Jóhann Gestsson fæddist á Fáskrúðsfirði 5. júlí 1933. Hann lést á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Uppsölum, Fáskrúðsfirði 7. janúar 2014.

Útför Jóhanns fór fram frá Fáskrúðsfjarðarkirkju 14. janúar 2014.

Góður drengur og grandvar er af heimi horfinn. Hann varð að lúta í lægra haldi fyrir þeim vágesti sem enn herjar svo grimmt og leggur svo alltof margt fólk að velli. Fjarri var það hugsun okkar við síðustu samfundi að svo skjótt yrði samfylgd okkar lokið, enda var hann ekki kvartsár eða vílsamur. Þá vorum við einmitt að færa honum einlægar þakkir fyrir þá dýrmætu umhyggjusemi sem hann sýndi Skafta bróður og mági á hans síðustu erfiðu dögum, en víst er að umhyggju hans urðu miklu fleiri aðnjótandi sem minnast hans nú með þakklæti. Hann var óbrigðull vinur okkar alla tíð, honum mátti treysta í hvívetna, það voru fagnaðarfundir hverju sinni sem leiðir lágu saman. Hann Jói Gests, eins og hann var ævinlega kallaður, var ágætlega greindur og gjörhugull var hann, myndaði sér ákveðnar skoðanir og var þeim trúr í orðum og gjörðum, vinnusamur og verkatrúr, samvizkusamur svo af bar. Hann var einlægur og dyggur félagshyggjumaður, róttækur alla tíð, það var sannarlega gott og gjöfult að eiga hann í fylgissveit, hann var fylginn sér í þjóðmálunum, örugg var fylgd hans, en hann átti einnig til að bera þá hreinskilni að gagnrýna þá hluti sem honum þótti að betur hefði mátt gjöra, en þeim mun betra var líka að fá hrósyrði frá honum, sem glöddu hug og hvöttu fram á veginn. Ekki skyldi gleymt órofatrú hans á gildi hollra lífshátta. Ásamt okkur vann hann ungur göfugt heit bindindisins. Því heiti brást hann aldrei og gott var að lokinni 50 ára fylgd hans við mætan málstað að mega veita honum heiðursmerki Bindindissamtakanna á Íslandi sem hann tók á móti þakklátum og glöðum huga. Slíka hugsjónamenn er dýrmætt hverri hreyfingu að eiga. Austur á Fáskrúðsfjörð leitar hugur okkar nú á kveðjustund þegar sá tryggi vinur Jóhann Gestsson er kvaddur í mikilli og góðri þökk fyrir kynnin kær og gefandi. Blessuð sé skínandi björt minning hins góða drengs.

Jóhanna Þóroddsdóttir

og Helgi Seljan.