Ég fékk ágætt bréf frá Helga Zimsen, sem mér þykir rétt að birta í heild: „Þakka þér fyrir góð innlegg í Vísnahornið, og ekki síður fyrir innlegg þar eftir mig. Maður er nógu hégómlegur til að hafa gaman af að sjá vísur eftir sig á prenti.

Ég fékk ágætt bréf frá Helga Zimsen, sem mér þykir rétt að birta í heild:

„Þakka þér fyrir góð innlegg í Vísnahornið, og ekki síður fyrir innlegg þar eftir mig. Maður er nógu hégómlegur til að hafa gaman af að sjá vísur eftir sig á prenti. Ykkur feðgum treysti ég vel til að meta hvað er tækt til birtingar, enda vísnahorn Morgunblaðsins betra en flest önnur slík horn sem ég hef rekið mig á.

Eitt þykir mér þó rétt að gera athugasemd við, en það er það að þú hefur bitið í þig ranga stafsetningu á ættarnafninu mínu. Ég er svo sem ekkert viðkvæmur fyrir þessu enda hefur maður séð ýmislegt um dagana, t.d. var ég kallaður Siemsen í Fréttablaðinu á þriðjudaginn, en rétt er s.s. Zimsen. En mér þætti auðvitað miður ef lesendur létu rangan rithátt rugla sig í ríminu.

Þegar ég gekk á Leirlistann fyrir um tíu árum varð mörgum mætum manninum á að misrita nafnið mitt. Brá ég þá á það ráð að senda eftirfarandi minnisvísu til Leirverja og sá ættarnafnið varla misritað eftir það.

Z “ er fyrst en síðan „i“ og svo er „m“

„s“ ið kemur, „e“ ið þá

„n“ið má í lokin sjá.“

Þetta var mátulegt á mig, hugsaði ég. Seint lærist mér að fara rétt með nöfn!

Handboltinn á hug og hjarta Kristbjargar Freydísar Steingrímsdóttur:

Oft ég horfi stolt á stílinn

hjá stæltu boltaköllunum,

en mér finnst að ýluskrílinn

ætti að hreinsa af pöllunum.

Vísunni fylgir sú athugasemd að varla heyrist í þeim sem lýsir leiknum fyrir þessum óhljóðum.

Sigmundur Benediktsson lætur þess getið á Leirnum að hann sé búinn að mæra Ragnar Inga Aðalsteinsson svo mjög að hann sé farinn að óttast afleiðingarnar og vilji snúa lítillega ofan af hólinu. Afmælisbarnið hafi látið þess getið að ljóðabók sín væri svo falleg að utan að ekki þyrfti að opna hana. En eftir að Sigmundur hafði skoðað innfelldu myndina af höfundi á framhliðinni datt honum í hug þessi ofanafsnúningur, – „sem lýsir þó best hinu slæma innræti mínu“, bætir hann við:

Ýmsa galla augað sér,

andlitsfallið grettið.

Ósköp hallast aftur hér

aðjunkts snjalla smettið.

Halldór Blöndal

(halldorblondal@simnet.is)