Ragna Sigríður Gunnarsdóttir fæddist 20. október 1929 á Arnórsstöðum í Jökuldal, hún lést 15. janúar 2014.

Foreldrar hennar voru Benedikta Bergþóra Bergsdóttir húsfreyja, f. 8.6. 1885, d. 7.4. 1978, og Gunnar Jónsson, bóndi á Gilsá, f. 6.1. 1879, d. 3.3. 1964. Systkini Rögnu sammæðra voru Guðný Þorkelsdóttir, f. 1905, d. 1999, Sólveig Þorkelsdóttir, f. 1907, d. 1934, Jón Þorkelsson, f. 1908, d. 1908, Elín Margrét Þorkelsdóttir, f. 1909, d. 2003, Jón Þorkelsson, f. 1911, d. 1996, Bergur Þorkelsson, f. 1912, d. 1961, Sigríður Þorkelsdóttir, f. 1914, d. 1930, Jón Þorkelsson, f. 1916, d. 1916, Loftur Þorkelsson, f. 1917, d. 2012, Svanfríður Þorkelsdóttir, f. 1919, Guðrún Sigurbjörg Þorkelsdóttir, f. 1920, d. 2003, og Arnór Þorkelsson, f. 1921, d. 2005. Fyrri maður Rögnu var Sigurjón Pálsson, f. 7.5. 1921. Sonur þeirra er Gunnar Berg Sigurjónsson, f. 21.10. 1948. Gunnar giftist Elínu H. Egilsdóttur. Dætur þeirra eru Ragna Berg Gunnarsdóttir, f. 8.6. 1971, börn 1) Gunnar Geir Gunnlaugsson, f. 12.6. 1991, 2) Sveinbjörn Berg Knútsson, f. 9.2. 2000, og 3) Kristján Björn Knútsson, f. 11.1. 2005, og Aðalheiður Margrét Gunnarsdóttir, f. 19.7. 1975, Maki, Brynjólfur Gíslason, f. 14.12. 1972, börn þeirra 1) Böðvar Örn Brynjólfsson, f. 27.10. 2007, 2) Ólöf Brynjólfsdóttir, f. 31.5. 2010 og 3) Elín Sigríður Brynjólfsdóttir, f. 8.4. 2013. Áður átti Elín Aðalheiði Margréti Júlíusdóttur, f. 6.8. 1968, d. 8.2. 1974. Núverandi kona Gunnars er Sesselja Ólafsdóttir, f. 15.9. 1951. Börn hennar eru Ólafur Árnason, Sigrún Árnadóttir og Þorsteinn Árnason. Seinni eiginmaður Rögnu var Sveinbjörn H. Jóhannsson, f. 21.6. 1921, d. 26.11. 2007. Börn hans eru 1) Melkorka Sveinbjörnsdóttir, f. 4.1. 1945, maki, Ingvi Birkis Jónsson, f. 22.9. 1943, d. 20.11. 2008, 2) Jón Gestur Sveinbjörnsson, f. 4.5. 1948, maki, Sigurást Karelsdóttir, f. 26.6. 1942. Ragna gekk í farskóla tíu mánuði alls í Jökuldalshreppi. Hún gekk einn vetur í unglingaskóla á Eskifirði, var tvo vetur í Héraðsskólanum á Laugarvatni og sótti eitt sumarnámskeið í Reykjavík. Eftir fertugt fór hún á þrjú framsagnarnámskeið, eitt teikninámsskeið, vatnslitanámskeið, tvö enskunámskeið, tvö skrúðgarðanámskeið og tvö útskurðarnámskeið. Ragna var í Kvæðamannafélagi Hafnarfjarðar í 14 ár. Hún var ein af stofnendum Átthagasamtaka Héraðsmanna og mætti fyrir Jökuldælinga á fyrsta fund þeirra og var í fjáröflunarnefnd félagsins um árabil. Var frá byrjun í félaginu HanaNú í Kópavogi fyrir fólk sextíu ára og eldra sem stofnað var til undirbúnings ellinnar. Hún starfaði í bókmenntaklúbbi og gönguklúbbi félagsins, ásamt annarri starfsemi þess um árabil. Sjötug gekk Ragna í Félag eldri borgara í Kópavogi og var einn af stofnendum Nafnlausa leikhópsins á vegum þess félags. Hún brá sér í ýmis skemmtihlutverk til þess að fá fólk til að hlæja. Hún starfaði við ýmis verslunar, ræstingar- og verkamannastörf. Má þar nefna hjá Osta- og smjörsölunni, efnalaug, Þjóðleikhúskjallaranum, Frank Michelsen, Þroskaþjálfaskólanum, Kópavogsskóla og vann m.a. sem dagmamma. Einnig átti hún og rak kvöldsölu í Hafnarfirði.

Ragna var hagyrðingur og bjó til kvæði og ljóð við ýmis tilefni. Hún gaf út ljóðabækurnar „Bæði og“ árið 1986 og „Hvorki né“ árið 1999.

Útför Rögnu fer fram frá Digraneskirkju í dag, 23. janúar 2014, kl. 11.

Nú er Ragna móðursystir mín horfin á braut. Það er margs að minnast þegar einhver sem maður hefur þekkt alla ævi fellur frá. Ragna frænka var eina barn föður síns og yngsta barn Bergþóru ömmu sem hafði misst Þorkel mann sinn frá mikilli ómegð þegar yngsta barnið var aðeins á öðru ári. Gunnar mágur ömmu og faðir Rögnu kom þá til aðstoðar þannig að amma þurfti ekki að láta börnin frá sér.

Gunnar og Bergþóra amma héldu saman heimili þar til þau brugðu búi á Jökuldal en þá tók Ragna þau til sín þar sem hún bjó með fyrri manni sínum Sigurjóni og einkasyninum Gunnari Berg við Linnetsstíg í Hafnarfirði. Í skúr við húsið þar rak frænka sjoppu, það fannst okkur systkinabörnum hennar heppilegt og gott. Í minningunni fórum við fjölskyldan úr Akurgerðinu í heimsókn í Hafnarfjörð á hverjum sunnudegi. Fullorðna fólkið spilaði á spil og pabbi og Sigurjón tóku stundum í skák. Til að fullorðnir fengju frið vorum við Gunnar oft send í bíó en urðum að taka Guðrúnu systur með. Ég minnist þess aldrei að Ragna hafi skipt skapi við okkur, hún gerði grín að flestu og sagði í mesta lagi: „Eruð þið orðin vitlaus, krakkar“ við okkur Gunnar sem vorum eins og systkini að því leyti að við vorum sjaldan sammála.

Ragna var stundum fljótfær og varð bæði fótaskortur á tungu sem fæti. Hún hafði þá hæfileika að skemmta okkur hinum með því að lýsa óhöppum sínum og uppákomum þannig að allir hlógu, og hló hún oftar en ekki mest sjálf.

Við systkinin eigum ekkert nema skemmtilegar minningar um Rögnu. Eitt sem var ómissandi á mínum sokkabandsárum þegar leiðin lá oft í Glaumbæ var að fá Rögnu til að spá í bolla og segja manni hvort maður myndi hitta draumaprinsinn. Alltaf sá hún góðan mann í bollanum sem væri mjög bjart í kringum og hún sá líka alltaf barn í botninum. Hún spáði bara góðu og skemmtilegu en var ekkert að minnast á það sem hún hélt að við vildum ekki heyra. Til sannindamerkis benti hún á ýmis tákn í bollunum. „Sérðu þetta ekki manneskja“?

Ég verð Rögnu ævinlega þakklát fyrir að bjóðast til að passa börnin mín um tíma þegar mér bauðst vinna en hafði ekki leikskólapláss. Ekki er hægt að minnast Rögnu án þess að nefna Sveinbjörn seinni mann hennar. þau voru ólík en áttu svo undur vel saman, hann rólegur, traustur en brosti í kampinn þegar Ragna hló og sagði skemmtisögur. Það dofnaði yfir þegar hann féll frá.

Ragna var ágætlega hagmælt og hafði unun af að semja og flytja tækifærisvísur við ýmis tækifæri. Hún naut samveru með félögum sínum í Fannborg í Kópavogi á meðan hún bjó enn heima, en síðasta eina og hálfa árið var Ragna heimilisföst á Hrafnistu í Hafnarfirði. Þar bjuggu þær systur mamma og Ragna undir sama þaki en alla tíð hefur verið sterkt samband milli þeirra. Dætur Gunnars, Ragna og Aðalheiður, hafa verið ömmu sinni afar góðar og mikill styrkur, ekki síst hin síðari ár. Þær sinntu henni afar vel alla tíð. Ég og systkini mín vottum Gunnari og hans fólki samúð.

Bestu þakkir fyrir samfylgdina, frænka mín.

Helga Kr. Eyjólfsdóttir.

Nær fjörutíu og fimm ár eru liðin síðan ég hitti Rögnu og Sveinbjörn, þá sem nágranna tengdaforeldra minna. Mér varð fljótt ljóst að þar fóru mikil sæmdarhjón en mig grunaði ekki að þau ættu eftir að verða nágrannar mínir síðar meir og skipa mikilvægan sess í mínu daglega lífi. Mér fannst enda aldursmunurinn mikill, ég rúmlega tvítug og Ragna komin vel á fertugsaldur. En með tímanum lærist hversu afstæður aldurinn er, bilið minnkar eftir því sem fólk eldist.

Mörg undanfarin ár má segja að nær daglegt samband hafi verið á milli okkar Rögnu, iðulega voru útidyrnar opnaðar og það heyrðist kallað: „Maja! Er einhver heima?“ Ragna var þá komin til að heyra hvernig okkur liði, oft færandi hendi með pönnukökur eða leista sem hún hafði prjónað handa litlum börnum í fjölskyldunni. Þá myrkrið tók að hopa eftir langa vetur var vorboðinn ljúfi í garðinum á „ellefu“ næsta öruggt teikn um að sumar væri í nánd, Ragna komin út að hlúa að gróðrinum og reyta beðin.

Við fengum okkur sæti í blíðunni með kaffibolla og spjölluðum um alla heima og geima. Ragna var vel að sér og kunni ótal sögur af samferðafólki lífs og liðnu, hún sagði einstaklega skemmtilega frá með leikrænum tilþrifum enda vel gáfum gædd, var hún eftirsótt í flutning gamanmála og ljóða á fundum og samkomum. Við áttum margar dýrmætar stundir saman úti í garði, stundir sem varðveitast í minningu um kæra vinkonu. Stundum gengum við saman niður að læk en þangað og að tjörninni fór hún daglega síðustu árin, kisi rölti með henni og þau gáfu öndunum brauð. Hún sagði frá þessu hlæjandi, hún heyrði krakka kalla að þarna kæmi konan með köttinn og það brást ekki að kisi sæti rólegur við hlið hennar án þess að áreita fuglana.

Ragna var mikið náttúrubarn og dýravinur enda fædd og uppalin í sveit. Bústaðurinn hennar og Sveinbjörns fyrir ofan Elliðavatn var enda sveitin hennar árum saman þar til bæjarbyggðin þrengdi að og þau urðu að fara úr sælureitnum. Ragna samdi mikið af ljóðum og tækifærisvísum. Í ljóðum hennar mörgum eru fallegar náttúrulýsingar. Árið 1986 gaf hún út ljóðabókina „Bæði og...“ og þar birtist söknuður hennar til heimahaganna í ljóðinu „Fljótsdalshérað“:

Fljótsdalshérað, fagri friðarreitur,

fjöllin þín há með snæviþakta tinda,

beljandi ár í gljúfrum, græna skóga,

glampandi læki, suðu tærra linda.

Um grösugar hlíðar gróa blóm og lyng,

glampa sem spegill heiðarvötnin blá.

Hver sá, er sína æsku ól þér hjá,

sinn aldur í muna geymir fegurð þína.

Fljótsdalshérað, fagra æskubyggð

ég flyt þér innstu hjartanskveðju mína.

Lífið er fátæklegra án ljóðskáldsins og gáfukonunnar í næsta húsi, sem umfram allt var góð við menn og málleysingja, mátti ekkert aumt sjá og öllum vildi liðsinna. Hún naut þess að eiga góða fjölskyldu, einkar falleg og náin voru tengsl Rögnu við sonardæturnar Rögnu og Öllu og mikil og gagnkvæm væntumþykja var augljós. Ég og eiginmaður minn Hannes Sveinbjörnsson munum sakna Rögnu og vottum við og börnin okkar allri fjölskyldu hennar innilega samúð okkar.

María Louisa Einarsdóttir.