Dagný Ösp Runólfsdóttir fæddist 20. janúar 1992. Hún lést 30. desember 2013. Útför Dagnýjar Aspar fór fram 10. janúar 2014.

Kæra Dagný.

Þú komst inn í líf okkar fyrir rúmum fimm árum þegar þú fórst að koma á heimilið til að heimsækja Þráin. Það var okkar lukka að fá að kynnast þér, elsku Dagný. Alltaf komstu geislandi glöð og brosandi. Það var ótrúlega gott að eiga þig að. Þú varst elskuleg og hjálpsöm. Þegar fermingaveisla var í húsinu hjálpaðir þú til, ef Þráinn þurfti að leysa af í búskapnum skelltir þú þér með honum í verkin og ef líta þurfti eftir yngri systkinunum gátum við treyst á þig. Það voru forréttindi að fá að hafa þig á heimilinu. Við lok menntaskóla slituð þið Þráinn samvistum og þú hættir að koma í Núpstún. Við söknuðum þín en fylgdumst með þér úr fjarska. Nú hefur þú yfirgefið þetta jarðríki, allt of snemma. Við trúum því að þú sért nú á nýjum stað, umvafin englum.

Mikil er sorg fjölskyldu þinnar og vina og hugurinn hefur oft leitað til þeirra undanfarna daga. Við vottum þeim samúð okkar.

Margrét Larsen og

fjölskyldan Núpstúni.