Jónas Pétur Vilberg Guðnason, ljósmyndari á Eskifirði, fæddist 4. desember 1924. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Hulduhlíð hinn 6. janúar 2014. Hann var næstelstur fjögurra barna þeirra Guðna Jónssonar trésmiðs og Guðnýjar Pétursdóttur. Systkini Vilbergs eru Hjalti Guðnason, f. 9.7. 1912, d. 21.12. 1987, Guðni Sigþór Guðnason, f. 8.11. 1926, d. 25.2. 1993, og Steinunn Guðnadóttir, f. 30.8.1930.

Vilberg kvæntist hinn 30. apríl 1960 Fanneyju Guðnadóttur, saumakonu á Eskifirði, f. 7.7. 1917, d. 29.12. 2002. Vilberg ólst upp á Eskifirði og lærði ljósmyndun í Iðnskólanum í Reykjavík og var lærlingur hjá Sveini Guðnasyni, ljósmyndara á Eskifirði. Hann vann um tíma hjá Hans Petersen í Reykjavík samhliða námi. Á yngri árum lagði hann stund á tónlist og tók þátt í lúðrasveitastarfi á Eskifirði og Norðfirði, og þá m.a. með föður sínum og bróður sínum Hjalta. Eftir nám kom hann aftur til Eskifjarðar og starfaði sem ljósmyndari á Austurlandi og rak ljósmyndastofu í húsi þeirra hjóna, Hnitbjörgum, á Eskifirði allt til starfsloka. Fanney eiginkona hans rak samtíða saumastofu á efri hæðinni. Eftir Vilberg liggur ljósmyndasafn sem segir sögu fjölskyldna og atvinnulífs á fjörðunum á starfsævi hans. Útför Vilbergs verður gerð frá Eskifjarðarkirkju í dag, 17. janúar 2014, kl. 14.

Með hlýju og virðingu kveð ég Vilberg Guðnason ljósmyndara frá Eskifirði. Ég hygg að ég hafi fyrst komið með Benna til þeirra hjóna á Standgötuna haustið 1979 til að fá elstu börnin tvö mynduð. Mér er enn minnisstæð þessi ferð niður á Eskifjörð til Vilberts og Fanneyjar, þessi hlýja, barngæska og góðu móttökur sem fönguðu okkur öll. Börnunum fjölgaði ört og öll fóru þau í myndatöku til Vilbergs frænda. En á myndastofunni kenndi ýmsa grasa í myndum Vilbergs. Þar voru myndir af landslagi, náttúru, mannlífi og atvinnulífi. Ánægjulegt var að sjá myndir af skipa- og bátaflotanum og síldarstúlkunum úti á plani en Vilberg starfaði mikið utan ljósmyndastofunnar. Og eru myndirnar því góð aldafarslýsing þeirra áratuga sem Vilberg mundaði myndavélina. Sérstaklega vöktu athygli mína málaðar landslagsmyndir, sumar feikilega stórar. Ekki var í kot vísað upp til þeirra hjóna, þar var í senn heimili þeirra og saumastofa Fanneyjar sem oftar en ekki var að sauma glæsilegan fatnað. Börnunum þótti mikill ævintýrablær vera yfir húsinu en þar var allt svo gott að hvergi voru til betri eða stærri appelsínur en þau voru nestuð með til heimferðar. Margt bar á góma í samræðum yfir kaffi og góðu meðlæti en hjónin höfðu bæði góðan frásagnarhæfileika. Vilberg var húmoristi og hafði gaman að segja frá skemmtilegum karakterum en Fanney sagði frá ferðalögum þeirra þannig að mér fannst ég upplifa frásögnina í lifandi myndum. Stuttu eftir fráfall Fanneyjar flutti Vilberg í Hulduhlíð, fyrstu árin var hann sjálfstæður og fór langar gönguferðir innan bæjar eða á bílnum og skoðaði fjörðinn sinn, fyrir kom að hann kom upp í Hérað. Síðustu árin, þegar heilsu og styrk hrakaði, naut hann einstakrar umönnunar hjúkrunarfólks Hulduhlíðar. Vilbergi bið ég guðs blessunar og upp í hugann kom ljóð eftir Árna Helgason frá Eskifirði.

Við finnum svo oft þegar klukkurnar kalla

að klökkvi um huga manns fer.

Bið ég Guð föður og englana alla

að annast og vaka yfir þér.

Aðstandendum öllum votta ég innilega samúð mína.

Jóna Óskarsdóttir.

Meðal fyrstu minninga minna af Vilbergi móðurbróður mínum eru frá því hann leiddi mig frá Reykholti, húsi ömmu og afa inn að Guðnahúsi þar sem hann hafði vinnustofu fyrstu árin. En á hæðinni bjó Fanney unnusta Vilbergs og tengdafólk hans. Í vinnustofu Vilbergs var mikið af tómum filmuspólum sem ég hafði mjög gaman af að leika sér mér að, fékk ég gjarnan nokkrar spólur með, afi hjálpaði mér að negla spólurnar á kubba og var þá búið að smíða bíla og vagna sem ég lék mér með.

Þitt starf var farsælt, hönd þín hlý

og hógvær göfgi svipnum í.

Þitt orð var heilt, þitt hjarta milt

og hugardjúpið bjart og stillt.

(Jóhannes úr Kötlum.)

Vibbi eins og ég kallaði frænda minn oftast tók flestar fjölskyldumyndir í stofunni hjá afa og ömmu fyrstu árin sem ljósmyndari. Síðar þegar Vibbi og Fanney höfðu byggt sér hús við Standgötuna hafði hann alla ljósmyndaaðstöðu á neðri hæðinni, en íbúðin var á efri hæðinni. Fanney var svo saumkona og hafði vinnustofu sína í íbúðinni. Mikið annríki var oftast hjá frænda mínum þar sem jafnhliða rekstri ljósmyndastofunnar tók hann fjöldann allan af landslagsmyndum, myndaði viðburði úr atvinnulífinu og hátíðahöld. Skip og bátar voru ofarlega í huga hans sem myndefni, sem strákur teiknaði hann mikið af báta- og skipamyndum. Vibbi hafði áhuga fyrir mönnum og málefnum og hafði oftar en ekki á takteinum skemmtilegar frásagnir af samferðamönnum sínum. Hjónin höfðu ánægju af bílferðum, hvort sem var að ræða upp í Hérað eða lengri ferðir hafði hann ævinlega myndavélina með sér. Vibbi frændi er og verður ævinlega ofarlega í huga mér og vil ég þakka þeim hjónum ánægjulegar stundir. Síðustu árin dvaldi Vilberg í góðu yfirlæti í Hulduhlíð og kann ég starfsfólki öllu bestu þakkir fyrir.

Vilberg, takk fyrir allt og allt blessuð sé minning þín.

Benedikt Guðni Þórðarson.