Mæðgur Svanhvít Magnúsdóttir og Jóhanna Lan eiga heiðurinn af bókinni Orkidea og ævintýri orðanna.
Mæðgur Svanhvít Magnúsdóttir og Jóhanna Lan eiga heiðurinn af bókinni Orkidea og ævintýri orðanna.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Malín Brand malin@mbl.is Bókin Orkidea og ævintýri orðanna kom út í nóvember síðastliðnum. Þar lýsa mæðgurnar Svanhvít Magnúsdóttir og Jóhanna Lan hvernig kenna má börnum að lesa með ýmsum hætti.

Malín Brand

malin@mbl.is

Bókin Orkidea og ævintýri orðanna kom út í nóvember síðastliðnum. Þar lýsa mæðgurnar Svanhvít Magnúsdóttir og Jóhanna Lan hvernig kenna má börnum að lesa með ýmsum hætti. „Mig langaði til að hvetja foreldra til að vera virkir þátttakendur í lestrarnámi barna sinna,“ segir Svanhvít.

Kennsla í þrjátíu ár

Það er óhætt að segja að Svanhvít hafi töluverða reynslu í kennslu því hún hefur bæði starfað sem kennari og skólastjóri í þrjátíu ár og notast við óhefðbundnar aðferðir. Fyrst kenndi hún heyrnarskertum börnum í tíu ár, næstu átta árin var hún skólastjóri í litlum sveitaskólum og þar á eftir á Akureyri. Núna er hún hins vegar að læra jarðfræði við Háskóla Íslands.

Dóttirin fannst í vegarkanti

Jóhanna Lan, dóttir Svanhvítar, leikur stórt hlutverk í bókinni. Meðal annars er nafnið á sögupersónunni, Orkidea, komið frá henni.

Þegar Svanhvít var 47 ára gömul var Jóhanna Lan ættleidd. Það var árið 2002. Jóhanna Lan fæddist í Kína árið 2001.

„Þegar hún var þriggja mánaða gömul fannst hún í vegarkanti í bambusskógi í borginni Sanshui í Suður-Kína. Þaðan var farið með hana á barnaheimili í borginni og henni gefið nafnið Lan. Þegar ég spurðist fyrir um nafnið Lan var mér sagt að það þýddi blóm, nánar tiltekið orkídea,“ segir Svanhvít.

Hún kallaði Jóhönnu oft Orkideu þegar hún var lítil og þannig varð nafnið á stelpunni í bókinni til.

Sagan af Orkideu

Bókin er byggð upp af stuttum sögum af stúlkunni Orkideu og móður hennar. Í byrjun bókar er Orkidea fjögurra ára gömul og bókinni lýkur þegar hún byrjar í skóla.

„Hún notar ritun fyrst áður en hún getur lesið og lærir þannig bókstafi. Bókin lýsir samvinnu Orkideu og mömmu hennar og hvernig þær fara í gegnum þetta ævintýri, þegar barn byrjar að lesa og skrifa,“ segir Svanhvít. Ævintýrið sjálft á rætur að rekja til þess þegar mæðgurnar Svanhvít og Jóhanna tókust á við þetta verkefni á sínum tíma og eru öll rithandarsýnishorn eru gerð af Jóhönnu Lan.

Áhugasöm börn

Svanhvít segir að börn séu oft mjög áhugasöm um að skrifa, jafnvel þó að áhugi á lestri hafi ekki alveg vaknað.

„Það er eitthvað spennandi við það að reyna að skrifa. Jafnvel þó að þau kunni ekki alla stafina lærast þeir við þessar tilraunir.“

Hún segir ennfremur að það sé á færi flestra foreldra, óháð menntun, að sýna áhuga á lestrarferli barnanna og því sem þeim liggur á hjarta.

„Að læra að lesa og skrifa er merkilegur áfangi. Það skiptir ekki öllu máli hvenær börn verða læs heldur að þetta verði góður tími og mikið ævintýri,“ segir Svanhvít Magnúsdóttir um bókina góðu. Nánari upplýsingar um bókina er að finna á Facebook-síðu hennar og hér til hliðar má skanna qr-kóðann til að komast beint inn á síðuna.