Kristinn Guðjónsson fæddist 27. ágúst 1913. Hann lést 5. janúar 2014.

Útför Kristins fór fram frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði 17. janúar 2014.

Söknuður er ekki einsömul sú tilfinning sem okkur er hugleikin er við minnumst Didda afa, heldur er þakklæti okkur einnig ofarlega í huga. Þakklæti fyrir að Diddi afi hafi fylgt okkur upp á fertugs- og fimmtugsaldurinn. Þakklæti fyrir þær stundir og þá umhyggju sem við nutum og þakklæti fyrir þá fyrirmynd sem hann hefur reynst okkur. Við höfum nefnilega orðið þeirrar einstöku gæfu aðnjótandi, sem allt of fáum hlotnast, að eiga minningar um afa okkar bæði úr bernsku sem og á fullorðinsaldri.

Æskuminningar okkar eru hvað sterkast tengdar Dalseli, sumarbústaðnum þeirra Didda afa og Tonný ömmu. Þennan bústað reistu þau við heiðarvatnið Selvatn og sá Diddi afi sjálfur um smíðina, enda var hann lærður trésmiður og starfaði sem slíkur alla sína starfsævi. Bústaðurinn stóð, og stendur enn, í námunda við þann stað þar sem tengdafaðir hans, langafi okkar, Lorenz H. Müller, hafði reist sér sumarbústað.

Diddi afi átti forláta handsmíðaðan árabát sem hann hafði eignast í skiptum fyrir innréttingu sem hann smíðaði fyrir bátasmið nokkurn. Þegar ýtt var frá bryggju út á Selvatnið var, í minningunni, sem tíminn stæði í stað. Þar réð ríkjum þögnin og róin, enda fiska þeir ekki sem styggja fiskinn með brölti og látum. Hinsvegar gat gengið á ýmsu þegar skipað var í bátinn við bryggju.

Sé augum aftur lygnt má því rifja upp þær stundir þar sem þögnin á heiðarvatninu, taktfast áratakið og brothljóð gáranna sem slógust við og brotnuðu á borðum bátsins mynduðu fullkomið samspil sem ekki var rofið nema þá helst af öndum og gæsum sem héldu til á vatninu eða kríunni sem hvert einasta sumar kom sér upp hreiðri við grasflöt nokkra sem útbúin hafði verið í miðju hrauninu. Diddi afi taldi ekki eftir sér að róa einn hring til viðbótar um vatnið, já eða annan til jafnvel, svona rétt til þess að ganga úr skugga um hvort sá stóri hefði í hyggju að koma með í land. Diddi afi var enda rammur að afli, skiljum við núna, og stórar hendurnar og kröftugur skrokkurinn sem stritað hafði í trésmiðjunni Dverg í Hafnarfirði áratugum saman lét það virka áreynslulaust og fágað jafnvel að líða gegnum vatnsflötinn hvort heldur í logni, meðvindi, eða hinum alltumlykjandi íslenska síblæstri sem virðist oftar en ekki vera mótvindur sama hvert maður stefnir.

Aldrei er þess að minnast að þreytu hafi verið borið við sem ástæðu þess að bátsferðum væri lokið heldur var það jafnan svo að ekki þætti rétt að láta ömmu bíða með kaffið. Þó má vissulega gera því skóna að nóg hafi þótt um síendurteknar óskir um einn hring til viðbótar. Á heimili Didda afa og Tonný ömmu að Tjarnarbraut í Hafnarfirði hafði Diddi afi ávallt lítið smíðaverkstæði. Þar gátum við dundað okkur við að sýna fram á að náðargáfa til handverks er langt því frá sjálfgefin og erfist misvel. Diddi afi var hinsvegar með eindæmum handlaginn og þótt hendurnar hafi verið býsna stórar gátu þær framkallað bæði hin fíngerðustu smáatriði og heilu húsgögnin úr viðnum. Mörg þessara húsgagna fylgja okkur enn þann dag í dag.

Þegar nóg var komið af handverkstilraunum, var sem betur fer hægt að fara yfir götuna, niður að læknum í Hafnarfirði. Þar var hægt að kasta bæði brauði og eftir atvikum sjálfum sér út í tjörnina til andanna – sem þó virtust kunna öllu betur við brauðmetið.

Þín barnabörn,

Pétur og Lísa Reynisbörn.

Þær minningar sem manni hlotnast á barnsaldri eru vitanlega mótandi og því er svo ljúft að hafa átt svo góðan mann að sem Didda afa, og minningarnar svo jákvæðar sem raun ber vitni. Slíkar minningar eru þó meðteknar af barnslegu gagnrýnileysi. Þegar við uxum úr grasi varð Diddi afi ekki lengur bara afi okkar heldur líka maðurinn sem hafði lifað tímana tvenna, í raun heimsstyrjaldirnar tvær, og mótast af eigin minningum og reynslu.

Þessum manni vorum við svo lánsöm að kynnast líka. Þótt himinn og haf virðist hafa aðskilið þann raunveruleika sem hann upplifði á sínum yngri árum og þann raunveruleika sem við upplifum, er þó ýmislegt sem kallast á yfir kynslóðabilið, t.a.m. fór hann ungur í nám til Norðurlanda og höfum við öll fylgt í þau fótspor hans.

Á fullorðinsaldri vorum við loks fær um að skapa dýpri og þroskaðri minningar um þann mann sem Diddi afi hafði að geyma og vorum í stakk búin til að þiggja af honum dýpri og þroskaðri lærdóm enda var af nógu að taka.

Diddi afi var heilsuhraustur langt fram eftir aldri, enda hafði hann bæði gætt þess að hreyfa sig reglulega, auk þess sem hann hafði verið í góðu yfirlæti Tonný ömmu alla tíð. Þau hjónin höfðu ferðast víða og áttu þau vinafólk erlendis sem þau bæði heimsóttu og tóku á móti. Sú reynsla og innsýn sem öðlast má á ferðalögum ásamt því að Diddi afi hafði alla tíð yndi af lestri, svo sem bókasafnið hans bar vitni um, gerði það að verkum að hann var furðu víðsýnn og móttækilegur fyrir nýjum hugmyndum fyrir mann á hans aldri og af hans kynslóð. Hann lét reyndar yngri kynslóðum eftir að hirða um tölvuöldina, því þegar þar var komið sögu varði hann sínum tíma meira í að njóta kveðskapar- og ljóðlistar.

Hann tók þó nýjum hugmyndum ekki endilega gagnrýnilaust enda væri slíkt ekki til eftirbreytni heldur er honum meira til hróss sá eiginleiki að vera tilbúinn að í.þ.m. taka til íhugunar hvort efni stæðu til að endurskoða afstöðu sína til manna og málefna í ljósi nýrra upplýsinga. Slíkt er enda háttalag hygginna manna sem lausir eru við þann hroka að þykjast vita endanlegan sannleik um hvaðeina málefni, vitrænni afstöðu, ólíkt kreddunni, stafar nefnilega lítil ógn af því að vera tekin til endurskoðunar.

Eflaust má gera því skóna að Diddi afi hafi með slíku hugarfari og þeirri hugarleikfimi sem hann stundaði í formi þess að rifja upp og læra nýjan kveðskap, viðhaldið þeim andlega þrótti sem einkenndi hann jafnvel þótt líkaminn hafi verið orðinn slitinn og lúinn undir lokin. Ber þess einmitt vitni að þegar Danir tóku að bætast við fjölskylduna þótti Didda afa lítið tiltökumál að skipta yfir í dönsku í samskiptum við þá. Þetta hélst óbreytt jafnvel þótt hann hafi verið orðinn rúmlega hundrað ára að aldri.

Að framansögðu er því ljóst að við lok langrar ævi hafði Diddi afi veitt okkur dýrmætar og ljúfar bernskuminningar. Þó munum við ekki síður minnast þín í verki, Diddi afi, með því að viðhalda þeim lærdóm sem þú veittir okkur sem fullveðja fólki. Við heitum því að gera okkar besta til að halda minningu þína í heiðri með því að temja okkur þá góðu kosti sem þú hafðir til að bera, því þannig verður minning þín með okkur um ókomna framtíð.

Þín barnabörn,

Eva Margrét og Kristinn Már Reynisbörn.

Yndislegi afi minn er dáinn. Hann lifði í heila öld. Kristinn afi var góður afi og mikill vinur minn. Sem barn og unglingur var ég oft hjá ömmu og afa á Tjarnó. Og oftar en ekki fengum við systkinin að fara með þeim upp í bústað að gista. Ég man að við rifumst um að fá að sofa í efri kojunni en afi var með dagbók sem hann skráði í hvort okkar fengi efri kojuna. Dagarnir í bústaðnum voru ævintýralegir. Við fórum með afa út á bát að veiða í soðið. Við fórum með ömmu að sækja grænmeti í garðinn. Við náðum í vatn í lækinn í vatnskönnuna. Við fengum að smíða litla báta úr spýtum, svo fengu þeir að fljóta á vatninu. Við veiddum síli, fórum í feluleiki, skoðunarferðir niður í Falkheim í stóra skóginn, göngutúra með afa upp að hliði, tíndum ber og margt margt fleira. Þetta voru góðir dagar.

Þegar ég varð eldri fór ég oft í heimsókn til ömmu og afa á Tjarnarbrautina eða upp í Dalsel. Þá sátum við í stofunni, amma prjónaði og svo töluðum við um allt og ekkert. Afi og amma sýndu mér alltaf áhuga og afi var alltaf hreinskilinn um sínar skoðanir á hlutunum. Afi var mjög íhaldssamur og trúði á gömlu góðu gildin; góða menntun, standa sig vel í vinnu og reglusemi.

Ég á svo margar minningar um afa og ömmu sem mér þykir svo vænt um. Ég kveð þessi sómahjón með ást, kærleika og söknuði. Hvíl þú í friði elsku afi minn.

Legg ég nú bæði líf og önd,

ljúfi Jesús, í þína hönd,

Síðast þegar ég sofna fer

sitji Guðs englar yfir mér.

(Hallgrímur Pétursson)

Anna María Snorradóttir.