Falleg fjölskylda Sjöfn og Björn Vigfús og börnin Dagur Örn og Sunna á brúðkaupsdeginum 13. október 2012.
Falleg fjölskylda Sjöfn og Björn Vigfús og börnin Dagur Örn og Sunna á brúðkaupsdeginum 13. október 2012. — Ljósmynd/larus.is
Sjöfn Gunnarsdóttir er 35 ára í dag og ætlar af því tilefni að halda skvísupartí fyrir vinkonurnar á laugardaginn. Partíið verður „gefandi gleði“, eins og Sjöfn orðar það, en hún hefur verið dugleg við að fagna heils- og hálfstugar afmælum.

Sjöfn Gunnarsdóttir er 35 ára í dag og ætlar af því tilefni að halda skvísupartí fyrir vinkonurnar á laugardaginn. Partíið verður „gefandi gleði“, eins og Sjöfn orðar það, en hún hefur verið dugleg við að fagna heils- og hálfstugar afmælum. Á öðrum, aðeins minna merkilegum, afmælisdögum er nánustu boðið í kaffi.

„Ég á tvö börn og mann, sem er að vísu mikið erlendis,“ segir Sjöfn um fjölskylduhagi sína, en maðurinn, Björn Vigfús Metúsalemsson, er smiður og starfar um þessar mundir í Nuuk á Grænlandi. Fjölskyldan flutti í nýtt og stærra húsnæði í október síðastliðnum og síðan hefur verið nóg að gera við að taka upp úr kössum og gera klárt. „Kallinn var bara heima í tíu daga þegar við vorum að flytja og ég var ein eftir með krakka og fullt af kössum,“ segir Sjöfn. „En to-do listinn bíður þegar hann kemur heim,“ segir hún og hlær.

Sjöfn segist hafa öðlast ákveðið sjálfstæði sem grasekkja og að hún sé orðin bara hreint býsna laghent. Hún starfar við skrifstofustörf hjá Heilsuborg í Faxafeni og segist sjálf stunda líkamsrækt þegar hún getur. „Ég reyni að fara þrisvar í viku; reyni að vera góð fyrirmynd,“ segir hún en utan hreyfingarinnar nýtur hún þess að verja frístundunum með fjölskyldu og vinum. Hún segir huggulega stemningu bíða gestanna á laugardag. „Ég er ennþá með jólaseríu úti á runna. Það er fínt að hafa ljósin þegar maður heldur upp á afmælið,“ segir hún. holmfridur@mbl.is