Guðmundur Magnússon fæddist 19. september 1934. Hann lést 4. janúar 2014. Hann var jarðsunginn 14. janúar 2014.

Elsku pabbi minn var búinn að vera veikur síðastliðin þrjú ár, hann þráði friðinn og vildi fara heim. Samt er svo erfitt að sætta sig við að sjá hann ekki lengur, en góðar minningar lifa í hjarta mínu. Ég bjó mjög lengi í sama húsi og foreldrar mínir í Glaðheimum. Glaðheimar voru æskuheimili mitt og bjó ég þar að mestu leyti til ársins 2006. Öll börnin mín hafa því fengið að vaxa þar upp og njóta þess að vera í nálægð við afa sinn og hann naut þess að vera í kringum þau því hann var mikill barnakarl. Mér fannst pabbi minn alltaf vera stór og sterkur maður, blíður og góður en samt ákveðinn þegar hann var búinn að taka ákvörðun. Hann var mikill dýravinur og gaf fuglunum oft, og stundum tók hann með börnin mín með til að gefa fuglunum. Pabbi var fæddur Vestamannaeyingur og fengum við systkinin bæði að heyra skemmtilegar sögur úr Eyjum og að heimsækja Eyjarnar með honum. Öll börnin mín hafa líka farið í ferðalag með okkur til Eyja og fengið kynningu frá pabba á staðnum sem okkur þótti svo vænt. Ég er þakklát fyrir þessar ferðir. Ég á eftir að sakna stóra og sterka pabba míns en hann er núna hjá Guði og líður vel.

Mig langar að ljúka þessum minningabrotum með hluta úr lagi sem pabbi minn söng oft fyrir mig þegar ég var lítil stelpa.

Litla, sæta, ljúfan góða,

með ljósa hárið.

Lætur blíðu brosin sín

bera rósailm og vín,

allar stundir út til mín.

Litla, sæta, ljúfan góða,

með ljósa hárið

fyrir hana hjartað brann.

Hún er allra besta stúlkan sem ég fann.

(Valgeir Sigurðsson.)

Elsku pabbi minn, hvíl í friði, við sjáumst síðar. Þín dóttir.

Guðrún Lilja Guðmundsdóttir