Hvatakerfi Á árinu 2012 gjaldfærði Íslandsbanki 68 milljónir vegna greiðslu kaupauka til framkvæmdastjórnar bankans.
Hvatakerfi Á árinu 2012 gjaldfærði Íslandsbanki 68 milljónir vegna greiðslu kaupauka til framkvæmdastjórnar bankans. — Morgunblaðið/Ómar
Hörður Ægisson hordur@mbl.is Íslandsbanki hefur útvíkkað kaupaukakerfi bankans sem nær nú til um hundrað starfsmanna en þar til á síðasta ári náði það aðeins til framkvæmdastjórnar. Árangurstengdar greiðslur geta að hámarki numið 25% af árslaunum.

Hörður Ægisson

hordur@mbl.is

Íslandsbanki hefur útvíkkað kaupaukakerfi bankans sem nær nú til um hundrað starfsmanna en þar til á síðasta ári náði það aðeins til framkvæmdastjórnar. Árangurstengdar greiðslur geta að hámarki numið 25% af árslaunum.

Þau svör fengust frá Íslandsbanka að kaupaukakerfið byggi á ströngum ramma sem er settur af Fjármálaeftirlitinu (FME). Sá rammi sé hins vegar ekki fullnýttur heldur nemi kaupaukagreiðslur að meðaltali um 14% af árslaunum. Hluta greiðslu kaupauka er frestað að lágmarki í 3 ár.

Íslandsbanka segir að kerfið hafi verið „samþykkt af stjórn bankans eftir umfjöllun starfskjaranefndar og tekur til margra mimsmunandi þátta, meðal annars þátta sem stuðla að heilbrigðum viðskiptaháttum, bættu starfsumhverfi og minni áhættu.“

Kaupaukakerfi Íslandsbanka er sambærilegt að umfangi og hjá Arion banka en frá því var greint í Morgunblaðinu í nóvember að bankinn hefði innleitt kaupaukakerfi fyrir 100 starfsmenn.

Ekki hefur verið tekið upp neitt kaupaukakerfi í Landsbankanum en starfsmenn Landsbankans fengu hins vegar sl. sumar afhent hlutabréf í bankanum að verðmæti 4,7 milljarða króna. Meira en helmingur hlutafjársins rann til greiðslu opinberra gjalda.

Árangurstengdar greiðslur til starfsmanna fjármálafyrirtækja hafa sætt talsverðri gagnrýni í kjölfar alþjóðlegu fjármálakreppunnar haustið 2008. Óhóflegir kaupaukar eru taldir hafa ýtt undir of mikla áhættusækni starfsmanna sem um leið hafi aukið á kerfislæga áhættu. Í ársbyrjun tóku gildi reglur í ESB sem kveða á um að kaupaukagreiðslur megi ekki vera hærri en sem nemur tvöföldum árslaunum.

Íslensku reglurnar eru meira íþyngjandi. Samkvæmt reglum FME mega kaupaukar ekki fara fram úr 25% af árslaunum og ávallt skal fresta að minnsta kosti 40% greiðslunnar í að lágmarki 3 ár.