Veldi „Við byrjum á að framleiða óaldrað viskí, svoallað „Moonshine“ sem við svo bragðbætum með ýmsum hráefnum. Þar með verður fyrsta áfanga viðskiptaáætlunarinnar náð og næsta skref að setja viskí á tunnur,“ segir Birgir.
Veldi „Við byrjum á að framleiða óaldrað viskí, svoallað „Moonshine“ sem við svo bragðbætum með ýmsum hráefnum. Þar með verður fyrsta áfanga viðskiptaáætlunarinnar náð og næsta skref að setja viskí á tunnur,“ segir Birgir. — Morgunblaðið/Þórður
Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is Birgir Már Sigurðsson viskíáhugmaður lagði af stað í pílagrímsför til Skotlands árið 2009.

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Birgir Már Sigurðsson viskíáhugmaður lagði af stað í pílagrímsför til Skotlands árið 2009. Í ferðinni rann upp fyrir honum hve aðstæður eru svipaðar á Íslandi og í Skotlandi og kviknaði þá sú hugmynd að framleiða íslenskt viskí.

Tæpum fimm árum síðar er sprotafyrirtækið Þoran Distillery ehf. (www.thoran.is) langt komið með að hefja eimingu. Þoran var valið í lokahóp verkefnisins Startup Reykjavík og varð einnig hlutskarpast í keppni Matís og Landsbankans um áhugaverða nýsköpun í matvælaframleiðslu. Um þessar mundir er Þoran að koma sér fyrir í kjallaranum hjá Matís og stutt í að eimingartækin verði gangsett.

Vatn, bygg og ...þekking?

„Við byrjum á að framleiða óaldrað viskí, svokallað „Moonshine“ sem við svo bragðbætum með ýmsum hráefnum. Þar með verður fyrsta áfanga viðskiptaáætlunarinnar náð og næsta skref að setja viskí á tunnur til öldrunar,“ útskýrir Birgir. Með honum starfa að verkefninu þau Bergþóra Aradóttir framkvæmdastjóri og Jóhannes Valberg sem er þróunarstjóri.

Möguleikar til viskígerðar hér á landi eru mjög áhugaverðir, að sögn Birgis. „Til að búa til gott viskí þarf umfram allt gott vatn og korn, t.d. bygg. Nóg er af hreinu vatni á Íslandi og byggrækt hefur verið að færast í aukana svo hráefnið er allt til staðar.“

Það eina sem vantar er sérfræðiþekkingin, því viskígerð kallar á vönduð handtök. „Við játum það fúslega að á Íslandi finnst enginn viskígerðarsérfræðingur, þó að sumir hafi gert tilraunir til viskígerðar í bílskúrnum heima hjá sér. Þar hjálpar okkur að mikill blómi er í viskígerðarheiminum um allan heim og auðvelt að sækja ráðgjöf og leiðsögn hjá smábruggurum erlendis. Höfum við t.d. átt í góðu sambandi við Kanadamanninn Ian Smiley sem rekur tvær litlar eimunarverksmiður og býr að 20 ára reynslu af viskígerð. Eins höfum við notið liðsinnis bandarísku viskígerðarinnar Batch 206 í Seattle.“

Rétt eins og míkró-brugghús hafa sprottið upp út um hvippinn og hvappinn síðustu áratugina hafa viskí-smáframleiðendur skotið upp kollinum víða. Bjórmenningin hérlendis og erlendis hefur verið auðguð af föndruðum bjórum sem gerðir eru í smáu upplagi af litlum framleiðendum og á sama hátt hefur viskíflóran auðgast með úrvali af viskíi sem bruggað er af ástríðu af smáum eimunarverksmiðjum sem skipta núna hundruðum. „Það gefur ágæta mynd af þróuninni að árið 2005 var hægt að finna um 50 smáframleiðendur á bandaríska viskímarkaðinum en í dag eru þeir ekki færri en 250 talsins,“ segir Birgir.

Vilji til að prufa

Þoran byggir viðskiptaáætlun sína ekki bara á því að gera góða vöru, heldur líka að njóta þeirrar jákvæðu ímyndar sem Ísland nýtur erlendis og eins virkja brennandi áhuga ört stækkandi hóps viskíunnenda á að prufa nýjar viskítegundir. „Ég þekki það vel á sjálfum mér að þegar leiðin liggur út í vínbúð langar mig að prófa nýja hluti. Ég kaupi kannski eina flösku af uppáhaldsviskíinu en svo líka aðra af einhverju nýju og áhugaverðu úr viskíhillunum.“