Kapallinn lagður Leggja þarf marga kílómetra af rörum og köplum í göngunum.
Kapallinn lagður Leggja þarf marga kílómetra af rörum og köplum í göngunum. — Morgunblaðið/Sigurður Ægisson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Ægisson Siglufirði Framkvæmdir hafa staðið yfir undanfarnar vikur í Múlagöngum, yst á Tröllaskaga, en þau tengja saman Ólafsfjörð og Dalvík, eru 3,4 km að lengd, einbreið, voru tekin í notkun í desember 1990, vígð 1.

Sigurður Ægisson

Siglufirði

Framkvæmdir hafa staðið yfir undanfarnar vikur í Múlagöngum, yst á Tröllaskaga, en þau tengja saman Ólafsfjörð og Dalvík, eru 3,4 km að lengd, einbreið, voru tekin í notkun í desember 1990, vígð 1. mars 1991 og eru um margt barn síns tíma.

Verið er að endurnýja rafkerfi þeirra í heild sinni, til að uppfylla Evrópukröfur, nútíma öryggisstaðla um lýsingu, merkingar og fleira.

Verkið, sem á að vera að fullu lokið 15. apríl 2014, er í höndum Rafmanna ehf. á Akureyri, sem sjá um allt nema það að grafa í vegöxlina norðanverða til að unnt sé að koma þar niður ídráttarrörum, fjölpípurörum og aflstrengjum; sá verkþáttur, jarðvinnan, er í höndum RARIK, í gegnum undirverktaka, Smára ehf. á Ólafsfirði.

89 upplýst umferðarskilti

Aðalsteinn Þ. Arnarsson rafmagnsiðnfræðingur, einn af eigendum Raffó ehf. á Siglufirði, er eftirlitsmaður Vegagerðarinnar. Segir hann að mjög stífar kröfur séu gerðar varðandi allt efni, út af brunavörnum o.s.frv. Alls verði 3.700 metrar settir niður af ídráttarrörum, 3.600 metrar af tvenns konar blásturs- eða fjölpípurörum og 15.500 metrar af aflstrengjum, sem bara eigi að notast í göngunum.

Þá verði festir á gangavegginn 23 nýir síma- og slökkvitækjaskápar, sem muni hver um sig innihalda IP neyðarsíma og tvö 6 kg duftslökkvitæki. Límmiðar með upplýsingum um notkun síma verði á fimm tungumálum. Þá verða upplýst umferðarskilti 89 talsins.

Farsímakerfi í göngunum

Koma á upp búnaði fyrir bæði GSM og TETRA símakerfi svo hægt verði að nota farsíma þar inni. Lokunarslám með skynjunarbúnaði verður komið fyrir í vegöxl rétt utan við gangamunna beggja vegna. Þær eiga að vera 5 metrar á lengd en búnaðurinn á samt að gera ráð fyrir þeim lengri eða allt að 9 metrar. Lyftitími á að vera 4-9 sekúndur og búnaðurinn gerður fyrir a.m.k. 500 lokanir/opnanir á dag. Blikkljós verða fyrir utan göng sem og neyðarstjórnskápar.

Eftirlitsmyndavélar verða settar upp og hraðaupplýsingaskilti, sem og mengunarnemar til að mæla CO (kolsýrling), NO2 (köfnunarefnisoxíð) og ryk, veðurnemar, úti og inni, og umferðargreinir.

Þrjú tæknirými verða í göngunum, í hellum. Einn var þar fyrir en hinir tveir sprengdir inn í bergið síðastliðið haust. Sá verkþáttur var boðinn út sérstaklega og var Þórsverk ehf. í Reykjavík verktaki þar. Eitt tæknirýmanna verður nærri gangamunnanum Ólafsfjarðarmegin, nánar tiltekið í útskoti 19, annað í miðjum göngum, í útskoti 10, og hið þriðja í útskoti 2, Dalvíkurmegin. Um er að ræða gáma með fjarskiptaskápum og stýringum margs konar, sem hægt verður að stjórna frá Akureyri eða annars staðar og fylgjast með ýmsu, s.s. umferð og mengun.

Slökkvilið Fjallabyggðar og viðbragðsaðilar á svæðinu hafa þrýst á Vegagerðina um að setja jafnframt upp blásara í Múlagöngum og er það í skoðun, þótt ekki hafi verið gert ráð fyrir slíku í útboðsgögnum. Að minnsta kosti er ljóst að nóg rafmagn mun verða til staðar ef út í þetta yrði farið.

Í framhaldi þessa er í deiglunni að líta á Strákagöng, hugsanlega á næsta ári, en þau eru mjög komin til ára sinna, að ekki sé fastar að orði kveðið, voru formlega opnuð 10. nóvember 1967.