[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
• Sigmar Gabriel sameinar ráðuneyti orkumála og efnahags • Er ætlað að stýra umbreytingu þýsks orkubúskapar yfir í grænan farveg • Erfiðar umbætur þarf til þess að stemma stigu við hækkandi orkuverð í Þýskalandi • Hefur sætt gagnrýni frá báðum stjórnarflokkum

Baksvið

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Efnahagslíf Þýskalands stendur nú frammi fyrir stærstu áskorun sinni frá stríðslokum: að færa þýskan orkubúskap yfir í grænan farveg. Sá sem ætlað er það veigamikla hlutverk að stýra efnahagnum í gegnum þær hræringar er Sigmar Gabriel, formaður þýska sósíaldemókrataflokksins, en auk þess að vera varakanslari Angelu Merkel í nýrri samsteypustjórn, fer hann einnig með ráðuneyti orkumála og efnahagsmála, sem hefur verið steypt saman í eitt „ofurráðuneyti“.

Eftir hið mikla afhroð sem sósíaldemókratar biðu í þingkosningunum síðasta haust þótti Gabriel hafa tekið mikla áhættu með loforði sínu um að setja stjórnarsáttmálann við kristilega demókrata, flokks Angelu Merkel kanslara, í almenna atkvæðagreiðslu meðal flokksmanna sinna, enda var talin raunveruleg áhætta á að flokksmennirnir myndu hafna öllu samstarfi við Merkel. Slík úrlausn hefði getað leitt til langvarandi stjórnarkreppu í landinu og jafnvel annarra þingkosninga.

Sú reyndist ekki raunin, og Gabriel stóð uppi með pálmann í höndunum þegar sáttmálinn var samþykktur með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða.

Orkubyltingin fer af stað

Breytingin hefur fengið heitið die Energiewende á þýsku, sem þýða má sem „orkubyltinguna“ eða kúvendinguna á íslensku. Orkubyltingin hefur verið eitt helsta keppikefli Angelu Merkel frá árinu 2011, þegar hún lýsti því yfir að hún vildi loka öllum 17 kjarnorkuverum Þjóðverja hægt og bítandi. Í kjölfarið setti Merkel stefnuna á að draga úr notkun jarðeldsneytis. Í aðdraganda kosningabaráttunnar var orkustefnan eitt helsta kosningamál kristilegra demókrata, og því ljóst að Gabriel nýtur mikils stuðnings Merkels við að útfæra orkubyltinguna.

Í kúvendingunni felst í stórum dráttum að síðasta kjarnorkuverinu eigi að loka árið 2022 og að endurnýjanleg orka eigi að nema um 80% af orkuframleiðslu og 60% af orkunýtingu árið 2050. Á sama tíma á losun gróðurhúsalofttegunda að minnka frá því sem var árið 1990 um 70% árið 2040 og 80-95% árið 2050.

Það setur þó strik í reikninginn að áður en lengra er haldið þarf Gabriel fyrst að glíma við fjötra fortíðarinnar. Árið 2000 voru samþykkt orkulög í Þýskalandi, sem veittu framleiðendum endurnýjanlegrar orku hvata í formi forgangs að orkukerfi landsins, auk þess sem hátt raforkuverð fyrir endurnýjanlega orku var fest í lög. Afleiðingin er sú að eftir því sem endurnýjanlegu orkugjöfunum fjölgar verður raforkuverðið dýrara en ella, og lendir kostnaðurinn nær allur á almennum neytendum. Þýsk fyrirtæki hafa einnig fundið fyrir hækkunum og hefur heyrst að sum þeirra hugsi sér til hreyfings frá Þýskalandi vegna þessa. Gabriel lýsti því yfir í vikunni að samkeppnishæfni þýsks iðnaðar væri í hættu, og boðaði til aðgerða sem eiga að lækka kostnað við endurnýjanlegu orkuna, en hann nemur um 24 milljörðum evra, eða sem nemur um 3,7 billjónum íslenskra króna.

Gagnrýni innan eigin raða

Ekki eru allir á eitt sáttir og hefur borið á gagnrýni á áform Gabriels frá báðum stjórnarflokkum. Kristilegir demókratar óttast að umbæturnar muni ekki duga til að lækka kostnaðinn við endurnýjanlegu orkugjafana, hann muni eftir sem áður fara stigvaxandi.

Úr ranni sósíaldemókrata heyrist hins vegar að verið sé að vega að framgangi umhverfisvænna orkugjafa með því að skerða stuðning við þá. Er sú gagnrýni einkum sprottin úr samkeppni við Græningja um atkvæði, en síðarnefndi flokkurinn hefur sótt á sósíaldemókrata eftir að þeir gengu í stjórn með Merkel.

Svo mjög hefur kveðið að þessari gagnrýni að Merkel hefur lýst yfir sérstökum stuðningi við boðaðar umbætur. Hvatti hún í vikunni stjórnarflokkana til þess að láta af deilum sínum og fylkja sér á bak við Gabriel.

Þrátt fyrir þessi úrlausnarefni hefur Sigmar Gabriel náð að setja sig í góða stöðu til þess að keppa við Merkel um sjálft kanslaraembættið í kosningunum 2017. Takist honum vel til við að koma orkubyltingunni á koppinn, gæti hann átt góða möguleika á því að snúa við kosningaósigrunum 2009 og 2013. Ef orkubyltingin misheppnast gæti stjórnmálaferillinn hins vegar verið á enda.

„Siggi Pop“, fyrirmyndarfaðir

Sigmar Gabriel er fæddur árið 1959 og starfaði sem framhaldsskólakennari áður en hann fór í stjórnmálin. Hann varð forsætisráðherra Neðra-Saxlands árið 1999 og gegndi þeirri stöðu næstu fjögur árin. Árið 2003 varð Gabriel fulltrúi sósíaldemókrataflokks gagnvart „poppmenningu“, og hlaut hann í kjölfarið viðurnefnið „Siggi Pop“.

Gabriel gegndi embætti umhverfismálaráðherra í fyrsta ráðuneyti Angelu Merkel. Eftir afhroðið 2009 varð hann formaður sósíaldemókrata. Gabriel er tvíkvæntur og á tvær dætur. Sú yngri er nýorðin tveggja ára, og vakti það mikla athygli þegar Gabriel greindi frá því að hann yrði í fríi á miðvikudagseftirmiðdögum til þess að geta sinnt henni betur.