Gunnlaugur Eggert Briem fæddist á Sauðárkróki 8. nóvember 1922. Hann lést 1. janúar 2014 á hjúkrunarheimili Hrafnistu í Kópavogi.

Útför Gunnlaugs fór fram frá Bústaðakirkju 9. janúar 2014.

Elsku hjartans afi minn.

Ég er miður mín að geta ekki verið með þér á þessari kveðjustund. Í staðinn kom ég nýju lífi í heiminn þér til heiðurs. Kannski svona þarf ég þá bara alls ekki að kveðja, enda verður þú alltaf hluti af mér, þú átt alltaf þitt sérstaka pláss í mínu hjarta.

Ég fékk að vera hjá ykkur ömmu í Hellulandinu hálfa barnæsku mína og var tíður næturgestur hjá ykkur um helgar þegar mamma og pabbi voru að vinna eða eins og þú bentir á þegar þú spurðir mig „jæja, eru mamma og pabbi farin að djamma og djúsa?“ Og svo hlóstu eins og þú gerðir alltaf þegar þú varst viss um að brandarinn hefði hitt í mark.

Þessir tímar með ykkur mótuðu mig sem manneskju sem ég sé svo augljóslega núna. Ég fékk að vera með ykkur, í ykkar umhverfi í Hellulandi og í gróðursetningarkennslustundum uppi í Landi og læra um listir og bókmenntir, mikilvægi tungumála og ég er nokkuð viss um að áhugi minn á álfum og tröllum hafi komið frá þér, frá bókunum og málverkinu af álfabrennunni sem þér fannst alltaf svo gaman að spjalla um. Aldrei varstu svo meira stoltur af mér en þegar ég fékk 9,5 á þýskuprófinu sem þú undirbjóst mig fyrir.

Við áttum svo sérstakt samband og þegar Constantine hitti þig fyrst og sagði mér hvað honum þætti við áþekk í eðli og skapgerð var ég mjög upp með mér. Mér fannst ég hafa gert góðan hlut ef mér gæti svipað til þín. Rósemi þín, einbeitning og athygli sem þú veittir þeim sem þú áttir í samræðum við hverja stundina eru eiginleikar sem ég væri sannarlega stolt að geta haft frá þér.

Það er erfitt og skrítið að tala um þig í þátíð. Þið tvö hafið verið stöðugur partur í mínu lífi, alla mína tíð. Ég veit hvað ég er heppin og tek það ekki sem sjálfsagðan hlut. Þú varst lánsamur maður að hafa verið giftur henni ömmu minni. Hún lætur ekki mikið fara fyrir öllu því sem hún gerir en sjaldan hefur einn maður verið meira elskaður. Hún er klettur fyrir fólkið sem hún elskar og gaf þér allt sem hún á í heiminum fram á síðustu stund. Svona ást og umhyggja er mikill ljósgjafi í þessum heimi. Þú kenndir mér um bækur, en ekki bara um listina að binda bækur, áletranir, kápur og prentun eða hvernig þú náðir einhvern veginn alltaf að finna týndar blaðsíður en þú bentir mér alltaf sérstaklega á nöfnin í bókunum, fólkið sem átt hefur bókina í gegnum tíðina og ártölin og lagðir upp úr því að merkja mér bókina sem þú gafst mér. Barnalega skrifað nafn mitt fylgdi stórglæsilega bókamerkinu þínu sem þú lést hanna. Þú kenndir mér virðingu fyrir því sem fer fólks á milli og gildi þess. Alls þess sem við látum fara á milli okkar frá kynslóð til kynslóðar. Ég bið þess að þakklæti mitt fyrir hvern dag sem við áttum saman geti hjálpað að lýsa þér veginn heim, heim til foreldra þinna, á þann blíða og hlýja stað sem ég er viss um að hefur tekið á móti þér.

Ég er alltaf svo stolt af að vera afastelpan þín og dóttir mín fær að læra um þig, heyra sögurnar þínar um Aþenukvöldið og einhvern daginn fær hún svo að skrifa nafn sitt í bækurnar sem þú gafst mér.

Mér þykir svo vænt um þig, afi minn.

Aníta Briem.