Hrafnkell Tumi Kolbeinsson
Hrafnkell Tumi Kolbeinsson
Eftir Hrafnkel Tuma Kolbeinsson: "Þar kom fram með óyggjandi hætti að framhaldsskólakennarar hafa notið minnsta launaskriðs allra hópa."

Samningar framhaldsskólakennara eru lausir 31. janúar næstkomandi. Félag framhaldsskólakennara (FF) hefur sagt að leiðrétta þurfi kjör félagsmanna. Með því er meðal annars verið að vísa í að kjör helstu viðmiðunarhópa hafa hækkað talsvert umfram kjör framhaldsskólakennara. Þessir viðmiðunarhópar eru einkum háskólamenntaðir sérfræðingar innan BHM.

FF hefur undanfarin ár unnið úttektir sem sýna að bilið á milli framhaldsskólakennara og viðmiðunarstétta þeirra hefur aukist mikið. Þessi munur var svo endanlega staðfestur síðastliðið haust þegar skýrsla heildarsamtaka vinnumarkaðarins kom út. Þar kom fram með óyggjandi hætti að framhaldsskólakennarar hafa notið minnsta launaskriðs allra hópa sem þar voru bornir saman á árabilinu 2006-2013.

Í markmiðum samningsaðila (þ.e. samninganefnda FF og ríkisins) hefur margoft komið skýrt fram að laun félagsmanna FF eigi að vera sambærileg og viðmiðunarhópa. Nærtækast er hér að minna á bókun nr. 5 með miðlægum kjarasamningi vorið 2011. Þar segir meðal annars að markmiðið „sé að bregðast sérstaklega við óæskilegri þróun sem fyrst“.

Þegar prósentuhækkanir, sem samið hefur verið um í miðlægum samningum undanfarin ár, eru bornar saman kemur í ljós að þær eru sambærilegar og stundum ívið hærri en hjá viðmiðunarstéttum. Hvað skýrir þá aukið launabil? Ástæðu þess er meðal annars að finna í því að ekkert launaskrið hefur orðið í stofnanasamningum framhaldsskólanna.

Stofnanasamningarnir byggjast á hugmyndafræði sem kennd er við Nýskipan í ríkisrekstri þar sem grunnhugsunin er sú að nýta kosti einkageirans í opinberum rekstri. Svigrúm á að vera til þess að laga störf og starfsaðstæður að hverri stofnun í samningum á milli stjórnenda og starfsfólks. Ef hagræðing næst fram á stofnunum á hún t.a.m. einnig að skila sér til starfsmanna. Þetta hefur ekki gengið eftir í framhaldsskólunum og allur ábati sem þeir hafa skilað er tekinn af þeim. Þetta eru auðvitað augljós svik við hugmyndafræðina sem þarf að bregðast við. Svikamyllan sem malar undir niðri er svo sú að skólum eru skammtaðir minni fjármunir í launagreiðslur í gegnum reiknilíkan fjármálaráðuneytisins en þeir þurfa í raun að greiða. Þetta hefur orðið til þess að greiðslur til kennara á grundvelli stofnanasamninga hafa verið skornar niður en verkin sem vinna á ekki.

Laun framhaldsskólakennara hafa dregist aftur úr þrátt fyrir skýr markmið og fögur fyrirheit um annað. Lengra verður ekki gengið. Viðsemjendur okkar þurfa að finna leiðir gagnvart þeirri skýru sanngirniskröfu að kennarar fái launin leiðrétt svo skólarnir geti sinnt sínum lögbundnu hlutverkum og kennarar fái mannsæmandi laun.

Höfundur er varaformaður Félags framhaldsskólakennara.

Höf.: Hrafnkel Tuma Kolbeinsson