Frumkvöðlar Í Húsi Sjávarklasans er frumkvöðla í sjávarútvegi minnst.
Frumkvöðlar Í Húsi Sjávarklasans er frumkvöðla í sjávarútvegi minnst.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
• Ný álma í Húsi sjávarklasans skapar aukin tækifæri til að efla samstarf fyrirtækja til að keppa af alvöru við stórfyrirtæki í skipasmíði, segir Þór Sigfússon, stofnandi klasans • Vöxtur tæknifyrirtækja í sjávarklasanum hefur verið...

• Ný álma í Húsi sjávarklasans skapar aukin tækifæri til að efla samstarf fyrirtækja til að keppa af alvöru við stórfyrirtæki í skipasmíði, segir Þór Sigfússon, stofnandi klasans • Vöxtur tæknifyrirtækja í sjávarklasanum hefur verið umtalsverður á síðustu árum eða 10-13% á ári • Nú standa fyrir dyrum endurbætur á skipum íslenskra útgerða sem nema einum til tveimur milljörðum á ári næstu ár

Baksvið

Helgi Vífill Júlíusson

helgivifill@mbl.is

Þór Sigfússon, framkvæmdastjóri Íslenska sjávarklasans, segir að með opnun nýrrar álmu í Húsi sjávarklasans hafi myndast tækifæri til að efla samstarf fyrirtækja sem séu í hönnun á hugbúnaði, hönnun skipa og skipaflutningum, sem gæti þýtt að hægt væri að keppa af alvöru við stórfyrirtæki í skipasmíði. Draumurinn sé að í framtíðinni verði skipsskrokkar án tæknibúnaðar keyptir frá löndum sem ná hvað mestri hagkvæmni í slíkri framleiðslu og hér á landi verði þau fyllt af íslenskum tækjum og tækjabúnaði. „Hér er ótrúlega fjölbreytt flóra af tæknifyrirtækjum,“ segir hann í samtali við Morgunblaðið og nefnir sem dæmi að þau hanni rafvindur, hlera, net og gæðakerfi. „Íslendingar verða aldrei fremstir í að framleiða skipsskrokka, en ef við vinnum saman getum við orðið sterk í að koma öllum búnaði fyrir í skipinu. Það er hægt að sérhæfa sig í því,“ segir Þór.

Í skýrslu sjávarklasans sem birt var í nóvember um hvort raunhæft sé að auka skipasmíði hér á landi, segir að Íslendingar myndu ugglaust feta svipaða leið og Norðmenn sem flytja inn skipsskrokka frá löndum sem eru mun samkeppnishæfari í málmsmíði en hlaða síðan skipin norskum tæknibúnaði. „Ef við náum að festa okkur í sessi sem öflug þjóð á þessu sviði kunna að skapast fleiri tækifæri til að sinna mun fleiri skipum sem sigla við Ísland og byggja upp þjónustu við skip í olíu- og gasiðnaðinum,“ segir í skýrslunni.

Vöxtur tæknifyrirtækja í sjávarklasanum hefur verið umtalsverður á síðustu árum eða 10-13% á ári, að því er segir í skýrslunni. „Athygli vekur að mikill vöxtur er í útflutningi á ýmsum tækjum og búnaði fyrir skip og vísbendingar eru um að tæknifyrirtæki á þessu sviði séu að eflast. Nú standa fyrir dyrum endurbætur á skipum íslenskra útgerða sem nema 1-2 milljörðum á ári næstu ár. Ákvarðanir íslenskra útgerðarfyrirtækja um val á tæknifyrirtækjum til að sinna þessum endurbótum ráða miklu um þróunina hérlendis. Takist samvinna milli íslenskra tæknifyrirtækja og útgerða í þessum efnum kunna íslenskar skipasmíðar að eflast til muna á komandi árum,“ segir í skýrslunni.

Fernt þarf til

Í skýrslunni segir að fernt þurfi til þess að byggja upp íslenskan skipasmíðaiðnað. Í fyrsta lagi: Íslensk útgerðarfyrirtæki verða að gefa íslenskum tæknifyrirtækjum færi á að bjóða þeirra lausnir. Slíkt efli allan sjávarklasann og auki skilning á mikilvægi sjávarútvegs sem undirstöðugreinar sjávarklasans.

Í öðru lagi: Íslensk tæknifyrirtæki verði að auka samstarf til að geta boðið heildstæðar lausnir. Í þriðja lagi: Skoða þurfi uppbyggingu á nútímalegri skipasmíðastöð sem standist samanburð við minni stöðvar í Evrópu. Í fjórða lagi: Ríkisvaldið þurfi að tryggja að íslensk tæknifyrirtæki sitji sem mest við sama borð og tæknifyrirtæki frá öðrum löndum í sambandi við skatta og gjöld og aðrar ívilnanir í skipasmíði.

Íslensk fyrirtæki á þessu sviði hafa mörg hver stækkað og styrkt stöðu sína á alþjóðamarkaði. Má nefna fyrirtæki eins og NaustMarine sem hannar og selur rafvindur, skipahönnunarfyrirtæki á borð við Navis, Skipatækni og Skipasýn, 3X Technology og ýmis önnur tæknifyrirtæki sem bjóða fiskvinnslulausnir í skip og svona mætti lengi telja. Auk þess hafi íslensk bátasmíði færst í vöxt og fyrirtæki á borð við Trefjar og Seiglu selja íslenska báta undir 15 metrum að lengd á alþjóðamarkaði, segir í skýrslunni.

Aukið markaðssókn

Það sem einkennir mörg tæknifyrirtæki á þessu sviði er að þau hafa aukið markaðssókn erlendis og starfsmönnum hefur fjölgað nokkuð. Þau uxu umtalsvert bæði árin 2010 og 2011 en örlítið hægði á vextinum árið 2012. „Útflutningur á tækjum og búnaði í skip var um 1,8 milljarðar króna árið 2010, ætla má að veltan hafi numið 2,5-2,6 milljörðum króna árið 2011 en það er rösklega 40% aukning milli ára. Árið 2012 varð veltuaukningin lítil,“ segir í skýrslunni. Hún var skrifuð í nóvember, líkt og áður segir, og þá virtist skýrsluhöfundum að árið 2013 yrði metár hjá fyrirtækjunum „og ræður þar mestu um útflutning vinnslutækni og endurnýjun búnaðar fyrir erlend skip hjá Slippnum á Akureyri. Þá hefur velta innanlands aukist nokkuð og þá sérstaklega varðandi vinnslulínur um borð í skipum.

Nú standa fyrir dyrum umtalsverðar fjárfestingar íslenskra útgerðarfyrirtækja í skipum. Í mörgum þeirra skipa, sem útgerðir hafa tilkynnt um kaup á, er gert ráð fyrir gagngerum endurbótum og tæknivæðingu. Flest stærri skipanna þurfa á endurbótum að halda sem skipta hundruðum milljóna og því er mikið í húfi fyrir íslenska tæknigeirann að krækja í þessi verkefni. Ætla má að velta í þessum endurbótum nemi að minnsta kosti 1-2 milljörðum á ári næstu ár“, segir í skýrslunni.

Klasar eru samstarfsvettvangur

Klasar eru í raun samstarfsvettvangur fyrir fyrirtæki, sem tengjast tiltekinni atvinnugrein, í þessu tilviki sjávarútvegi, sem er grunnatvinnuvegur Íslands. Tengingar, sem slíkur samstarfsvettvangur kemur á, geta skipt sköpum. Fyrirtækin hjálpa hvert öðru, t.d. með því að benda viðskiptavinum sínum á hvert annað og það hefur margföldunaráhrif. Þá verða gagnkvæm skoðanaskipti og miðlun reynslu oft til þess að skapa ný tækifæri.

Fiskur er útflutningsvara, en hérna hafa einnig sprottið upp þekkingarfyrirtæki sem þjónusta útgerðirnar. Þau hafa þróað tækni og þjónustu fyrir sjávarútveginn, sem nú er orðin sérstök útflutningsvara. Mörg fyrirtæki, sem slitu barnsskónum við að þjónusta útgerðirnar hér á landi, hafa þróast á þann veg að núna telur íslenski markaðurinn einungis lítinn hluta af veltu þeirra. Þau hafa því orðið öflug útflutningsfyrirtæki.

Heildarumsvif sjávarklasans á Íslandi vaxa annað árið í röð og mælast nú 28,4% af landsframleiðslu samkvæmt rannsókn Íslenska sjávarklasans og sagt var frá því í fréttum í október. Sjávarklasinn í heild stendur undir um 25-35 þúsund störfum eða 15-20% vinnuafls. Útflutningsverðmæti sjávarafurða nam 269 milljörðum 2012.

Ný álma í Húsi Sjávarklasans

Um þessar mundir fjölgar undir þaki Sjávarklasans á Grandagarði en ný álma hefur verið tekin í notkun og 17 rými bætast við. Fjórtán þeirra hafa þegar verið leigð út og yfir 30 fyrirtæki hafa nú komið sér fyrir á annarri hæðinni í Bakkaskemmu, þar sem áður var trolldeild Hampiðjunnar. Fjölbreytt fyrirtæki með ólíkan bakgrunn sem öll tengjast sjávarútvegi hafa komið sér fyrir í Húsi Sjávarklasans, þar á meðal útibú frá Marel.

Þór Sigfússon, framkvæmdastjóri Íslenska sjávarklasans, segir að í ljós hafi komið að svo mörg fyrirtæki, sem hafi komið sér fyrir í Húsi Sjávarklasans, telji að þetta nána samfélag sem hafi myndast í húsinu, gagnist þeim vel, jafnvel þótt fyrirtækin séu ólík og takist á við ólík verkefni í þessum nýja sjávarútvegi. Sum séu í frumvinnslu og vinnslu, önnur t.d. í lyfjahugmyndum eða snyrtivörum. „Þessi tenging hefur leitt til þess að það var mun auðveldara að fylla þetta hús,“ segir hann.

Allt að 250 milljarða aukning

„Það er vel raunhæft að íslensk fyrirtæki í sjávarútvegi og tengdum greinum, sem við köllum einu nafni „sjávarklasi“, geti aukið veltu sína um allt að tvö hundruð og fimmtíu milljarða á næstu tíu árum. Til þess þurfa þó fjárfestingar í nýsköpun að aukast umtalsvert. Í nýlegri skýrslu frá Nordic Innovation kemur fram að nýsköpunarfjárfesting þurfi að aukast um 30 milljarða á ári svo að Ísland sé samanburðarhæft við Norður-Ameríku. Augljósasta leiðin til þess að auka nýsköpun í sjávarklasanum er að bjóða sjávarútvegsfyrirtækjum að greiða umtalsvert lægra veiðileyfagjald ef þau fjárfesta í nýsköpun og tækni,“ segir í skýrslu frá Sjávarklasanum.

Þar eru er ýmis tækifæri nefnd til sögunnar; fiskmjöli verði í auknum mæli breytt í fæðubótarefni, lífvirk efni hafsins nýtt, slógi breytt í verðmæti, tæknivæðing aukin, á Íslandi gerð þjónustuhöfn á Norður-Atlantshafi, að íslensk fyrirtæki veiti erlendum sjávarútvegi ráðgjöf, fiskeldi eflt og fjárfest í meira mæli í sjávarútvegi til að auka verðmætasköpun.

Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri útgerðarinnar Vísis í Grindavík, sagði í janúar á síðasta ári í opnuviðtali við Viðskiptablað Morgunblaðsins, að tækifærin í sjávarútvegi í framtíðinni lægju ekki í fiskveiðum heldur hámenntuðu starfsfólki sem ynni við að þróa vörur úr sjávarfangi.