Joan Canellas
Joan Canellas
Spánverjar gulltryggðu sér sæti í undanúrslitum Evrópumótsins í fyrsta leiknum í Herning í gær þegar þeir unnu auðveldan sigur á Makedóníu, 33:22.

Spánverjar gulltryggðu sér sæti í undanúrslitum Evrópumótsins í fyrsta leiknum í Herning í gær þegar þeir unnu auðveldan sigur á Makedóníu, 33:22. Vonir Íslands um að skáka Spánverjum og fara í fjögurra liða úrslit voru bundnar við að Makedóníu tækist að vinna en það var aldrei í spilunum, þó staðan væri reyndar jöfn langt frameftir fyrri hálfleik. Spánverjar stungu af í seinni hálfleik og ekki bætti úr skák að stórskyttan Kiril Lazarov lék ekki með Makedóníu vegna nárameiðsla.

Joan Canellas skoraði 6 mörk fyrir Spánverja og Víctor Tomás 5 en þeir mæta Frökkum á morgun.

Patrekur Jóhannesson og austurrískir lærisveinar hans fögnuðu sætum sigri á Ungverjum, 25:24, og þar með var ljóst að ungverska liðið gæti ekki ógnað því íslenska í þriðja sæti riðilsins. Austurríki komst þó ekki úr neðsta sæti milliriðilsins en hafnaði í 11. sæti keppninnar. vs@mbl.is