Árni Thoroddsen
Árni Thoroddsen
Eftir Árna Thoroddsen: "Það er algjörlega ómögulegt að hægt sé að setja á einhverja kynjakvóta."

Svona hljóðar 65. grein Stjórnarskrár Íslands: „Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.“

Samkvæmt þessari stjórnarskrárgrein er ljóst að ekki má mismuna fólki á grundvelli kynferðis. Þetta þýðir að ekki megi gera betur við annað kynið en hitt á grundvelli einhverrar lagasetningar og lagasetning má ekki hafa í för með sér mismunun á milli kynja á vegum þeirra sem sýsla með hag fólks.

Það er algjörlega ómögulegt að hægt sé að setja á einhverja kynjakvóta, þar sem tryggt er að útkoma kynjanna samkvæmt einhverjum mælikvarða verði á ákveðinn hátt, án þess að þar með sé beitt mismunun á grundvelli kyns. Ef engin slík mismunun færi fram þýðir það að útkoma kynjanna væri nákvæmlega eins án kynjakvótans og með kynjakvótanum, og væri þá tilgangslaust að beita kynjakvóta.

Það er enginn vandi fyrir dómara að skera úr um hvar mismunun af þessu tagi hefur verið beitt vegna lagasetningar. Hann þarf aðeins að ákvarða hvaða athafnir hafa átt sér stað vegna hinnar mismununarvaldandi löggjafar (t.d. einstaklingur A var skipaður í einhverja stöðu vegna löggjafarinnar) og krefjast þess að ákvarðanaferlið sé endurtekið án slíkrar mismununar.

Hins vegar verða menn að gera sér grein fyrir að mismunur er ekki alltaf rekjanlegur til mismununar. T.d. er mismunur á fjölda kvenna og karla sem sitja í stjórnum fyrirtækja sennilega ekki vegna mismununar (þótt enginn geti vitað slíkt með vissu án þess að skoða í smáatriðum sérhverja einstaka skipun í stjórn fyrirtækja). Hann byggist á því að þegar menn skipa í stjórn fyrirtækja vilja menn forðast að velja einstaklinga sem eru hættulega heimskir, eða fljótfærir, hættulega siðblindir og óheiðarlegir eða sýnt er að ekki sé hægt að treysta þeim. Að auki vilja menn helst ekki hvatyrta, eða hvassyrta svo ekki sé talað um ógæfumenn, inn á stjórnarfundi þar sem örlög og gæfa fyrirtækja er ákveðin. Ýmsir ótaldir eiginleikar svo sem skrafgirni bætast við þessa upptalningu og getur það verið misjafnt eftir því hver er að skipa stjórnarmenn.

Fólk er því gjarnt á að velja einhverjar persónur sem það þekkir og þekkir þannig að það beri eitthvert traust til þeirra. Úr leik dæmast allir þeir sem fólk þekkir lítið eða ekki. Ekkert bendir til þess að mismunun á grundvelli kyns leiki þarna hlutverk, þótt líklegt sé að fólk sem ræður í fyrirtækjastjórnir þekki almennt betur til hegðunar og fortíðar ýmissa karlmanna þegar kemur að rekstri og viðskiptum stofnana og fyrirtækja.

Sú hugmynd að leiðrétta einhverja ímyndaða kynjamismunun með kynjakvóta er því ekki bara yfirgengilega heimskuleg (ætla mætti að hún sé upprunnin hjá örvitadeild femínista) og þar að auki hugsanlega hættuleg farsælum fyrirtækjarekstri í landinu. Það sem er miklu alvarlegra er að hún er beint og augljóst brot á Stjórnarskrá Íslands. Fjöldi málaferla mun því líklegast hljótast af kynjakvótanum. Það eitt og án frekari rökstuðnings ætti að nægja til að vísa kynjakvótum út í hafsauga.

En ennþá hættulegri og skaðlegri framtíðargjafir bíða okkar frá örvitadeild femínista. Þeir vilja leiðrétta útkomu kosninga hvað kynjafjölda varðar á Alþingi og í ríkisstjórn með öllum tiltækum og ótiltækum ráðum. Stjórnarskrá, mannréttindi og lýðræði er þar engin fyrirstaða. Þeir vilja því afnema lýðræði og meirihlutakosningar og helst með því að fjölga meðlimum frá örvitadeild femínista á Alþingi og í ríkisstjórn.

Reynsla okkar af kynjafasisma þeirra er ekki slík, að þetta geti talist björt framtíðarsýn. Þótt sjálfur sé ég ekki í aðdáunarhópi flestra þeirra karlmanna sem á þingi sitja, og sé alveg til í að skipta þeim út fyrir greindar, hófsamar og víðsýnar konur, þá er ég ófús að setja hér upp einhver konar „bimbocracy talibanskra femínista“.

Höfundur er kerfishönnuður.