Smíði Björn Jónsson með sögina. Fyrir miðri mynd er Hólshyrna, fjallið sem setur mjög sterkan svip á bæinn.
Smíði Björn Jónsson með sögina. Fyrir miðri mynd er Hólshyrna, fjallið sem setur mjög sterkan svip á bæinn. — Morgunblaðið/Sigurður Ægisson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Á Siglufirði eru hafnar framkvæmdir við byggingu nýs 68 herbergja hótels sem stefnt er að að taka í notkun á næsta ári. Að grunnfleti verður húsið um 3.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Á Siglufirði eru hafnar framkvæmdir við byggingu nýs 68 herbergja hótels sem stefnt er að að taka í notkun á næsta ári. Að grunnfleti verður húsið um 3.400 fermetrar og er byggingarkostnaður áætlaður um 1,2 milljarðar króna. Það er Siglfirðingurinn Róbert Guðfinnsson, fjárfestir og athafnamaður, sem stendur að þessu verkefni. Á hans vegum voru á sínum tíma undir merkjum Rauðku hf. endurgerðar byggingar á hafnarsvæðinu á Siglufirði þar sem í dag eru veitinga- og matsölustaðirnir Hannes boy, Kaffi Rauðka og Bláa húsið.

Ferðamönnum sem koma til Siglufjarðar hefur fjölgað mikið á síðustu árum. Það helst í hendur við betri samgöngur um Héðinsfjarðargöng og svo almenna uppbyggingu í ferðaþjónustu. „Nú vantar tilfinnanlega meira gistirými svo ferðaþjónusta hér í bænum nái að dafna á þann hátt sem forsendur eru fyrir. Menn skjóta á að hingað komi um 40-50 þúsund ferðamenn yfir árið og vetrargestum fjölgar mjög, til dæmis í tengslum við skíðasport,“ segir Finnur Yngvi Kristinsson, verkefnisstjóri hjá Rauðku.

Gistihúsið nýja, Hótel Sunna eins og það á að heita, verður tveggja hæða bygging og hvert herbergjanna 68 tekur tvo til þrjá gesti. „Þetta er mjög spennandi verkefni og framkvæmdir hafa farið vel af stað. „Vel hefur viðrað frá áramótum og nú er búið að steypa sökkla. Svona tökum við hvern áfangann á fætur öðrum. Ætlum við okkur að opna í maí á næsta ári, það er 2015,“ segir Finnur. Það er Selvík, systurfélag Rauðku, sem stendur að byggingu hótelsins en iðnaðarmenn úr Fjallabyggð eru í eldlínu framkvæmdanna.