftir á kvöldin yfir kaffibollum og vorum ekkert að líta á klukkuna, bara að rabba, og þessum stundum gleymi ég aldrei. Skemmtileg minning er líka þegar ég kom yfir til þín og bauð þér í bíltúr upp í Heiðmörk og tók kaffi og kökur með. Við fundum borð og bekki og sátum í góða veðrinu og þú hlóst svo mikið og við skemmtum okkur svo vel. Svo fundum við ekki leiðina heim og vorum ansi lengi í Mörkinni. En við höfðum svo líkan húmor að við hlógum bara að þessu. Á Grensásveginum bjó Unnur í 18 ár og ég ennþá lengur. Það var mikil eftirsjá hjá mér þegar hún flutti. En við slitum ekki sambandi, ég heimsótti hana oft og alltaf var svo mikið yndislegt að fá faðmlagið hennar og sjá allt sem hún prjónaði og saumaði, alla þessa fallegu handavinnu. Svo fórum við nú að eldast og heilsan að bila hjá okkur báðum, þannig að við hittumst sjaldnar en heyrðum hvor í annarri í síma. Ég er svo þakklát fyrir að Unnur gat komið í áttræðisafmælið mitt og átt með mér góðan dag. Það var síðasti dagurinn sem við áttum saman. Ég veit að vel verður tekið á móti Unni í Sumarlandinu. Hún á það svo sannarlega skilið þessi góða kona. Og það verða fagnaðarfundir hjá okkur þegar við hittumst aftur. Vertu svo Guði falin, elsku Unnur mín. Ég votta fjölskyldunni innilega samúð mína.

Himinninn er dásamlegur staður,

fullur af gleði og söng.

Þar mun ég mæta mínum frelsara,

himinninn er dásamlegur staður.

(Höf. ók.)

Þín vinkona,

Edda I. Larsen