Upprennandi Gunnar (t.h.) með Jóni Atla og Ágústi. Á myndina vantar Ben Mathis. „Sýndarþjálfarinn hefst strax handa við að fylgja notandanum skref fyrir skref í gegnum heilt æfinga-prógramm,“ segir Gunnar.
Upprennandi Gunnar (t.h.) með Jóni Atla og Ágústi. Á myndina vantar Ben Mathis. „Sýndarþjálfarinn hefst strax handa við að fylgja notandanum skref fyrir skref í gegnum heilt æfinga-prógramm,“ segir Gunnar. — Morgunblaðið/Þórður
• Snjohus Software kynnir þrívíddar-einkajálfara fyrir snjallsímann • Heyrðu víða á sprotastiginu að best væri að stofna fyrirtæki af þessari gerð utan Íslands • Vfit Trainer býður upp á persónulega þjálfun og órofið flæði æfinga frá fyrstu upphitun yfir í síðustu teygjur

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Nú mega einkaþjálfarar fara að vara sig, því fyrr í mánuðinum kom í snjallsímabúðir Apple og Android nýtt forrit sem breytir snjalltækjum í fullkominn líkamsræktarþjálfara. Forritið heitir Vfit Trainer (www.vfit-trainer.com) og kemur úr smiðju íslenska hugbúnaðarsprotans Snjohus Software.

Gunnar Freyr Róbertsson er þar markaðsstjóri: „Upphafsmennirnir að fyrirtækinu eru þeir Ágúst Karlsson og Ben Mathis sem báðir hafa starfað í leikjabransanum um árabil, m.a. hjá Latabæ, CCP og komið að gerð leiks í Tony Hawk-seríunni. Þeir tóku þátt í Startup Reykjavík með hugmynd að nýrri tegund líkamsræktar-snjallsímaforrits og hlutu þar brautargengi. Í framhaldinu komum við inn þeim til halds og trausts, ég sjálfur og Jón Atli Hermannsson.“

Byrjun á byltingu?

Snjohus má lýsa sem þrívíddarstúdíói sem sérhæfir sig í þrívíddarlausnum fyrir snjallsímaforrit. „Vfit Trainer er okkar aðalvara og fyrsta stóra forritið sem við sendum frá okkur. Það sem verið er að gera með þessu forriti er kannski framtíðarlausnin í hvers konar persónulegum þjónustu-snjallforritum, þar sem þrivíður tölvupersónuleiki leiðbeinir og aðstoðar.“

Í Vfit Trainer er þannig að finna spengilegan og stæltan þjálfara sem hreyfir sig í þrívídd og sýnir hvernig gera á allar æfingar rétt. Þjálfarinn leiðir notandann í ótrufluðu flæði í gegnum breytilegar æfingar og tekur tillit til óska og getu notandans.

„Þegar má finna á markaðinum ýmis forrit sem eiga að hjálpa fólki við æfingarnar. Fullkomnustu forritin ganga svo langt að sýna upptökur af æfingunum, en hafa þann ókost að hvert myndskeið er lengi að hlaðast, og notandinn þarf stöðugt að vera að snerta símann til að fara fram og til baka milli æfinga. Vfit Trainer skilar mun notendavænni upplifun, þar sem þarf ekki annað en að stilla inn hversu langan tíma á að taka í æfingarnar og svo koma símanum eða spjaldtölvunni fyrir á góðum stað. Sýndarþjálfarinn hefst strax handa við að fylgja notandanum skref fyrir skref í gegnum heilt æfinga-prógramm, allt frá upphitun yfir í teygjur,“ segir Gunnar.

„Fyrsta æfingin er stöðupróf þar sem forritið byrjar strax að læra á getu og óskir notandans, og við hverja æfingu getur notandinn gefið til kynna hvort honum líkar eða ekki við æfinguna. Þær æfingar sem honum þykja skemmtilegri koma þá oftar upp, en hinar sjaldnar.“

Einkaþjálfari í áskrift

Vfit Trainer hefur þegar fengið ágætar móttökur og segir Gunnar að án mikillar kynningar séu þegar um tvöþúsund manns búin að sækja sér forritið. „Við munum reyna að vekja athygli á forritinu með því að komast í samband við ýmsar vefsíður og bloggara sem sérhæfa sig í íþróttalausnum. Þannig mun smám saman takast að koma Vfit í umræðuna og stækka notendahópinn.“

Tekjumódelið gerir ráð fyrir því að þeir sem vilja opna alla notkunarmöguleika Vfit Trainer borgi 3,99 dali á mánuði í áskrift. „Forritið er í grunninn ókeypis og með aukinni notkun er hægt að vinna „stig“ sem nota má til að opna fyrir fleiri tegundir æfinga.“

Safnast þegar saman kemur og þó 3,99 dalir hljómi ekki eins og mikið getur notendahópurinn orðið æði stór: „Vinsælustu líkamsræktar-snjallforitin í dag hafa verið sótt 45 milljón sinnum, sem ætti að gefa ágæta hugmynd um möguleikana sem leynast á þessu sviði.“