Ísólfur Gylfi Pálmason
Ísólfur Gylfi Pálmason
Eftir Ísólf Gylfa Pálmason: "Það hefur þurft að flytja veikt fólk héðan um langan veg til þess að það komist í hjúkrunarrými. Frá ættingjum og því umhverfi sem það þekkir best."
Í flestum tilfellum getum við bæði verið stolt og glöð yfir að vera Íslendingar. Ótrúleg framþróun hefur átt sér stað á nær öllum sviðum mannlífsins hér á landi á til þess að gera stuttum tíma. Kynslóðin sem lagði grunninn að velmegun á Íslandi er komin á efri ár og spurningin er hvort við sinnum þeirri kynslóð nógu vel í nútímasamfélagi. Hér í sveitarfélaginu veitum við afslátt af fasteignagjöldum til ellilífeyrisþega og öryrkja sem búa í eigin húsnæði, við aðstoðum við slátt í görðum, veitum húshjálp o.fl. Stefnan er sú að fólk geti verið eins lengi á sínu heimili og mögulegt er, bæði íbúum og samfélaginu til heilla. Enginn má taka þessi skrif mín þannig að við séum að telja þessa þjónustu eftir, síður en svo. Gömul kona sagði við mig á dögunum: „Á meðan maður sinnir hinum daglegu verkum heldur það manni við efnið og í þjálfun.“ Það eru svo sannarlega orð að sönnu. En það getur komið að því hjá mörgum að geta ekki lengur verið á eigin heimili heilsu sinnar vegna og þá tekur í flestum tilfellum við hjúkrunar- eða dvalarheimili. Eðli dvalarheimilanna hefur breyst í tímans rás, fólk kemur eldra inn á heimilin og þá er heilsan oft farin að bila. Rekstur hjúkrunar- og dvalarheimila er samrekstur ríkis og sveitarfélags. Ríkið greiðir liðlega 700.000 kr. með hverju rými á hjúkrunarheimili og um kr. 300.000 fyrir dvalarheimilisrými. Þetta er grunnurinn af því að hægt sé að reka þessi heimili. Flestir rekstraraðilar kvarta undan því að þetta séu ekki nægar greiðslur. Velferðarráðuneytið dreifir hvíldar- og dvalarrýmum niður á stofnanir vítt og breitt um landið. Í okkar sveitarfélagi eru níu manns á biðlista eftir að komast inn á Hjúkrunar- og dvalarheimilið Kirkjuhvol. Sinn eftir sinn hefur þurft að flytja veikt fólk héðan um langan veg til þess að það komist í hjúkrunarrými. Burtu frá ættingjum og vinum og því umhverfi sem það þekkir best. Þetta eru í raun nútímahreppaflutningar sem eru þjóðfélagi okkar til skammar. Þetta er sjálfsagt það versta sem hægt er að bjóða veikburða gömlu fólki upp á, skapar óöryggi, kvíða og óhamingju. Þar er afar brýnt að bæta úr þessu. Eðlilega svíður eldri borgurum að þegar þeir þurfa loks á þjónustu að halda býður þetta kerfi ekki upp á hana. Þeir sem hafa lagt grunninn að velferð þjóðarinnar. Miðað við mannfjölda eru hjúkrunarrými óeðlilega fá hér í sveitarfélaginu. Í umfjöllun Morgunblaðsins um þetta málefni hefur komið fram að ónýtt hjúkrunarrými eru nokkur, eru þau ýmist ónýtt vegna plássleysis eða að ekki er þörf fyrir þau. Hér háttar þannig til að það er til húsnæði undir fleiri hjúkrunarrými. Sveitarstjórn Rangárþings eystra hefur verið í sambandi við ráðherra og forsvarsmenn velferðarráðuneytisins vegna þessa. Óskað hefur verið eftir að fá fjármagn til þess að fjölga hjúkrunarrýmum auk þess sem sótt hefur verið um til Framkvæmdasjóðs aldraðra um áframhaldandi uppbyggingu á Hjúkrunar- og dvalarheimilinu Kirkjuhvoli. Við trúum og treystum á velferðarráðherra, sem er gamalreyndur bæjarstjóri, til að finna lausn á þessum vanda. Áframhaldandi uppbygging Kirkjuhvols er afar brýn, auk þess sem við höfum verulega þörf fyrir fjölgun hjúkrunarrýma. Við getum ekki beðið lengur. Við viljum geta boðið öllum okkar íbúum úrvalsþjónustu og þannig getum við verið stolt og glöð yfir því að vera Íslendingar.

Höfundur er sveitarstjóri Rangárþings eystra.