Flýgur Ólafur Andrés Guðmundsson stekkur hátt upp fyrir framan dönsku vörnina í leik þjóðanna í Herning í gærkvöld.
Flýgur Ólafur Andrés Guðmundsson stekkur hátt upp fyrir framan dönsku vörnina í leik þjóðanna í Herning í gærkvöld. — Morgunblaðið/Eva Björk
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
EM 2014 Ívar Benediktsson Herning „Við vorum teknir í bakaríið í síðari hálfleik.

EM 2014

Ívar Benediktsson

Herning

„Við vorum teknir í bakaríið í síðari hálfleik. Þetta var verðskuldaður danskur sigur hjá liði sem sennilega verðandi Evrópumeistari,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson við Morgunblaðið eftir 32:23, tap fyrir Danmörku í lokaleik milliriðlakeppni Evrópumeistaramótsins í handknattleik Jyske Bank Boxen í Herning í gærkvöldi.

„Við brenndum af alltof mörgum opnum færum í leiknum til þess að geta verið með í þessum leik. Oft sköpuðu við okkur fín færi en nýttum þau yfirleitt illa. Fyrir þessháttar spilamennsku refsa Danirnir um leið. Síðan ganga þeir á lagið og hafa þess utan gríðarlegan stuðning. Þegar leikir þróast með þessum hætt þá eru endalokin oft með þessum hætti,“ sagði Snorri Steinn sem var afar vonsvikinn eins og allir leikmenn íslenska landsliðsins eftir þessa útreið þar sem markvörðurinn Jannick Green, samherji Kára Kristjáns Kristjánssonark lék leikmenn íslenska landsliðsins afar grátt.

„Við reyndum að gera breytingar og skipta leikmönnum inn á en ekkert gekk. Svona fór þetta, því miður.“

Snorri Steinn sagði að slæm nýting á opnum færum hafi orðið íslenska liðinu að falli í fyrri hálfleik. Betri nýting á færum hefði þýtt jafnari staða í hálfleik en þá stóðu leikar 17:13. „Síðan byrjuðum við síðari hálfleikinn á sama hátt og þá var þessu lokið.

Við erum svekktir með að tapa og tapa svo stórt. Nú er næst á dagskránni að rífa sig í gang fyrir síðasta leikinn í mótinu. Fimmta sætið gefur ekkert annað en heiðurinn en ég hef trú á því að þegar menn hafa gengið í gengum þetta svona lengi þá vilji allir klára mótið eins og menn,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson um viðureignina um fimmta sætið við Pólverja á föstudaginn klukkan 15.

Fjaraði fljótt undan þessu

„Munurinn á liðunum var sá að við nýttum illa okkar færi á meðan Danirnir nýttu sín færi. Það skildi liðin að. Í síðari hálfleik fjaraði undan þessu hjá okkur,“ sagði Sverre Andreas Jakobsson, eftir tapleikinn í Boxinu í gærkvöldi. „Þess utan þá hittum við ekki á góðan dag og þeir gengu á lagið. Ég ekki þeirrar skoðunar að munurinn sé í raun svona mikill á liðunum,“ sagði Sverre ennfremur.

„Við lögðum upp með allt annað plan fyrir leikinn en raun varð á. Því miður þá voru hlutirnir fljótir að breytast sem varð raunin,“ sagði Sverre sem taldi að sú staðreynd að úrslit leiksins breyttu ekki miklu um örlög íslenska landsliðsins í keppninni lágu fyrir áður en flautað var til leiks. „Okkur langaði til að skemma fyrir Dönunum fyrir framan fulla höll af stuðningsmönnum þeirra. Okkur tókst það svo sannarlega ekki, þetta varð þvingaður leikur um tíma. Nú förum við í leikinn um fimmta sætið staðráðnir í að vinna og ljúka mótinu með sæmd,“ sagði Sverre Andreas Jakobsson, landsliðsmaður í handknattleik við Morgunblaðið eftir tapleikinn í gærkvöldi.