Sjónvarp Guðrún Nína er byrjuð í veðurfréttum Sjónvarpsins.
Sjónvarp Guðrún Nína er byrjuð í veðurfréttum Sjónvarpsins. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Guðrún Nína Petersen er nýr veðurfræðingur í fréttum hjá Sjónvarpinu. Hún kom fyrst fram á skjánum í fyrrakvöld og verður næst með veðurfréttirnar annað kvöld.

Guðrún Nína Petersen er nýr veðurfræðingur í fréttum hjá Sjónvarpinu. Hún kom fyrst fram á skjánum í fyrrakvöld og verður næst með veðurfréttirnar annað kvöld.

„Einhvern tíma verður allt fyrst,“ segir Guðrún Nína, sem útskrifaðist með doktorspróf í veðurfræði 2004 og hefur verið í fullu starfi hjá Veðurstofunni síðan 2008. Hún segist hafa áhuga á veðri og veðurfræði, hafa lengi miðlað þekkingu um fræðin í fyrirlestrum og öðru og veðurfréttamennskan sé af sama meiði. „Þetta er vinna eins og hvað annað,“ segir hún.

Guðrún Nína vinnur einkum við veðurfræðirannsóknir. Hún er önnur konan sem bætist í hóp veðurfréttamanna hjá Rúv á skömmum tíma, en hún bendir á að tveir veðurfræðingar hafi dottið út úr veðurfréttunum að undanförnu og fylla hafi þurft í skörðin til að veita áfram sömu þjónustu. „Þetta er samvinna margra,“ segir hún en sex veðurfræðingar sjá nú um veðurfréttirnar hjá Rúv. steinthor@mbl.is