— Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon
23. janúar 1751 Bærinn að Hvítárvöllum í Borgarfirði brann og sjö manns létust, meðal annarra sýslumannssonur sem hafði gengið rösklega fram í björgunarstörfum. 23.

23. janúar 1751

Bærinn að Hvítárvöllum í Borgarfirði brann og sjö manns létust, meðal annarra sýslumannssonur sem hafði gengið rösklega fram í björgunarstörfum.

23. janúar 1907

Togarinn Jón forseti, fyrsti botnvörpungurinn sem Íslendingar létu smíða, kom til landsins.

23. janúar 1949

Fyrsta „dráttarbraut fyrir skíðafólk“ hér á landi var tekin í notkun við Skíðaskálann í Hveradölum. Brautin var 110 metra löng og gat dregið allt að tíu manns í einu.

23. janúar 1973

Eldgos hófst í Heimaey, um kl. 2 að nóttu. „Jarðeldar ógna byggð í Vestmannaeyjum,“ sagði Þjóðviljinn. „Eldur og eimyrja vall upp úr tveggja kílómetra langri eldgjá,“ sagði Vísir. Langflestir 5.500 íbúa Vestmannaeyja voru fluttir til lands á örfáum klukkustundum. Um þrjátíu stundum fyrir upphaf gossins varð sérkennileg og áköf hrina af litlum jarðskjálftum undir eynni. Gosið stóð fram í júní.

23. janúar 1988

Mesta frost í sjötíu ár mældist í Möðrudal á Fjöllum, 32,5 stig á Celcius. Svipað frost var í Mývatnssveit. Erfitt var að gangsetja vélknúin ökutæki og vatn fraus í leiðslum.

Dagar Íslands | Jónas Ragnarsson