[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Var Jón þjófur? Er sjálfsbjargarviðleitni alltaf þjófnaður? Fer það ekki eftir því hvernig á það er litið?

AF LISTUM

Skapti Hallgrímsson

skapti@mbl.is

Gullna hliðið eftir Davíð Stefánsson frá Fagraskógi er gamalt verk, frumsýnt 1941, en aldeilis ekki gamaldags heldur sígilt. Vel er við hæfi að setja það á svið í vetur; í haust voru 40 ár síðan LA varð atvinnuleikhús og eftir fáeina daga verður liðin hálf öld frá andláti skáldsins, heiðursborgara Akureyrar.

Tímamót þarf raunar ekki til; ævintýrið stendur fyrir sínu, umfjöllunarefnið sígilt og vinnubrögðin nyrðra til fyrirmyndar. Uppsetning Egils Heiðars Antons Pálssonar og samstarfsmanna hjá Leikfélagi Akureyrar er allt í senn skemmtileg, falleg, fyndin og sorgleg – ævintýrið um Jón bónda og kerlinguna, baráttu góðs og ills, fyrirgefninguna, ástina. Ef til vill sjálfstæðisbaráttu manns eða þjóðar.

Greinilegt var, frumsýningarkvöldið, að áhorfendum líkaði vel. Þannig var skrafað í hléinu og í leikslok brast á með bravóum og húrrahrópum, mjög verðskuldað.

Hversu vondur var hann?

„Er hinum illa manni viðbjargandi?“ spurði Hannes Óli Ágústsson í samtali hér í blaðinu á dögunum. Hannes leikur karlfauskinn Jón, þann drykkfellda, synduga bóndadurg. „Margt gott getur verið í hinu illa og margt illt í hinu góða. Við leggjum töluverða áherslu á fyrirgefninguna í verkinu; er hægt að fyrirgefa hið ófyrirgefanlega? Er hægt að fyrirgefa þessum manni? Hversu vondur var hann í raun og veru?“ spurði Hannes og vangavelta þar um er verðugt verkefni.

Hversu vondur var Jón? Þrátt fyrir allt er ást kerlingar á honum svo heit að hún fórnar eigin sálarheill svo hann megi hljóta eilífa himnavist. Var hann þjófur? Er sjálfsbjargarviðleitni alltaf þjófnaður? Fer það ekki eftir því hvernig á það er litið?

Fólk er misjafnt, sem betur fer og margir ekki jafn slæmir og oft er talið. „Við erum öll breysk, en stilllum okkur misjafnlega vel,“ segir María Pálsdóttir sem kerlingin nafnlausa í verkinu. María fer sérlega vel með hlutverkið. Kona Jóns er óörugg og undirgefin framan af, en sýnir þegar á líður að hún er með bein í nefinu; gefst ekki upp þótt verkefnið sé ærið. Íslenska þjóðin að fornu og nýju? Spyr sá sem ekki veit.

Hannes Óli er mjög sannfærandi sem Jón, bæði lifandi og dauður, Aðalbjörg Þóra Árnadóttir bregður sér í sjö kvikinda líka og Hilmir Jensson annað eins og þau gera bæði vel.

Leikararnir fjórir taka allir á honum stóra sínum, bæði í túlkun og líkamlegu erfiði því leiðin til himna er torsótt; helst að Jón karlinn sleppi þokkalega, enda í skjóðu kerlingar. Líklega vel við hæfi að hún haldi á karli síðasta spölinn.

Þá er ógetið prýðilegrar tónlistar í verkinu. Jóhanna Vala Höskuldsdóttir og Sigríður Eir Zophoníasardóttir eru hljómsveitin Eva, spila og syngja afar fallega og fara að auki með nokkur smáhlutverk í verkinu. Ljóðin eru öll eftir skáldið frá Fagraskógi, sum flutt við kunn lög en einnig frumsamin og tónlistin fellur eins og flís við rass. Kemur og fer, nánast án þess að áhorfandinn verði hennar var á stundum. Englakór barnahóps er líka fallegur og mikilvægur.

Leikmynd Egils Ingibergssonar er sérlega flott. Einföld en flókin í senn, flekinn sem er kotbýlið í byrjun er einnig leiðin til himna og loks grundir við hið gullna hlið. Snilldarlausn. Egill hannaði líka lýsingu og Helga Mjöll Oddsdóttir búningana; þar fékk gamli tíminn að halda sér og hentaði vel. Egill Heiðar Anton Pálsson vakti mikla athygli norðanmanna í fyrra þegar hann leikstýrði Leigumorðingjanum – mjög góðri sýningu sem verðskuldaði mun meiri aðsókn en raunin varð – og ekki kæmi mér á óvart að Gullna hliðið hans verði ein eftirminnilegasta sýning LA í mörg ár. Óhætt er að hvetja fólk til að fjölmenna í leikhúsið. Landinn flykktist norður í leikhús fyrir nokkrum árum og nú er það orðið tímabært á ný! Kvöldstund í Samkomuhúsinu er vel varið.