[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Helgi Bjarnason helgi@mbl.is „Menn mæta með reynda keppnishesta og nýjar stjörnur.

Sviðsljós

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

„Menn mæta með reynda keppnishesta og nýjar stjörnur. Knapar eru að prófa nýja hesta fyrir mót og sýningar komandi tímabils, ekki síst á landsmótsári,“ segir Linda Björk Gunnlaugsdóttir, úr stjórn Meistaradeildar í hestaíþróttum. Mótaröðin hefst í kvöld í endurbættri aðstöðu í Ölfushöllinni í Íslenska hestagarðinum Fákaseli í Ölfusi.

Átta fjögurra manna lið keppa í meistaradeildinni, þau sömu og á síðasta ári. Hins vegar hafa orðið talsverðar mannabreytingar. Nefna má að ungar og efnilegar konur koma nýjar inn í tvö lið, þær Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir í lið Ganghesta / Málningar og Eyrún Ýr Pálsdóttir í lið Hrímnis / Export hesta. Aldursforseti deildarinnar í ár verður Erling Ó. Sigurðsson, 71 árs gamall skeiðmeistari, sem kemur nýr inn í lið Gangmyllunnar.

Lengi langað að taka þátt

Meistaradeildin er liða- og einstaklingskeppni. Lið Top Reiter / Ármóta sigraði í fyrra og liðsstjórinn, Guðmundur Björgvinsson, vann einstaklingskeppnina. Liðið keppir nú undir merkjum Top Reiter / Sólningar og kemur sigurstranglegt til leiks. Verðugir áskorendur eru í öðrum liðum auk þess sem þrír öflugir knapar hafa gengið til liðs við Spón.is / Heimahaga. Það eru Guðmar Þór Pétursson sem lengi hefur starfað í Ameríku, Ísólfur Líndal Þórisson og Leó Geir Arnarson.

„Mig hefur langað til þess í mörg ár að taka þátt. Nú er ég kominn með fleiri góða hesta og er með fína hesta í öllum greinum,“ segir Ísólfur Líndal sem tekur nú í fyrsta skipti þátt í meistaradeildinni. Hann hefur tekið þátt í KS-deildinni fyrir norðan frá upphafi.

„Mér finnst áhugavert að kynnast nýju fólki og skemmtileg tilbreyting,“ segir Ísólfur. Hann rekur hestabúgarð á Lækjarmóti í Víðidal með fjölskyldu sinni og þarf því að aka suður með hestana. „Ég er með stóran vagn og tek marga hesta með mér og þjálfa hérna fyrir sunnan. Það þarf margt að koma til svo dæmið gangi upp. Guðmar staðarhaldari lánar mér pláss og konan mín þjálfar hestana sem eftir eru heima.“

Keppnin verður með svipuðu fyrirkomulagi og áður. Keppt verður á fimmtudagskvöldum með hálfs mánaðar millibili, nema hvað skeiðkeppnin fer fram á laugardegi og lokakvöldið á föstudegi. Bein útsending verður frá allri keppninni á Stöð 2 sport og á Netinu.

Liðin verða kynnt til leiks klukkan hálf sjö í kvöld og keppni í fjórgangi hefst klukkan sjö.

Hestaleikhús sett á fót

„Þetta er skapandi og um leið gefandi verkefni sem skemmtilegt hefur verið að takast á við,“ segir Guðmar Þór Pétursson, höfundur og leikstjóri hestasýningarinnar sem verið er að undirbúa í Íslenska hestagarðinum Fákaseli í Ölfusi. Fyrsta sýningin verður í byrjun næsta mánaðar og er stefnt að fimm sýningum í viku.

Aðstaðan á Ingólfshvoli hefur verið að taka breytingum frá því nýir eigendur tóku þar við. Meðal annars hefur veitingastaðurinn verið tekinn í gegn og stækkaður og eldhúsið jafnframt endurnýjað. Þá er KronKron að setja þar upp minjagripaverslun. Risaskjá hefur verið komið fyrir á vegg reiðhallarinnar, á móti áhorfendasvæðinu, og sett upp betri lýsing og aðstaða til að stýra tækninni.

Guðmar hefur notið aðstoðar leikhúsfólks og kvikmyndagerðarfólks til að setja upp hestasýninguna enda segist hann vera að búa til fyrsta hestaleikhúsið á Íslandi. „Íslenski hesturinn verður í aðalhlutverki og er markmiðið að draga fram sem flestar hliðar hans.“

Guðmar Þór er jafnframt aðstoðarframkvæmdastjóri Íslenska hestagarðsins. Hann vonast til að Fákasel verði góður áningarstaður fyrir ferðafólk, jafnt innlent sem erlent.