Erfitt Vignir Svavarsson og félagar hans í íslenska landsliðinu hittu fyrir ofjarla sína. Hér er Vignir með boltann í leiknum gegn Dönum.
Erfitt Vignir Svavarsson og félagar hans í íslenska landsliðinu hittu fyrir ofjarla sína. Hér er Vignir með boltann í leiknum gegn Dönum. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
EM 2014 Guðmundur Hilmarsson gummih@mbl.is Danska hraðlestin er hreint óstöðvandi og ef fram heldur sem horfir hampa Danir Evrópumeistaratitlinum á heimavelli á sunnudaginn.

EM 2014

Guðmundur Hilmarsson

gummih@mbl.is

Danska hraðlestin er hreint óstöðvandi og ef fram heldur sem horfir hampa Danir Evrópumeistaratitlinum á heimavelli á sunnudaginn. Danir áttu ekki í vandræðum með að innbyrða sjötta sigur sinn í jafnmörgum leikjum þegar þeir lögðu Íslendinga, 32:23, í Boxinu svokallaða í Herning að viðstöddum rúmlega 14.000 áhorfendum sem troðfylltu þetta glæsilega mannvirki. Leikurinn var marklaus fyrir þær sakir að fyrir hann var ljóst að íslenska liðið spilaði um 5. sætið. Það varð ljóst eftir sigur lærisveina Patreks Jóhannessonar í austurríska liðinu á Ungverjum og líklegt er að þau úrslit hafi dregið úr kraftinum og baráttunni í íslenska liðinu.

Vörn og markvarsla gerði útslagið

Minni spámenn, ef svo skyldi kalla í danska liðinu, fengu tækifæri til að láta ljós sitt skína og þeir gáfu íslenska liðinu engin grið. Danir tóku leikinn strax í sínar hendur og fljótlega í síðari hálfleik var ljóst í hvað stefndi. Það var einkum og sér í lagi öflug vörn Dana sem gerði íslensku leikmönnunum lífið leitt og varamarkvörðurinn Jannick Gree. Á meðan hann varði hvert skotið á fætur öðru var markvarslan lítil sem engin hjá íslenska liðinu en vörnin var líka mjög götótt og það gerði markvörðunum enn erfiðara fyrir.

Árangur íslenska landsliðsins á Evrópumótinu er sá þriðji besti frá upphafi og það er ekki annað hægt en að hrósa því fyrir vasklega framgöngu í keppninni þó svo að það hafi í gær hitt fyrir offjarla sína. Það breytti engu þó svo að Danir hvíldu heimsklassa leikmenn á borð við Mikkel Hansen og markvörðinn Nicklas Landin og varnar- og línujaxlinn Rene Toft Hansen. Enginn þeirra kom við sögu í leiknum og það sýnir þá gríðarlega miklu breidd sem er í danska liðinu en meiðsli hafa sett töluvert strik í reikninginn hjá mörgum leikmönnum Íslands eins og margoft hefur komið fram. Fyrirfram voru ekki margir sem spáðu því að Ísland ætti möguleika á að ná þetta langt í þessu sterka móti miðað við undirbúninginn og meiðslavandræðin sem landsliðsþjálfarinn Aron Kristjánsson hefur þurft að glíma við.

Fyrirliðinn Guðjón Valur Sigurðsson stóð uppúr í íslenska liðinu og þessi magnaði leikmaður er nú orðinn markahæstur á Evrópumótinu og flest bendir til þess að hann verði markakóngur keppninnar. Ásgeir Örn og Aron Pálmarsson byrjuðu vel en það fjaraði fljótlega undan þeim eins og öllu íslensku liðinu sem tapaði fyrir Evrópumeisturunum og líklega besta landsliði heims í dag.

Mæta Póllandi í leiknum um 5. sætið

Pólverjar verða andstæðingar Íslendinga í leiknum um 5. sætið í Herning á morgun og þar mega íslensku leikmennirnir búa sig undir hörkurimmu. Pólverjarnir hafa sýnt flott tilþrif á mótinu en vonandi leika strákarnir sama leik og í Austurríki hér um árið en þá lögðu Íslendingar lið Pólverja í leiknum um bronsið.