Launagreiðslur Deilt er um hvort heimilt sé að greiða launuðum leikmönnum verktakagreiðslur.
Launagreiðslur Deilt er um hvort heimilt sé að greiða launuðum leikmönnum verktakagreiðslur. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðar Guðjónsson vidar@mbl.is Íþróttafélögum voru á síðasta ári send bréf þar sem þau voru hvött til þess huga að því að standa rétt að skattskilum.

Viðar Guðjónsson

vidar@mbl.is

Íþróttafélögum voru á síðasta ári send bréf þar sem þau voru hvött til þess huga að því að standa rétt að skattskilum. Deildar meiningar eru um það á milli Ríkisskattstjóra og sumra íþróttafélaga hvort félögum sé leyfilegt að greiða starfsfólki verktakagreiðslur, sérstaklega þegar kemur að leikmönnum.

Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri, telur að ákvæði séu skýr í lögum og að greiða beri starfsfólki í samræmi við lög um launþega. Þá eru einnig deildar meiningar um það hvort sala á auglýsingaskiltum sé styrkur til íþróttafélaga eða tekjur sem beri að greiða virðisaukaskatt af. „Þó að menn séu ekki sammála Ríkisskattstjóra þá þýðir það ekki að menn geti ákveðið hvað sé rétt og rangt í þessum málum,“ segir Skúli

Spurður hvort grunur hafi verið um að ekki sé rétt staðið að skattskilum hjá íþróttafélögunum segir Skúli: „Við sendum ekki svona bréf til allra landsmanna, heldur til þessa hóps í þessu tilfelli.“

Hann bendir á að umhverfi íþróttahreyfingarinnar hafi breyst á undanförnum árum og að atvinnumennska hafi færst í vöxt. Slíkt kalli á að skerpa þurfi á því hvernig standa beri að skattheimtu.

Málið fyrir skattanefnd

Jón Rúnar Halldórsson, formaður knattspyrnudeildar FH, segir að deildin sé ein fjögurra knattspyrnudeilda sem beðnar voru um afrit af upplýsingum úr bókhaldi á síðasta ári. Að þremur mánuðum liðnum var þeim tilkynnt um að skatturinn hygðist ekki aðhafast sérstaklega. Að sögn Jóns Rúnars eru enn deildar meiningar Ríkisskattstjóra og félaganna um það hvort greiða megi leikmönnum verktakagreiðslur í stað þess að þeir séu launþegar.

Komist aðilar ekki að samkomulagi á Jón Rúnar von á því að málinu verði skotið til skattanefndar sem úrskurðar um slík álitamál. „Leikmaður er í nánast öllum tilvikum í annarri vinnu eða námi. Maður gerir aldrei langtímasamning við leikmenn. Okkur finnst vanta skilning á hlutverki leikmanna innan félaganna,“ segir Jón. Hann er hins vegar sammála þeim sjónarmiðum að þjálfarar og aðrir starfsmenn félaganna í fullri vinnu séu launþegar. „FH er t.a.m. með um 100 manns í vinnu hjá félaginu. Langflestir eru verktakar. Gera má ráð fyrir því að kostnaður aukist um 30% ef sjónarmið skattsins verða ofan á að fullu,“ segir Jón Rúnar.

Jöfn samkeppni um leikmenn

Erlendum leikmönnum, sem fá greidd laun frá íþróttafélögum, ber að greiða 18% skatt af tekjum sínum auk þess að standa við greiðslur til sveitarfélaga. Að sögn Jóns Rúnars hefur borið á því að ekki hafi verið greiddur skattur af slíkum verktakagreiðslum. Telur hann að í þeim tilfellum þurfi félögin að halda eftir hlut opinberra aðila af greiðslum til leikmannanna.

Skúli Eggert bendir á að einn angi skattskila snúi að samkeppnismálum. „Sum félög eru með þetta alveg í lagi á meðan önnur eru það ekki. Það er samkeppni um íþróttamenn. Því er mikilvægt að félögin greiði sömu skatta og sömu skyldur,“ segir Skúli.