Sækir Lele Hardy úr Haukum með boltann en Hallveig Jónsdóttir úr Val fylgist með henni. Valskonur gerðu góða ferð á Ásvelli og unnu þar stóran sigur.
Sækir Lele Hardy úr Haukum með boltann en Hallveig Jónsdóttir úr Val fylgist með henni. Valskonur gerðu góða ferð á Ásvelli og unnu þar stóran sigur. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Njarðvíkurkonur komu heldur betur á óvart í gærkvöld þegar þær gerðu sér lítið fyrir og sigruðu granna sína í Keflavík, 66:57, í úrvalsdeild kvenna í körfuknattleik.

Njarðvíkurkonur komu heldur betur á óvart í gærkvöld þegar þær gerðu sér lítið fyrir og sigruðu granna sína í Keflavík, 66:57, í úrvalsdeild kvenna í körfuknattleik. Leikið var í TM-höllinni í Keflavík, þar sem heimaliðið vann þægilegan 19 stiga bikarsigur í leik sömu liða á mánudagskvöldið.

Njarðvíkurliðið, sem situr á botni deildarinnar, náði heldur betur að svara fyrir það, vann sinn þriðja sigur í síðustu fimm leikjunum og er nú allt í einu búið að hleypa spennu í botnbaráttu deildarinnar. Nikitta Gartrell hefur komið sterk til leiks með liðinu eftir áramót en hún skoraði 16 stig og tók 12 fráköst í gærkvöld.

Snæfell nýtti tækifærið og náði sex stiga forystu í deildinni með því að vinna nauman sigur á KR, 67:65, í Stykkishólmi en Snæfell hefur þá unnið sjö leiki í röð. KR var yfir 18 sekúndum fyrir leikslok en Hildur Sigurðardóttir gerði síðustu þrjú stig leiksins úr vítaskotum, tvö þau síðustu þegar ein sekúnda var eftir.

Haukar, sem eru jafnir Keflvíkingum í öðru til þriðja sæti, töpuðu líka á heimavelli, 69:91 gegn Valskonum. Með þessum sigri styrktu Valsarar verulega stöðu sína í fjórða sæti deildarinnar og eru þar nú fjórum stigum á undan Hamri og KR. Anna Martin fór á kostum með Val og skoraði 36 stig en Lele Hardy gerði 21 fyrir Hauka.

Hamar gerði góða ferð til Grindavíkur og vann þar öruggan sigur, 92:79. Þar með er Grindavíkurliðið nú aðeins tveimur stigum á undan Njarðvík við botn deildarinnar og útlit fyrir harðan fallslag. vs@mbl.is