Hjörtur Einarsson fæddist 31. desember 1918 í Neðri-Hundadal í Dalasýslu. Hann lést 23. desember 2013 í Silfurtúni í Búðardal.

Útför Hjartar fór fram frá Kvennabrekkukirkju í Dalabyggð 3. janúar 2014.

Mig langar að minnast föður míns, Hjartar Einarssonar, í nokkrum orðum.

Þegar hann er fallinn frá myndast tómarúm sem við fjölskyldan reynum að fylla með góðum og hlýjum minningum. Nóg er af þeim, þær raðast eins og myndasería í huganum; pabbi að gefa fénu, að marka lömbin, hann á Land Rovernum, pabbi að lesa á köldum vetrarkvöldum í lopapeysu og lopasokkum, pabbi á hestbaki á Rauð og pabbi að kenna okkur að botna vísur. Nóg er að minnast andartaks og þá hlýnar manni um hjartarætur.

Ein af fyrstu minningunum mínum er að ég er úti að skottast í kringum pabba í búskapnum og aldrei var ég fyrir. Margar stundir man ég þar sem ég laumaði lítilli hendi í hlýjan lófa og gekk með pabba út í haga að athuga girðingar, í fjárhúsin að fylgjast með lambfénu eða annað þvíumlíkt og pabbi hummaði lagstúf og kreisti höndina annað slagið. Það var líka afskaplega gott að sofna hjá pabba, kúra sig alveg upp við hann og festa svefn í hlýjunni frá honum. Í lífinu er gott að hafa fólk sem missir aldrei sjónar á því sem skiptir máli. Pabbi var þannig maður, hann var kletturinn í lífi mínu. Það finnur maður sérstaklega þegar hann er farinn, hvað hann var sterkur. Það var nokkurn veginn sama hvað var, pabbi hafði skýra sýn á tilveruna og var alltaf svo æðrulaus. Eins var hugur hans svo vakandi, sívakandi, alltaf að hugsa um landsins gagn og nauðsynjar en líka um boðskap Biblíunnar og fagnaðarerindisins. Ein af mörgum minningum sem standa upp úr eru hvíldardagarnir, þegar pabbi og mamma höfðu litla helgistund með okkur krökkunum, við lásum ritningarvers saman, sungum sálma og báðum saman. Þetta voru notalegar og uppbyggilegar stundir sem höfðu góð áhrif á okkur sem fjölskyldu, tengdu okkur enn betur saman. Það var líka gaman af því að þannig brutu þau upp hversdaginn. Þegar árin liðu varð pabba hjartfólgnara að tala við okkur um fagnaðarerindið, að Jesús Kristur skipti öllu máli og hvað hann hafi gert fyrir okkur. Fyrir nokkrum árum voru pabbi og mamma hjá okkur Axel yfir svartasta skammdegið. Á gamlárskvöld eitt árið spiluðum við vist sem ég hafði aldrei spilað áður við foreldra mína. Það er skemmst frá því að segja að kvöldið varð eitt skemmtilegasta gamlárskvöld eða nýársnótt öllu heldur sem ég man eftir. Pabbi kunni þá list að spila og var með pókersvip allan tímann og flautandi og mamma kunni allar reglurnar eins og ekkert væri. Það þarf svo sem ekki að segja frá því en við hjónin töpuðum fyrir þeim. Það var afskaplega gott að hafa þau hér heima, alltaf svo yfirveguð og róleg og það fylgdi þeim friður. Það var gaman að fara með þeim að keyra um sveitirnar og skoða hina ýmsu staði og fara með þeim í heimsóknir. Pabbi var svo fróðleiksfús, hann las sér til um þá staði sem við heimsóttum og sagði okkur svo frá.

Minningarnar eru miklu fleiri en ég læt hér staðar numið. Við bíðum örugg í þeirri vissu að hitta pabba á ný á efsta degi.

Elsku mamma, Guð gefi þér huggun og blessi minningu pabba.

Signý Harpa

Hjartardóttir.

Það sárt að missa góðan ástvin. Faðir minn var búinn að vera veikur. Ég ætlaði að fara milli jóla og nýárs að heimsækja pabba og mömmu, en mér var sagt að það væri ekki góð veðurspá, og pabbi væri mjög veikur. Ég og mín fjölskylda fórum til þeirra 22. desember í mjög góðu veðri. Pabbi var hress að sjá. Það var gott að kveðja hann svona hressan. Presturinn okkar kom til þeirra, las og bað með þeim. Pabbi lagði hendur saman til að biðja. Pabbi var trúaður maður. Biblían var lesin á hverjum degi. Það eru forréttindi að alast upp á slíku heimili. Við tókum einn dag frá í hverri viku til að rannsaka ritninguna og til að slaka á, það er að segja á laugardögum sem var okkar hvíldardagur. Þá fórum við í bíltúr eða sund með alla þá sem voru hjá okkur, og tókum nesti með okkur. Þetta voru ógleymanlegar stundir. Og á þessu lifi ég. Það er nauðsynlegt að taka frá einn dag í hverri viku til hvíldar frá daglegu amstri, það gerir manni bara gott.

Pabbi var fæddur og alinn upp í sveitinni og vildi hvergi annars staðar vera. Enda er gott að vera í hreinu lofti og fögru umhverfi. Hann hafði ætíð nóg að gera í öllum þessum nefndum og fundum, það voru hans áhugamál. Það var oft mikið um gesti heima og var það gaman. Pabbi elskaði íslenska lambakjötið og smjörið og sagði það vera hollan og góðan mat. Ég hef reynt að búa til vísur eins og pabbi gerði:

Í smalamennsku fórum við

í slæmum, góðum veðrum.

Hás og þreytt komum við

og gettu hvað við gerðum.

Í svanginn allir fá sér nú

eithvað gott að borða.

Af fjöllunum kemur þú

og færð kjötsúpu að borða.

Nú bíð ég eftir því að Jesús komi að sækja alla þá sem hafa tekið við honum í trú, og þá get ég hitt pabba aftur. Það verða fagnaðarfundir að fá að hitta ástvini sína aftur. Mamma, nú verðum við að vera dugleg að heilsa upp á þig oftar.

Blessuð sé minning hans.

Kristín Lára Hjartardóttir.