Stjörnublásari Wynton Marsalis er heimsþekktur djassleikari.
Stjörnublásari Wynton Marsalis er heimsþekktur djassleikari. — Ljósmynd/Frank Stewart
Einn kunnasti djassleikari samtímans, bandaríski trompetleikarinn Wynton Marsalis, mun koma fram í Eldborgarsal Hörpu þann fjórða júlí næstkomandi ásamt hljómsveit sinni Jazz at the Lincoln Centre Orchestra.

Einn kunnasti djassleikari samtímans, bandaríski trompetleikarinn Wynton Marsalis, mun koma fram í Eldborgarsal Hörpu þann fjórða júlí næstkomandi ásamt hljómsveit sinni Jazz at the Lincoln Centre Orchestra. Tónleikarnir eru á vegum Hörpu í samvinnu við Jazzhátíð Reykjavíkur.

„Þetta verður mikil skemmtun og fengur að fá þetta band,“ segir Vernharður Linnet, djassrýnir Morgunblaðsins. „Þetta er frábær hljómsveit og það verður gaman að heyra hana rifja upp djasssöguna. Svo er Marsalis stórkostlegur trompetleikari.“

Marsalis er rúmlega fimmtugur og hefur lengi verið í framvarðarsveit djassblásara vestanhafs. Þá hefur hann verið mikilvirkt tónskáld og sent frá sér fjölda diska. Marsalis hefur hlotið fjölmörg verðlaun, meðal annars níu Grammy-verðlaun og er eini djassleikarinn sem hefur hlotið Pulitzer-verðlaunin fyrir tónverk.

Hann er listrænn stjórnandi Jazz at Lincoln Center Orchestra sem er talin vera einhver besta stórsveit samtímans. Í henni eru fimmtán manns. Dagskrá tónleikanna nefnist „All Jazz is modern“ og er yfirferð um sögu djassins.