Pálmi S. Rögnvaldsson fæddist á Akureyri 12. október 1928. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð í Kópavogi 4. janúar 2014.

Útför Pálma fór fram frá Kópavogskirkju 15. janúar 2014.

Sem ferjumaðurinn mikli kallar okkur hvert af öðru yfir móðuna miklu, kveð ég þig félagi, Pálmi Rögnvaldsson rafvirkjameistari, sem skaust yfir í Sumarlandið fyrir skemmstu. Ekki þó að óvörum, því óvætturinn mikli „Alzheimer“ felldi þig eftir langa og stranga Jakobsglímu. Þú varst einn af okkur iðnaðarmönnunum í Kópavogi sem stóðum þétt saman að uppbyggingu staðarins uppúr 1950. Mönnum sem ekki fengu lóðir í Reykjavík vegna þess að við vorum flestir róttækir mjög, og skorti bláa félagsskírteinið. Ég fullyrði að þú varst okkar allra mestur fagmaður. Enda hillur þínar fullar fagrita í þínum geira. Við byggðum hús hlið við hlið, sólu mót í huga og sinni. Bláeygðir glókollar léku sér í hlaðvörpum. Þetta var á vori lífsins. Við fundum okkur baráttuvettvang með Finnboga Rút og Huldu konu hans. Félagslíf blómstraði. Konur okkar kynntust í Húsmæðraskólanum á Akureyri, það var upphafið að okkar samstarfi í áratugi. Saman áttum við hlut í „Rafgeislahitun“, sem þú varst sérfræðingur í. Sem ég lít um öxl er tíminn sem leiftur. Leiftur sem erfitt er að skilgreina. Og enn nú erfiðara að höndla. Ég tek mér það bessaleyfi að mæla fyrir tungu okkar allra félaganna, genginna sem uppistandandi, og þakka þér samfylgdina í þessum hverfula heimi. Megi sá er tunglið skóp, sólina og endilanga vetrarbrautina fagna sínum syni eftir Jakobsglímuna miklu.

Sigurður

Sigurðarson.