Nýuppgerð vél Helgi Rafnsson, flugvirki, við flugvélina TF-MEY, sem hefur verið endurbyggð.
Nýuppgerð vél Helgi Rafnsson, flugvirki, við flugvélina TF-MEY, sem hefur verið endurbyggð. — Morgunblaðið/Þórður
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þórður A. Þórðarson thordur@mbl.is Helgi Rafnsson, flugvirki og spilmaður hjá Landhelgisgæslunni, hefur unnið að því undanfarið að gera upp gamla flugvél. Nefnist flugvélin TF-MEY og er af gerðinni Piper PA-28-180 Cherokee.

Þórður A. Þórðarson

thordur@mbl.is

Helgi Rafnsson, flugvirki og spilmaður hjá Landhelgisgæslunni, hefur unnið að því undanfarið að gera upp gamla flugvél. Nefnist flugvélin TF-MEY og er af gerðinni Piper PA-28-180 Cherokee.

Alls hafa 37 Piper PA-28 verið skráðar á Íslandi og kom sú fyrsta árið 1964. TF-MEY var fyrst smíðuð árið 1966, en hún kom til landsins árið 1974. Henni var flogið mikið í kennsluflugi fram til ársins 1988, er henni hlekktist á í flugtaki við Dagverðará, þar sem hún rann fram af flugbrautinni.

Helgi segir að það hafi tekið hann um fjögur ár í hjáverkum að gera flugvélina upp. Meðal annars var skipt um botn á vélinni og annar vængurinn smíðaður frá grunni auk flapsa og hallastýris. Einnig var mótorinn gerður upp, en hann er 180 hestöfl. Ný innrétting og mælaborð voru svo sett í vélina.

Helgi hefur flogið flugvélinni í um klukkutíma eftir að endursmíðinni lauk en nú taka við flugprófanir í 25 tíma áður en að vélin fær fullt leyfi. Fyrstu fimm tímana verður Helgi að fljúga vélinni einn, en næstu 20 tíma má flugréttindamaður koma með. Eftir það má hver sem er þiggja far.

Flugvélin er skráð sem „experimental“ sem mætti þýða sem heimasmíði. Til þess að flugvél fái slíka flokkun þarf að endursmíða 51% af henni eða meira. Er þetta í fyrsta skipti á Íslandi að vél sem er hálf skellaga og úr áli, er smíðuð upp að svo miklu leyti. Algengara er að vélar með svonefndri turnlaga byggingu séu gerðar upp. Það eru dúklagðar flugvélar og er sú algengasta Piper Cub sem margir þekkja.

Helgi var mjög ánægður með fyrsta flugið eftir endursmíðina og sagði hann að það kæmi á óvart hversu hratt vélin gæti flogið.