Hreinskilin umræða í Davos um evrukreppuna er sláandi

Í upphafi hvers árs koma hinir ríku og valdamiklu, sem sumir eru hvort tveggja, ásamt með fróðleiksmönnum og fjölmiðlafólki, saman í smábænum Davos í Sviss til að spá í hin alþjóðlegu spil. Það gerir þessi hópur í prýðilegu blandi við margvísleg huggulegheit og skíðabrekkur af skárri sortinni.

Það hefur tíðkast síðan til þessara atburða var fyrst stofnað að þarna tjái menn sig á opnari og einlægari hátt en stundum endranær, þótt engin leynd hvíli yfir þessum fundarhöldum. Því er töluvert horft til frétta frá Davos.

Síðasti Davos-fundur virðist ekki vera síður áhugaverður en ýmsir fyrri fundir. Þannig segir Ambrose Evans-Pritchard, sem er leiftrandi penni á Daily Telegraph, frá pallborðsumræðum efnahagssérfræðinga, sem verma efstu bekki slíkra í heiminum. Stundum hefur þótt fínast alls að slíkir kölluðust á í krossgátum sem aldrei voru birtar neinar lausnir á. Ekkert þess háttar var í gangi þarna. Pritchard segir að þessir toppmenn hafi blásið á að evrukreppan væri á útleið og haft uppi varnaðarorð um að evrusvæðið sæti blýfast í gildru lágvaxtar og skulda og evrusvæðinu hafi í raun verið skákað út á jaðar hins alþjóðlega efnahagslífs af Bandaríkjunum og Kína.

Dr. Axel Weber, áður seðlabankastjóri Þýskalands, hélt því fram að undirliggjandi vandi evrusvæðisins væri enn að grafa um sig og því stæðu líkur til að það myndi sæta nýjum árásum markaðsaflanna á þessu ári.

„Evrópu er ógnað,“ sagði dr. Weber og kvaðst hafa miklar áhyggjur af stöðunni.

Dr. Axel Weber, sem nú er stjórnarformaður UBS-bankans, bætti því við að boðuð bankaþolpróf Seðlabanka Evrópu kynnu að ýta undir nýja vantrúaröldu á gæðum ríkisbréfa á svæðinu og leiða þar með til nýs hættuástands í Miðjarðarhafslöndum álfunnar.

Kenneth Rogoff prófessor við Harvardháskóla sagði að stofnun evrunnar hafi verið risavaxin söguleg mistök og með öllu ótímabær aðgerð. Því þyrfti fjárhagslegt og bankalegt samband að koma til, ef sameiginleg mynt ætti að eiga einhverja framtíð, en leiðtogar ríkja evrusvæðisins neituðu enn að stíga slík skref. Og Rogoff prófessor bætti við: „Menn eru ekki lengur að tala um að evran liðist í sundur heldur um atvinnuleysi æskufólksins sem orðið er óhugnanlegt.“

Dr. Axel Weber, sem sagði af sér á sínum tíma sem seðlabankastjóri Þýskalands og lykilmaður í stjórn SBE vegna deilna um hvernig bregðast skyldi við evrukreppunni, varaði leiðtoga ESB við hættulegri sjálfsblekkingu og að lifa í þeirri sjálfumglöðu trú að efnahagsbatinn væri handan við hornið:

„Menn þykjast hafa tilfinningu fyrir því nú, að staðan sé orðin önnur og betri. Sú er ekki raunin. Batinn er enn svo rýr að honum fylgja ekki nein ný störf. Málið snýst því ekki um meintan bata. Hagvöxtur, sköpun nýrra starfa og þjóðarframleiðsla á mann eru enn rýrari en sömu mælikvarðar voru fyrir kreppuna.“

Dr. Weber sagði einnig að stöðumatið snerist alls ekki um það, hvort Þýskalandi miðaði efnahagslega eitthvað betur en Frakklandi. Slíkt tal væri ruglandi því að evrusvæðið sem heild væri að koma illa út:

„Efnahagslíf heimsins mun dansa eftir pípum sem í er blásið í Kína og Bandaríkjunum. Heimurinn utan við er orðinn mun samkeppnishæfari (en evrusvæðið).“

Þegar á allt þetta er horft, en þó einkum á beina og ríka hagsmuni Íslands og til úrslita síðustu kosninga, sætir nokkurri furðu að ríkisstjórnarflokkarnir hafi ekki enn lokið því hreina formsatriði að binda enda á umsóknarfárið að ESB.

Á þessum vettvangi hafa menn ekki endilega haft neina sérstaka umframsamúð með stækkunarstjórum og öðrum kommisserum í „pólitburóinu“ í Brussel. En það er erfitt annað en hafa á því skilning að þeir þar botni hvorki upp né niður í framgöngu íslensku ríkisstjórnarinnar að þessu leyti.