Ólafur F. Magnússon
Ólafur F. Magnússon
Eftir Ólaf F. Magnússon: "... eru þessar hugmyndir ýmist óraunhæfar frá umferðarsjónarmiðum eða óæskilegar frá umhverfis- og náttúruverndarsjónarmiðum."

Áratuga gamlar hugmyndir um þverun Skerjafjarðar með brú frá Suðurgötu yfir á Álftanes og vegalagningu meðfram norðurströnd Álftaness, hafa verið endurvaktar í tengslum við borgarstjórnarkosningar í vor. Þessar hugmyndir fengu mikinn byr í valdatíð R-listans í borginni vegna óraunsærra hugmynda vinstri manna um ofurþéttingu byggðar í miðborginni, ásamt byggð í stað flugvallar í Vatnsmýri með tilheyrandi umferðaröngþveiti.

Vinstri menn og sumir sjálfstæðismenn hafa rætt um landfyllingar víða í vesturborginni á undanförnum árum, ásamt fyrirhugaðri gerð mikilla undirganga um miðborgina. Í stuttu máli sagt eru þessar hugmyndir ýmist óraunhæfar frá umferðarsjónarmiðum eða óæskilegar frá umhverfis- og náttúruverndarsjónarmiðum.

Skerjafjörðurinn er náttúruperla

Eins og Seltirningar, Reykvíkingar, Kópavogsbúar, Garðbæingar og Álftnesingar þekkja, er meira eða minna ósnortin strandlengja meðfram Skerjafirðinum í þessum sveitarfélögum. Fagurt er strandríkið, þegar gengið er frá Seltjarnarnesi inn með Nauthólsvíkinni, en enn fegurri eru norðurstrendur Álftaness. Sannkallaður unaðsreitur og fuglaparadís og ósnortið Gálgahraunið í grennd. Rétt er að benda á, að vegarlagning meðfram norðurströnd Álftaness felur í sér hrikaleg og margfalt meiri náttúruspjöll en vegarlagning milli hraunanna norðan Prýðishverfis í Garðabæ, Garðahrauns og Gálgahrauns. Vegarlagning milli þessara tveggja hrauna skerðir útivistarsvæði norðan Prýðishverfis og mun valda hávaðamengun fyrir íbúana. En að bera þá umhverfisröskun saman við vegarlagningu meðfram norðurströnd nessins er út í hött. Því vil ég hvetja alla náttúruverndarsinna, þ.ám. Hraunavini sem og allan almenning, til að beita sér af alefli gegn vegarlagningu um Álftanes yfir Skerjafjörðinn. Til þess að hægt sé að forðast það umhverfisslys er nauðsynlegt að hverfa frá ofurbyggðarþéttingarstefnu og flugvallarandstöðu núverandi borgarstjórnarmeirihluta í Reykjavík.

Göngustígur frá Bessastaðanesi til Seltjarnarness?

Líklega er draumurinn um samfelldan göngustíg meðfram fjöruborði Skerjafjarðar frá Seltjarnarnesi til Bessastaðaness ekki raunhæfur. Auðvelt væri að leggja slíkan göngustig frá Bessastaðanesi að Sjálandshverfi, sem myndi auka aðgengi almennings að þeirri náttúruparadís sem Álftanesfjörur eru, og efla vitund hans um verðmæti þeirra. Við Löngulínu í Garðabæ er blokkabyggð á landfyllingum, en þaðan er auðvelt að leggja stíg að suðurströnd Arnarness. Ekki er hægt að leggja stíg meðfram norðurströnd Arnarness, þar sem byggðin nær niður að fjöruborði. Göngustígar eru að sunnan- og norðanverðu á Kársnesinu í Kópavogi, en landfyllingar og iðnaðarsvæði hindra gerð samfelldra göngustíga meðfram sjónum. Ég tel, að með hugvitssemi megi tengja þessa stíga eða gönguleiðir þannig, að náttúruunnendur á höfuðborgarsvæðinu geti varið fögrum sólskinsdegi til að ganga meðfram Skerjafirðinum og einsett sér að vernda þá náttúru, sem þeir munu þá kynnast! Við þekkjum flest göngustíginn frá Ægisíðu til Heiðmerkur um Elliðaárdalinn og við þekkjum Vatnsmýrina, lífríki tjarnarinnar og flugvöllinn. Verndun þessara svæða helst í hendur við verndun Skerjafjarðarins og almannahagsmuni. Það sama á við um norðurströnd Álftaness. Síðast en ekki síst, þá er ósnortin fjara með gönguleiðum við Leirvoginn til fyrirmyndar í þessum efnum. Þar hefur ríkt sú framsýni, sem núverandi borgaryfirvöld í Reykjavík skortir svo átakanlega.

Höfundur er læknir og fv. borgarstjóri.